„Eftir situr er að mér fannst við betra liðið fram að markinu sem þeir skora. Mér fannst við að einhverju leyti brotna við markið, mér fannst við óskipulagðir og opnir. Auðvitað vorum við að reyna sækja mark en við getum ekki gert það svona," sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, eftir tap liðsins gegn ÍA á Ísafirði í dag.
Lestu um leikinn: Vestri 0 - 4 ÍA
Vestri fær ÍBV í heimsókn í næsta leik eftir viku.
„Við þurfum að vera klárir í næsta leik. Við þurfum að leggja þann leik upp sem úrslitaleik. Það eru auðvitað fjórir leikir eftir og hver einasti leikur er úrslitaleikur. Hann er á heimavelli, við þurfum að fá alvöru stuðning úr stúkunni. Við þurfum að leyfa liðinu að finna að þeir eru með fólkið sitt á bakvið sig, það er það sem skiptir máli."
Davíð Smári var ósáttur með fyrsta markið sem Gísli Laxdal Unnarsson skoraði.
„Fyrir mér er leikmaður Skagans sex metra fyrir innan, leikmaður Vestra fær boltann og er settur strax undir pressu. Hann veit að leikmaður Skagans er rangstæður og hefur þar að leiðandi ekki áhyggjur af honum."
„Þegar hann tekur við boltanum kemur leikmaður Skagans og stígur upp úr rangstæðunni og kemur í bakið á honum og vinnur boltann. Ég er ekki dómari en mér fannst þetta pjúra rangstaða. Ég held að enginn hefði verið svekktur yfir því ef það hefði verið dæmd rangstaða. Ég er líka gríðarlega ósáttur með það að Anton Kralj stoppar og setur hendur upp í loft og óskar eftir rangstöðu."
„Við vitum það að við getum ekki óskað eða gargað eftir einu né neinu. Ef þú heyrir flaut getur þú hætt en ef þú heyrir ekki flaut heldur þú áfram. Þetta er ekki flóknara heldur en það. Dómarar gera mistök og fyrir mér voru þetta mistök, ekki nógu stór fyrir þá að viðurkenna mistök."
Fatai Gbadamosi þurfti var borinn af velli vegna meiðsla. Davíð Smári segir að meiðslin séu ekki eins slæm og menn héldu. Það er beðið eftir niðurstöðum úr myndatöku.
Vestri er aðeins þremur stigum frá fallsæti.
„Við verðum að vera undirbúnir fyrir þau augnablik sem leikirnir bjóða okkur upp á. Hvort sem við lendum undir eða skorum fyrsta markið. Við erum betri aðilinn í dag þangað til við fáum á okkur fyrsta markið og þá hendum við þessu frá okkur í einhverja vitleysu. Þetta getur verið naumt, markatala. Ég er ósáttur að við hendum þessu svona frá okkur. Mér fannst við sterkir og hugaðir fram að markinu. Sköpum sénsa og hefðum leikandi getað skorað fyrsta markið, mér leið eins og liðið sem myndi skora fyrsta markið myndi vinna leikinn, því miður var það staðan í dag."
Athugasemdir