mán 31. ágúst 2015 14:00
Venni Páer
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Til fótboltaáhugamanna
Venni Páer
Venni Páer
Mynd: Getty Images
Nú er nokkuð langt um liðið síðan ég skrifaði seinasta pistil á þessari síðu eins og öllum er ljóst. Gæði síðunnar hafa augljóslega beðið talsverðan skaða og sé ég mig því tilneyddan gegn umtalsverðri þóknun að taka upp þráðinn að nýju. Í stað þess að einblína bara á nokkur lið í deildinni ætla ég að skrifa um sum þeirra.

Fyrsta mál á dagskrá er augljóslega að ákveða hvaða lið eru áhugaverð. Besta aðferðin til að ákveða það er að rannsaka þau öll ítarlega án fordóma. Ég ætla að taka þau fyrir í stafrófsröð til þess að gæta fyllsta hlutleysis.

Ég verð að viðurkenna að ég hef góða tilfinningu fyrir fyrsta liðinu. Reyndar mjög góða. Þar virðast vera góð vinnubrögð viðhöfð, snyrtilegir búningar, mikill metnaður, myndarlegir leikmenn og fágaðir stuðningsmenn.

Það sem vekur strax athygli mína við AFC Bournemouth er að í liðinu er Dan Gosling. Það sem er enn áhugaverðara er að það skuli strax vekja athygli mína að Dan Gosling sé í liðinu því ég kann engin frekari deili á honum.

Árangur liðsins á seinustu leiktíð var frekar slakur. Þrátt fyrir að hafa unnið 26 deildarleiki þá komu allir sigrarnir gegn neðrideildar liðum, að einum undanskildum. Það að liðið hafi leikið í neðri deild er engin afsökun og það er óskandi að þeir hysji upp um sig stuttbuxurnar á þessari leiktíð.

Liðið hét upphaflega Boscombe F.C. Hvað F.C. stóð fyrir er ekki ljóst enda var fyrsti forseti félagsins J. C. Nutt mikill sprelligosi, hálf klikkaður og var aldrei kallaður annað en Hr. Nutty.

AFC Bournemouth kemur augljóslega sterklega til greina sem áhugaverður klúbbur til að fjalla um í vetur.

Facebook síða Venna Páer 
Athugasemdir
banner
banner