Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 18. mars 2020 12:30
Magnús Már Einarsson
Kristján Atli velur draumalið Liverpool
Jamie Carragher og Sami Hyypia eru báðir í liðinu.
Jamie Carragher og Sami Hyypia eru báðir í liðinu.
Mynd: Getty Images
Kristján Atli Ragnarsson.
Kristján Atli Ragnarsson.
Mynd: Getty Images
Robbie Fowler og Steve McManaman eru í liðinu.
Robbie Fowler og Steve McManaman eru í liðinu.
Mynd: Getty Images
Xabi Alonso.
Xabi Alonso.
Mynd: Getty Images
Ian Rush.
Ian Rush.
Mynd: Getty Images
Þar sem enginn fótbolti er í gangi á Englandi þessa dagana þá er tilvalið að líta aðeins um öxl. Fótbolti.net fékk Kristján Atla Ragnarsson, stuðningsmann Liverpool til að velja úrvalslið leikmanna sem hafa spilað með liðinu í gegnum tíðina.

„Ég ákvað að velja á persónulegum nótum. Mitt Lið, frekar en að fara í sögubækurnar. Bæði yrði það val svo ópersónulegt og klisjukennt og eins sama og ekkert umdeilt, og ef maður ætlar ekki að vera umdeildur þegar maður velur Best Of þá gæti maður alveg eins sleppt þessu," sagði Kristján Atli.

„Höldum því til haga að ég er fæddur 1980 og man mjög lítið eftir síðasta deildarsigri Liverpool, þá tíu ára gamall. Ég byggi valið á þeim leikmönnum sem ég sá spila, hverra tíma ég upplifði í rauðu treyjunni og er þar af leiðandi dómbærari á. Þá er auðvitað freistandi að velja bara lið Jürgen Klopp eins og það leggur sig, enda er núverandi lið Liverpool það besta sem ég man eftir að hafa séð spila í mína tíð, en það er fullsnemmt að dæma þessa herramenn í sögulegu samhengi, með einni augljósri undantekningu."

„Vindum okkur í þetta. Ég var í vandræðum með bakverðina, sögulega hefur Liverpool verið í basli með báðar bakvarðastöðurnar og eiginlega verið hvað sterkastir þegar aðrir leikmenn hafa fyllt upp í þær stöður eins og t.d. Jamie Carragher eða James Milner. Þannig að ég stilli upp 3-4-3 með þrjá miðverði sem eiga skilið að komast í liðið umfram bakverði síðustu þrjátíu ára eða svo."


MARKVÖRÐUR: RAY CLEMENCE
Sko. Ég byrja að horfa fyrir alvöru upp úr 1990 en ég ólst upp með vídeóspólu á heimili mínu. Sú spóla innihélt sögu Liverpool FC með sérstaka áherslu á gullárin, circa 1975 - 1989 ef ég man rétt. Þar sá ég mörg frækin afrek Ray Clemence sem varð einhvers konar guð í mínum augum, þessi týpa sem allir báru virðingu fyrir og var bara óumdeilt besti markvörður í sögu Liverpool. Gæinn vann deildina fimm sinnum og Evrópubikarinn þrisvar í sinni tíð í marki Liverpool og þótt Pepe Reina hafi verið frábær og Alisson Becker sé geggjaður í dag þá er Clemence ennþá á stalli hjá mér og fær heiðurinn.

VÖRN: JAMIE CARRAGHER, SAMI HYYPIÄ og VIRGIL VAN DIJK
Þessir þrír útskýra sig sjálfir. Ég ætlaði að hafa Carra í hægri bakverði en lenti í vandræðum með að fylla vinstri bakvarðarstöðuna, er of ungur til að muna eftir Steve Nicol sem er almennt talinn sá besti í þeirri stöðu. Þannig að ég setti þá bara í þriggja hafsenta kerfi. Carra er sá sem manni þykir vænst um þarna, leikmaðurinn sem var alltaf vanmetinn en varð bara samt einn af risum félagsins. Það er auðvelt að halda með slíkum mönnum, margsinnis afskrifaður en endar sem algjör goðsögn. Ég gleymi frammistöðu hans í Evrópu vorið 2005 aldrei. Við hlið hans er svo Finninn stóri með fínu hreyfingarnar. Hann kom frá smáliði í Hollandi og enginn vissi hver þetta var, en ég man að í fyrsta leiknum hans hreinsaði Sami fyrirgjöf út úr teignum og skallaði hana yfir miðlínuna á Anfield. Þvílíkur meistari. Við hlið þeirra er svo Virgil Van Dijk, eina undantekningin sem ég geri fyrir núverandi lið enda er gæinn svo góður að það væri glæpsamlegt að velja hann ekki hérna. Sennilega besti varnarmaður sem ég hef séð leika fyrir Liverpool.

MIÐJA: STEVEN GERRARD, XABI ALONSO, JOHN BARNES, STEVE MCMANAMAN
Ég veit, ég veit. McManaman er sá sem mun pirra flesta Púllara í þessu vali. Málið er að McManaman stakk af til Spánar og fullt af stuðningsmönnum eru honum ennþá reiðir fyrir þau svik. En McManaman var í nokkur ár á tíunda áratugnum yfirburðamaður í liði sem var honum aldrei samboðið. Ef hann hefði verið í betra liði hefði hann unnið meira fyrir Liverpool en það breytir því ekki að í alveg góð 5-6 ár voru Macca og Robbie Fowler ástæðan fyrir því að maður horfði á alla Liverpool-leiki. Hann var ógeðslega góður. Ég set Macca á hægri kantinn en á þeim vinstri er John Barnes, sem var mín skilgreining á töffara þegar ég var að byrja að horfa á fótbolta. Hann var líka ógeðslega góður. Á miðri miðjunni gat ég ekki annað en valið félagana Xabi og Stevie. Þeir eru uppáhalds leikmenn mínir síðan ég byrjaði að horfa á Liverpool, ég fylgdi þeim báðum eiginlega í gegnum allan ferilinn enda jafnaldri þeirra, ólst upp með þeim og svo framvegis. Það þarf ekkert að fjölyrða um Steven Gerrard, hann er sennilega besti leikmaður sem hefur spilað fyrir Liverpool og ef hægt er að segja að Steve McManaman hafi aldrei verið í Liverpool-liði sem var sér samboðið þá gildir það tvöfalt um Stevie G. Xabi hafði svo allt fyrir mér á miðjunni, ég elskaði allt sem hann gerði. Þvílík miðja!

SÓKN: ROBBIE FOWLER, IAN RUSH og KENNY DALGLISH
Sóknin velur sig eiginlega sjálf, líka. Sögulega þá gnæfa þessir þrír yfir alla aðra framherja sem hafa leikið fyrir Liverpool frá gullárunum og þótt snillingar eins og Owen, Torres og Suarez hafi baðað Anfield í snilld sinni um tíma þá markaði enginn þeirra jafn djúp spor í sögu Liverpool og þessir þrír. Ef eitthvað er var ég nálægt því að velja Mo Salah hér í stað Fowler, og mig grunar að ef Salah ílengist á Anfield muni hann festa sig í sessi í svona vali. Mér finnst reyndar Salah vera undarlega vanmetinn í dag, bæði af Liverpool-stuðningsmönnum og öðrum. Ég veit ekki af hverju, gæinn er geggjaður og það ræður ekkert lið þarna úti við hann. En eins og staðan er í dag hleypi ég ekki fleiri af núverandi leikmönnum hér inn og prísa mig alsælan með Fowler, Rush og Dalglish. Það gerist enda ekki betra!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner