ÍBV kom sér í efri hlutann í Bestu deild karla er liðið lagði ÍA að velli, 2-0, á Hásteinsvelli í dag.
Eyjamenn voru með vindinn í bakið í fyrri hálfleiknum og náðu að skapa sér margar hættulegar stöður en ekki að ná að binda endahnút á sóknirnar.
Milan Tomic átti sendingu á Vicente Valor undir lok hálfleiksins en skalli hans hafnaði í þverslá.
Í þeim síðari skiptust liðin á færum en það voru Eyjamenn sem nýttu sín. Þorlákur Breki Baxter skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Oliver Heiðarssyni.
Tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma fengu Skagamenn algert dauðafæri til að jafna leikinn. Birgir Ómar Hlynsson átti arfaslaka sendingu til baka sem Gísli Laxdal Unnarsson komst inn í og náði skotinu, en Marcel sá við honum í markinu. Illa farið með dauðafæri.
Undir lok leiks fengu Eyjamenn vítaspyrnu. Hermann Þór Ragnarsson var tekinn niður í teignum og var það varamaðurinn Sverrir Páll Hjaltested sem var settur í það hlutverk að tryggja sigurinn sem og hann gerði.
Frábær sigur Eyjamanna sem eru nú komnir í 6. sæti með 28 stig og eru sem stendur í efri hlutanum, en ÍA áfram á botninum með aðeins 16 stig og ljóst að það þarf eitthvað mikið að gerast til að liðið fari ekki niður um deild.
Jafnt á Ísafirði
Vestri og KR skildu jöfn, 1-1, á Kerecis-vellinum á Ísafirði.
Vladimir Tufegdzic kom Vestra í forystu á 18. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Diego Montiel.
Heimamenn áttu að komast í 2-0 forystu nokkrum mínútum síðar er Montiel kom boltanum inn á Gunnar Jónas Hauksson sem reyndi að lyfta boltanum yfir Halldór Snæ Georgsson sem varði vel.
Aron Þórður Albertsson jafnaði fyrir KR undir lok hálfleiksins með hörkuskoti sem Guy Smit kom engum vörnum við. Fyrsta mark Arons í sumar.
Vestri var hættulegri aðilinn í þeim síðari þó KR-ingar hafi haldið betur í boltann.
Túfa átti að bæta við öðru marki sínu er hann slapp í gegn, en Halldór varði frá honum. Frákastið fór aftur til Túfa sem reyndi aftur, en það fór í varnarmann.
Fleiri urðu mörkin ekki á Ísafirði og lokatölur því 1-1. Vestri dettur niður í 7. sæti deildarinnar með 27 stig en KR áfram í 10. sæti með 24 stig.
Sigurður Bjartur hetja FH-inga
FH-ingar unnu mikilvægan 2-1 sigur á fallbaráttuliði Aftureldingar á Malbikstöðinni að Varmá í dag.
Helsta vopn FH-inga til að byrja með voru hornspyrnurnar hjá Böðvari Böðvarssyni. Jökull Andrésson, markvörður Aftureldingar, var oft í basli með þær og gestirnir sterkari aðilinn.
Björn Daníel Sverrisson skoraði fyrir FH á 29. mínútu. Kjartan Kári Halldórsson kom með laglega sendingu inn á Björn sem stangaði boltann í netið.
Nokkrum mínútum síðar fengu heimamenn vítaspyrnu er Baldur Kári Helgason braut á Bjarti Bjarma. Hrannar Snær Magnússon skoraði úr vítaspyrnunni og allt jafnt.
Í síðari hálfleiknum skoraði FH eina markið sem þótti afar umdeilt. Boltinn kom inn á teiginn og fóru Jökull og Sigurður Bjartur Hallsson upp í bolta sem datt síðan fyrir Sigurð og þaðan í netið.
Jökull missti boltann úr höndunum og taldi Sigurð hafa brotið á sér, en engin aukaspyrna dæmd og markið dæmt gott og gilt.
Afturelding fékk alveg færi til þess að jafna leikinn seint í leiknum en náði ekki að skila boltanum í netið og lokatölur í Mosfellsbæ, 2-1, FH í vil.
FH er í 5. sæti með 29 stig og í góðri stöðu fyrir lokaumferðina áður en deildinni verður skipt í tvo hluta, en Afturelding í 11. sæti með 21 stig.
Úrslit og markaskorarar:
ÍBV 2 - 0 ÍA
1-0 Þorlákur Breki Þ. Baxter ('66 )
2-0 Sverrir Páll Hjaltested ('93 , víti)
Lestu um leikinn
Vestri 1 - 1 KR
1-0 Vladimir Tufegdzic ('18 )
1-1 Aron Þórður Albertsson ('44 )
Lestu um leikinn
Afturelding 1 - 2 FH
0-1 Björn Daníel Sverrisson ('29 )
1-1 Hrannar Snær Magnússon ('34 , víti)
1-2 Sigurður Bjartur Hallsson ('57 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Valur | 20 | 12 | 4 | 4 | 51 - 31 | +20 | 40 |
2. Víkingur R. | 20 | 11 | 5 | 4 | 38 - 25 | +13 | 38 |
3. Stjarnan | 21 | 11 | 4 | 6 | 41 - 34 | +7 | 37 |
4. Breiðablik | 19 | 9 | 5 | 5 | 34 - 29 | +5 | 32 |
5. FH | 21 | 8 | 5 | 8 | 39 - 33 | +6 | 29 |
6. ÍBV | 21 | 8 | 4 | 9 | 23 - 27 | -4 | 28 |
7. Vestri | 21 | 8 | 3 | 10 | 22 - 24 | -2 | 27 |
8. KA | 21 | 7 | 5 | 9 | 25 - 38 | -13 | 26 |
9. Fram | 20 | 7 | 4 | 9 | 28 - 28 | 0 | 25 |
10. KR | 21 | 6 | 6 | 9 | 42 - 44 | -2 | 24 |
11. Afturelding | 21 | 5 | 6 | 10 | 28 - 36 | -8 | 21 |
12. ÍA | 20 | 5 | 1 | 14 | 20 - 42 | -22 | 16 |
Athugasemdir