Það hefur hreinlega verið unaður að fylgjast með fyrstu tólf umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.
Mikill fjöldi fjörugra leikja, glæsitilþrif, litríkir karakterar, óvæntar uppákomur, dómaraskandalar, óþekkt innan vallar sem utan og kaffistofurnar ráða ekki við að fara yfir það sem er í gangi.
Mikill fjöldi fjörugra leikja, glæsitilþrif, litríkir karakterar, óvæntar uppákomur, dómaraskandalar, óþekkt innan vallar sem utan og kaffistofurnar ráða ekki við að fara yfir það sem er í gangi.
Mörkunum hefur rignt inn og þá ekki síst í toppleikjunum sem eiga samkvæmt einhverri formúlu að vera varnarsinnaðir og ráðast á einu marki til eða frá. Manchester United vann Arsenal 8-2 og tapaði síðan 1-6 fyrir Manchester City á heimavelli. Ekkert eðlilegt við þessi úrslit.
Einhverjir tala um að varnarleikur toppliða deildarinnar sé orðinn verri... en hverjum er ekki sama um það meðan skemmtanagildið er þetta? Á Englandi eru ýmsir sparkspekingar þegar farnir að ganga svo langt að bóka þetta sem besta tímabil ensku úrvalsdeildarinnar.
En til þess að það geti gerst þá verður að vera spenna um meistaratitilinn allt til loka. Eins og deildin er að spilast núna virðist allt geta gerst... nema að Manchester City missi flugið.
Það er frábært að sjá hvað Roberto Mancini hefur náð að setja saman gott og skemmtilegt fótboltalið sem virðist ekki geta hætt að skora. En því miður eru engar blikur á lofti þess efnis að einhver geti ýtt nægilega fast á bremsuna hjá þeim ljósbláu.
Á meðan heldur David Luiz grínsýningu með félögum sínum í vörn Chelsea, Liverpool gerir jafntefli gegn lélegum liðum, Manchester United er með enga sköpunargáfu á miðjunni, Arsenal verður dauðadæmt þegar Robin van Persie dettur í smá lægð eða meiðist, Newcastle-blaðran er byrjuð að springa og erfitt er að ímynda sér Tottenham gera eitthvað meira en að malla þarna í kring.
City er bara of gott lið til að þetta verði besta tímabil deildarinnar. Þeir gætu auðveldlega teflt fram tveimur liðum sem væru bæði í toppbaráttunni. Vonandi breytist eitthvað svo að það verði spenna allt til loka svo þetta tímabil verði það besta ... einhver breyta komi fram sem ég er ekki að koma auga á.