„Ég er ótrúlega glaður. Þetta var magnaður bikarleikur. Hálf fúlt að ná ekki að klára þetta í venjulegum leiktíma. En við höfum fína reynslu af því, við fórum nánast í gegnum sama leik fyrir austan í 8-liða úrslitunum. Við höfðum alltaf trú á því að við myndum fara áfram. Smá þjáningar í framlengingunni. Svo er Jón Kristinn frábær vítabani og gerði þetta mjög vel.“ sagði Brynjar Kristmundsson, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, eftir 3-3 jafntefli við Gróttu í dag en Ólsarar unnu í vítaspyrnukeppni og fara á Laugardalsvöll næsta föstudagskvöld.
Lestu um leikinn: Grótta 6 - 7 Víkingur Ó.
„Mér fannst við halda þeim lengur frá markinu okkar í venjulegum leiktíma en við gerðum í framlengingunni. Jón hélt okkur inn í leiknum og liðið kom sér einhvernveginn í gegnum þetta. Ótrúlega margar tilfinningar og við erum mjög sáttir að vera komnir í úrslitin.“
Mætingin að vestan var gífurlega góð og nánast fleiri Ólsarar mættir en Gróttumenn.
„Þetta var geðveikt og minnti mig á gamla tíma þegar maður var að spila með Víkingi í efstu deild. Gaman að sjá gömul andlit mæta aftur. Ég vona að það mæta ennþá fleiri og bærinn verði tómur næsta föstudagskvöld.“
Þetta er lokatímabil Brynjars með liðið, hversu mikið myndi það þýða fyrir hann að klára þetta á titli á Laugardalsvelli?
„Það myndi gera ótrúlega mikið fyrir mig. Ég náði ekki stóra markmiðinu mínu á þessum tíma með Víking sem var að komast upp en þetta yrði heldur betur fín sárabót ef maður getur hvatt félagið á góðum nótum.“
Tindastóll býður Ólsurum á Laugardalsvelli næsta föstudagskvöld. Hvernig líst Brynjari á þann mótherja?
„Ég horfði á leikinn hjá Tindastól í gær, bara hörkulið. Ég held að þeir séu búnir að slá út mjög góð lið í þessari keppni, Þrótt Vogum og KFG. Það er egnin tilviljun að þetta lið sé þarna. Við þurfum að undirbúa okkur vel, nú erum við komnir áfram. Við þurfum að setja þennan leik til hliðar og undirbúa okkur mjög vel fyrir leikinn því Tindastóll er virkilega gott lið og mjög orkumikið lið.“
Viðtalið við Brynjar má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir