mið 25. mars 2020 14:00
Magnús Már Einarsson
Tommi Steindórs velur draumalið West Ham
Paolo Di Canio er í liðinu.
Paolo Di Canio er í liðinu.
Mynd: Getty Images
Tómas Steindórsson í leik með KFR.
Tómas Steindórsson í leik með KFR.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Scott Parker var frábær á miðjunni hjá West Ham.
Scott Parker var frábær á miðjunni hjá West Ham.
Mynd: Getty Images
Dimitri Payet.
Dimitri Payet.
Mynd: Getty Images
Marlon Harewood fagnar marki.
Marlon Harewood fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Þar sem enginn fótbolti er í gangi á Englandi þessa dagana þá er tilvalið að líta aðeins um öxl. Fótbolti.net fékk Tómas Steindórsson stuðningsmann West Ham, til að velja úrvalslið leikmanna sem hafa spilað með liðinu í gegnum tíðina.

Sjá einnig:
Kristján Atli velur druamalið Liverpool
Kristján Óli velur druamalið Liverpool
Siggi Helga velur draumalið Manchester City
Jóhann Már velur draumalið Chelsea
Hjálmar Örn velur draumalið Tottenham

„Ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum tímabilið 1997-98 svo ég valdi enga leikmenn sem hættu að spila fyrir þann tíma. Hetjur eins og Bobby Moore, Geoff Hurst og Trevor Brooking verða þar af leiðandi að bíta í það súra að fá ekki að vera með. Fat Frank Lampard fær heldur ekki að vera með. Stillti upp í 4-4-2 með tígulmiðju," segir Tómas. Robert Green
Hataður af Englendingum eftir HM 2010 en elskaður af mér. Gerði stundum mistök en var rosalegur vítabani, varði til dæmis fyrstu þrjú vítin sem hann fékk á sig með West Ham. Ég var á Upton Park þegar hann varði vítaspyrnu frá svikaranum Jermain Defoe í upppbótartíma í Lundúnarslag gegn Tottenham í stöðunni 1-1 og mér hefur þótt mjög vænt um hann síðan. Svo er hann líka bara með svo vinalegt andlit.

Tomas Repka
Mínir menn hafa verið í bölvuðu basli með hægri bakvarðastöðuna allt frá því að Steve Potts lagði skóna á hilluna árið 2002. Allskonar menn hafa leyst þessa stöðu en ætli ég gefi ekki snælduvitlausa samlanda mínum og nafna Tomas Repka traustið þó svo að hann hafi eitthvað tekið miðvörðinn líka. Afrekaði það að fá tvö rauð spjöld í fyrstu þrem leikjum sínum fyrir liðið en var svo nokkuð stöðugur eftir það. Spilaði 167 deildarleiki fyrir lið, ekkert mark en mjög margar tæklingar.

James Collins
Ginger Pele eins og hann er gjarnan kallaður er að sjálfsögðu í liðinu. Spilaði fyrst með liðinu milli 2005-2009, fór svo til Aston Villa en kom aftur heim 2012 og var í West Ham til ársins 2018. Varð bara betri eftir því sem hann varð eldri og blómstraði undir stjórn Sam Allardyce. Var mikilvægur í uppspili liðsins á þessum tíma þar sem hann var frábær í að senda 50 metra fallhlífarsendingar inní teig.

Rio Ferdinand
Ætli maður verði ekki að hleypa einum besta miðverði sögunnar í liðið. Kom uppúr akademíunni og var orðinn fastamaður í liðinu 18 ára gamall. Náði að spila 127 úrvalsdeildarleiki og nokkra landsleiki áður en Leeds gerði hann að dýrasta miðverði sögunnar á þeim tíma. Anton litli bróðir hans tók við keflinu hjá honum en náði ekki sömu hæðum.

Julian Dicks
Á meðan jafnaldrar mínir dýrkuðu David Beckham og Michael Owen sagði pabbi mér að Julian Dicks væri sá langbesti. Harðhaus af gamla skólanum sem eignaði sér vinstri bakvarðar stöðuna frá árunum 1988-1999. Var eiginlega bara legit feitur en baráttan alltaf til staðar og svo blessaði Guð hann með frábærum vinstri fót. Geggjuð vítaskytta og þar voru engir Pogba stælar, bara langt tilhlaup og lúðra boltanum í netið. Fjórum sinnum leikmaður ársins og markahæsti leikmaður liðsins tímabilið 1994-1995.

Scott Parker
Mr. Consistent. Var fjögur tímabil hjá West Ham og leikmaður ársins þrjú tímabil í röð. Man ekki til þess að hann hafi átt lélegan leik fyrir West Ham. Ágætis mælikvarði um hversu góður hann var er þegar Hamrarnir féllu tímabilið 2010-2011 völdu enskir blaðamenn hann besta leikmann tímabilsins í Premier League. Sé fyrir mér að hann verði stjóri liðsins innan 5 ára.

Mark Noble
Eini sem kemst á blað af þeim leikmönnum sem spila með liðinu í dag. Kom uppúr akademíunni og er búinn að vera hjartað í klúbbnum síðastliðin 15 ár. Á ferli hans með West Ham hafa verið 9 stjórar og hann er fyrstur á blað hjá þeim öllum. Er sem betur fer ekki duglegur að skora mörk í opnum leik, annars hefði hann farið í eitt af stóru liðunum. Besti enski leikmaður sögunnar sem á ekki landsleik að baki.

Dimitri Payet
Þó svo að hann hafi bara verið í liðinu í 18 mánuði og brotið í mér hjartað þá er ekki annað hægt en að hafa Payet í liðinu. Skoraði líklega fleiri falleg mörk en liðið í heild sinni hefur gert sl 20 ár, lagði slatta upp og tímabilið hans 2015-16 er besta staka tímabil sem leikmaður hefur átt í West Ham treyju. Hef aldrei séð neinn vera svona áberandi bestur á vellinum trekk í trekk. Er á því að hann hafi verið top 10 leikmaður í heiminum þetta season.

Joe Cole
Minn uppáhalds. Enski Messi. Hæfileikaríkasti og mest spennandi leikmaður í sögu West Ham. Var partur af bikarævintýrinu fræga í Inter Toto keppninni 1999. Fyrirliði liðsins einungis 21 árs gamall en eftir fallið 2003 var hann seldur til Chelsea þar sem hann var lykilmaður þangað til meiðsli byrjuðu að plaga hann. Kom svo aftur heim árið 2013 og átti nokkra góða spretti.

Paolo Di Canio
Harry Redknapp tók sénsinn á Di Canio og keypti hann til liðsins frá Sheffield Wednesday eftir að hann hafði tekið út 11 leikja bann fyrir að hrinda dómara. Sá þakkaði heldur betur traustið og er markahæsti leikmaður West Ham í Premier League. Gerði hluti með boltann sem flestir gátu bara látið sig dreyma um og bauð upp á alvöru ítalskt passion. Sir Alex Ferguson reyndi meira að segja að fá hann til Man Utd. Ef fíflið hann Glen Roeder hefði ekki tekið hann útur liðinu 2002-2003 þá hefðu West Ham aldrei fallið.

Marlon Harewood
Bílasalinn Marlon Harewood hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og lokar liðinu. Deildarmörkin hans 14 tímabilið 2005-06 eru flest mörk sem leikmaður West Ham hefur skorað á einu tímabili síðan Di Canio hætti. Leyfði okkur West Ham mönnum að dreyma þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Middlesboro í undanúrslitum FA Cup 2006. Svo er ég nokkuð viss um að þetta sé alger toppnáungi.

Bekkur: Ludek Miklosko, Winston Reid, Christian Dailly, Kevin Nolan, Trevor Sinclar, Carlton Cole, Bobby Zamora
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner