Nú fer heldur betur að styttast í hið stórskemmtilega íslenska fótboltasumar og vafalaust eru margir landsmenn orðnir spenntir að sjá hvernig sínu liði mun vegna. Á kaffistofum landsins eru þegar hafnar miklar pælingar um það hverjum mun vegna vel og hverjum illa og virðast allir hafa myndað sér einhvers konar skoðun hvað varðar komandi sumar, þó þær skoðanir séu vissulega ekki allar hlutlausar. Enda mega menn alveg halda því fram að þeirra lið sé betra í ár en fyrra, eða að þetta sé árið þar sem hlutirnir muni gerast! (Innsk: Ég er Liverpool maður og ætti að þekkja þessa tilfinningu.)
Þó svo að ég hafi skemmt mér konunglega undanfarin sumur sem íþróttafréttamaður á fótboltaleikjum hefur mér þó fundist vanta eitt atriði. Og þetta atriði er ekki smávægilegt, heldur gríðarlega mikilvægt að mínu mati og þarfnast umfjöllunnar. Ég vil sjá Íslendinga, unga jafnt sem aldna, kasta frá sér öllum sviðsskrekk og fara að styðja sín lið almennilega! Mér finnst einfaldlega að stuðningur sem þessi skemmtilegu fótboltalið okkar eru að fá sé ekki nálægt því að vera nægur, og því þarf að breyta.
Ég hef notið þeirra forréttinda að fara á nokkra stórleiki erlendis og haft mjög gaman að. Erlendir stuðningsmenn eiga langa fótboltamenningu að baki og þekkja margir fleiri lög um sitt eigið knattspyrnulið heldur en Bítlalög. Menn mæta á völlinn með einn tilgang, og það er að öskra sig hása og gefa leikmönnum síns liðs byr undir báða vængi. Þannig var það á Old Trafford, Luzhniki og á Ólympíuleikvangnum í Róm. Af hverju ekki á Íslandi?
Ég geri mér auðvitað fullkomna grein fyrir því að það er ekki hægt að ætlast til að 1.000 manns láti jafn vel í sér heyra og 80.000 manns, en sú staðreynd að við erum svona fá ætti einmitt að hvetja fólk enn betur til að láta vel í sér heyra! Menn geta leyft sér að sleppa því að syngja og fylgjast bara með í rólegheitunum þegar þeir vita af 79.999 öðrum sem ætla að syngja með, en þegar við erum svona fá er mikilvægt að hver einn og einasti brýni raust sína og hvetji lið sitt til dáða.
Ég er ekki að lasta snillingum á borð við Miðjumenn, Mafíuna, Grænu pöndurnar og þessa stuðningsmannaklúbba almennt. Stuðningsmannahóparnir standa sig almennt mjög vel, mæta gallvaskir á leiki og rústa á sér raddböndunum. Þeir eru hins vegar oft ekki fleiri en kannski 20-50 á meðan hinir 1000-2000 áhorfendurnir leyfa sér ekki einu sinni að hósta. Sérstaklega er þetta áberandi á sumum landsleikjum þar sem talsvert fámennari hópar erlendra gesta taka okkur einfaldlega í ósmurðan með stórkostlegum söngvum sínum á meðan Íslendingarnir eru eins og límt sé fyrir munn þeirra.
Ég er ekki að ætlast til að amma mín mæti blindfull á völlinn og drulli yfir dómarann, en mér þætti hins vegar skemmtilegt að heyra fleira fólk taka undir. Það skiptir ekki máli þó að þú sért forstjóri í banka, leikskólakennari eða tryggingasölumaður – Þegar inn á völlinn er komið ertu stuðningsmaður, svo hagaðu þér sem slíkur!
Góða skemmtun í sumar og látið öll sömul vel í ykkur heyra. Strákarnir og stelpurnar sem hafa æft allan veturinn til að skemmta okkur eiga það skilið!