Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
banner
   fim 06. október 2011 09:00
Halldór Smári Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014
Sumarið gert upp - Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.)
Halldór Smári Sigurðsson
Halldór Smári Sigurðsson
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Víkings R., ríður á vaðið með því að koma með pistil í dag.



Í lok seinasta árs var gerð stafsetningarvilla sem mun væntanlega fara í sögubækurnar sem ein sú eftirminnilegasta. Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014. Þar sem við eigum þá góð 102 ár til stefnu er ekkert að því að taka smá pit-stop í deild þeirra næst bestu. Það er svo mikilvægt að setja sér langtímamarkmið.

Þetta er heldur betur búið að vera viðburðaríkt ár hjá okkur í Krísuv…nei ég meina Víking. Óskar Hrafn sagði að þetta tímabil í Víkinni væri búið að vera eins og í lélegri venezúelskri sápuóperu. Ég googlaði það og mun það koma ykkur á óvart hversu líkt þetta tvennt er.

Ef ég ætti að finna eitt orð til að lýsa þessu ári að þá er það orðið „fundur“. Venjulegir fundir, krísufundir, símafundir, einstaklingsfundir, aðalfundir, fagnaðarfundir og sálfræðifundir. Talandi um sálfræðifundi, þá veit enginn hvað varð um Hall, sálfræðing liðsins. Hann virðist hafa horfið í kringum excel-skjals-málið enda voru menn kannski ekki í stuði fyrir öndunaræfingar og skynmyndir á þeim tíma. Tómas Guðmundsson er hins vegar mikill talsmaður skynmynda en hann fullkomnaði tæknina. Þar sem hann var þó meiddur meirihluta tímabils notaði hann skynmyndirnar áður en hann fór á djammið. Þannig sá hann fyrir sér aðstæðurnar áður en þær gerðust og nýtti færin sín þar af leiðandi mun betur.

Excel-skjalið þekkir hvert mannsbarn og er óþarfi að fara mörgum orðum um það hér. Það tók við af ljósastaurum landsins og lýsti upp skammdegið fyrir Íslendingum. Þar var m.a. undirritaður sagður vera í „andlegum vandræðum“ sem vakti mikla lukku innan hópsins. Eftir á að hyggja hljómar það dálítið eins og ég hafi verið í sjálfsmorðshugleiðingum.

Ef litið er til þess hvernig leikmannahópurinn breyttist síðustu 12 mánuði er niðurstaðan súrrealísk. Áður en þetta tímabil kláraðist höfðu 20 leikmenn farið eða verið lánaðir frá lokum tímabilsins í fyrra. 5 af þessum 20 leikmönnum höfðu komið fyrir tímabilið eða á meðan því stóð en alls 11 leikmenn gengu til liðsins.

Til að dreypa á því helsta þá fór Marteinn Briem til Asíu. Áhugasamir geta lesið bloggið hans á facebook en hann er að blogga um hvað allt kostar í Kína. Daníel Hjaltason fór til Noregs fyrir tímabilið en seinast þegar ég vissi var elgur í garðinum hjá honum.
Besti maður liðsins í fyrra, Kristinn J. Magnússon meiddist í janúar og var frá fram á sumar. Það kom þó ekki niður á nettleikanum en í lok sumars var Kiddi með brunasár á hnúunum eftir að hafa „klesst’ann“ í um 40 þúsund skipti yfir sumarið. Besti maður liðsins í fyrstu umferðunum, Egill Atlason, meiddist og var frá allt tímabilið. Stjörnuframherjarnir, Helgi og Bjöggi, meiddust svo báðir um tíma.

Þessar miklu leikmannahræringar og meiðsli opnuðu dyrnar fyrir ungu strákana og nú þekkja flestar húsmæður landsins nöfnin Viktor Jónsson og Aron Elís Þrándarson. Var ekki að sjá að þeir væru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Kristinn Jens Bjartmarsson leysti svo bakvarðastöðuna seinni hluta móts eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Hérna má einnig nefna Patrik Atlason og Róbert Jack sem fengu mínútur og stóðu sig vel.

Þetta kom einnig fram í miklum sveiflum í fjölda leikmanna á æfingum. Í sumar kom fyrir að við vorum bara 10 á æfingum en það var einnig tímabil þar sem við vorum eitthvað í kringum 78. 39 vs. 39 á einum og hálfum velli, ein snerting, skora á lofti. Við tókum það oftar en ekki með okkur í leikina en full mikið var um langar sendingar. Stundum leit út fyrir að boltinn væri tímasprengja þar sem okkur leist oft betur á að þrusa honum burt frekar en að hafa hann hjá okkur.

Ef við lítum á björtu hliðarnar þá vorum við í toppbaráttu eftir fyrstu umferð. Það er ekki oft sem lið sem kemur upp úr 1. deild fer beint í toppslaginn í efstu deild. Í kjölfarið fylgdu svo nokkur ágætis úrslit. Jafntefli við Stjörnuna á teppinu, jafntefli í Kaplakrika og jafntefli heima gegn Grindavík. Þess má til gamans geta að Grindavíkur leikurinn er hugsanlega leiðinlegasti leikur sem spilaður hefur verið. Að vera á miðri miðju í þeim leik var svipað og að gegna hlutverki nets í spaðaíþróttum. Það var eins og varnir liðanna væru að gefa á milli. Eftir þessa jafnteflishrinu varð „ströggl“ einkennisorð okkar Víkinga og virtist sem liðið kynni ekki að vinna leiki. Það var ekki fyrr en fallið var orðið staðreynd að við sýndum hvað í okkur bjó. Þrátt fyrir erfiða tíma náðum við leikmenn þó alltaf að halda léttleika innan liðsins og verður að hrósa stjórn félagsins fyrir það að fá ekki eingöngu leikmenn sem eru góðir í fótbolta heldur eru þessir menn einnig miklir öðlingar og pössuðu vel inn í hópinn sem fyrir var.

Að það hafi verið hlutskipti Víkinga að falla úr efstu deild eru auðvitað mikil vonbrigði en þetta er búið að vera gott ár fyrir þessa umtöluðu reynslu. Sagt er í Víkinni að „með nýjum mánuði kemur nýr þjálfari“. Miklar vangaveltur voru um hver myndi taka við og vorum við leikmenn að spá hvort við værum ekki bara komnir hringinn og næsti þjálfari yrði þá Jesper Tollefsen. En nei, Ólafur Þórðarson er tekinn við og Helgi Sigurðsson verður honum til aðstoðar. Búast má því við mikilli samkeppni um framherjastöðuna. Einmitt! Síðan er mikið magn af góðum leikmönnum að koma upp og menn eru spenntir fyrir komandi tímum. Það er ofbirta framundan í Víkinni.

Fyrir hönd meistaraflokks Víkings vil ég að lokum þakka stuðningsmönnum, liðsstjórn, stjórnarmönnum, öllum fjórtán þjálfurunum, Berserkjum og hinum sem koma að knattspyrnunni í Fossvoginum, kærlega fyrir sumarið.

Áfram Víkingur,
Halldór Smári Sigurðsson
banner