Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   mán 18. júní 2012 15:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 7. umferð: Finnst fiskurinn vera frábær
Leikmaður 7. umferðar: Christian Olsen (ÍBV)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég segi ekki að þetta hafi verið besti leikurinn á ferli mínum en þetta var einn af þeim. Nánast allt sem ég gerði gekk upp," sagði Christian Olsen við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 7. umferðar í Pepsi-deildinni.

Olsen skoraði þrennu í 4-0 útsigri ÍBV á ÍA á föstudagskvöldið en hann misnotaði einnig vítaspyrnu undir lok leiksins.

,,Þetta var ekki góð spyrna. Þetta var ágætlega varið en ég hefði átt að skora. Ég held að ég fari ekki aftur á vítapunktinn," sagði Olsen léttur í bragði.

Eyjamenn hafa unnið tvo síðustu leiki í Pepsi-deildinni eftir slæma byrjun en Olsen segir að innkoma Tryggva Guðmundssonar hafi haft mikil áhrif.

,,Hann er er að gera marga góða hluti á vellinum og það er frábært að spila með honum. Hann er mikilvægur fyrir liðið, það er engin spurning."

Olsen gekk til liðs við ÍBV síðastliðinn vetur og hann kann vel við sig Eyjum. ,,Þetta er frábær staður, sérstaklega þegar sólin skín. Þá eru Vestmannaeyjar frábærar."

Olsen er ekki eini Daninn í herbúðum ÍBV því Rasmus Christiansen hefur einnig leikið með liðinu undanfarin ár.

,,Hann er bara heimskur Dani," grínaðist Olsen þegar hann var spurður út í Rasmus. ,,Nei auðvitað er gott að hafa Rasmus hérna. Hann hefur verið hérna í nokkur ár og veit hvering allt virkar. Ég get alltaf leitað til hans ef ég þarf að spyrja út í eitthvað."

Þessa dagana vinnur Olsen í löndun í Eyjum ásamt fleiri leikmönnum ÍBV og hann hefur gaman að því að vinna í fiskinum.

,,Þetta er öðruvísi en vinnan sem ég hef unnið í Danmörku en það er gaman að prófa eitthvað nýtt. Núna vinn á næturvöktum en það er ekkert erfitt. Ég vinn ekki daginn fyrir leik og þetta er fínt, þetta er skemmtilegra en að vera bara í rúminu allan daginn."

Olsen er einnig mikll aðdándi fisksins. ,,Mér finnst fiskurinn frábær og ég og Rasmus borðum mikið af honum," sagði Olsen að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 6. umferðar - Atli Guðnason (FH)
Leikmaður 5. umferðar - Sam Tillen (Fram)
Leikmaður 4. umferðar - Kennie Chopart (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Leikmaður 2. umferðar - Frans Elvarsson (Keflavík)
Leikmaður 1. umferðar - Ingólfur Þórarinsson (Selfoss)
Athugasemdir
banner