Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
banner
   fim 16. ágúst 2012 17:45
nr7.is
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Robin er hvort sem er lélegasta ofurhetjan
Tryggvi Páll skrifar:
nr7.is
nr7.is
Mynd: Getty Images
„Chill, I got this“
„Chill, I got this“
Mynd:
Fréttirnar gerast ekki mikið stærri en í gær þegar fregnir bárust af því að Robin van Persie, fyrirliði Arsenal, væri á leiðinni til Manchester United. Á meðan United menn kepptust við að ímynda sér kappann haldandi á Meistaradeildarbikarnum næstkomandi vor heyrðist í Arsenal-mönnum að hann væri bara meiðslapési sem nánast ekkert gagn væri af.

Aðdáendur annara liða klóruðu sér í kollstykkinu yfir þeirri ákvörðun Arsenal-manna að selja sinn besta mann, fjandinn hafi það, besta mann deildarinnar til þess liðs sem hefur drottnað yfir deildinni síðustu tvo áratugi. Arséne, hvað varstu eiginlega að spá?

Það hlýtur að hafa verið erfitt að vera Arsenal-aðdáandi síðastliðin ár. Að horfa upp á bestu leikmenn liðsins hverfa á braut og horfa uppá Arsene Wenger, knattspyrnustjórann sem skapaði eitt besta lið í sögu ensku deildarinnar, hjálparlausan við að reyna að glíma við peningaöflin og önnur lið í deildinni. Þetta var auðvitað sjálfskaparvíti að einhverju leyti. Wenger var nánast í afneitun þegar hann missti Samir Nasri og Cesc Fabregas í fyrrasumar. Það var ekki fyrr en á síðustu stundu sem hann fékk staðgengla í formi þeirra Mikel Arteta og Youssi Benayoun. Ágætis leikmenn en með fullri virðingu fyrir þeim ekki jafn hæfileikaríkir og þeir fyrrnefndu. Það sem sveið kannski mest undan þessu fyrir Arsenal- menn að það var morgunljóst löngu áður en kapparnir yfirgáfu Arsenal að þeir væru að fara yfirgefa Arsenal. Wenger var hjálparlaus. Nú lítur út fyrir að það sama hafi gerst aftur.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að lið hans hefur sjaldan eða aldrei verið jafn reiðubúið undir það að missa sinn besta mann. Það er af sem áður var og Wenger lærði af reynslunni frá því í fyrra. Wenger hefur verið virkur á leikmannamarkaðnum og var t.d. fyrir löngu búinn að tryggja sér þjónustu Lucas Podolski og Oliver Giroud. Fyrir skömmu kom svo Santi Cazorla fyrir metfé. Giroud var markahæsti leikmaður frönsku deildarinnar í fyrra, Podolski er óumdeilanlega hæfileikaríkur leikmaður. Það er þó sá galli á gjöf Njarðar að Giroud er auðvitað reynslulítill á hinu stóra sviði og Podolski kallinn á það til að sakna Kölnar-borgar. Þeir hafa þó klárlega sýnt að þeir hafa ýmislegt fram að færa sem leikmenn og munu án efa passa vel inní hið léttleikandi lið Arsenal.

Santi Cazorla eru hinsvegar bæði vatnsþétt og loftþétt kaup. Hann hefur bæði leitt lið Villareal í Meistaradeildinni og er vel versaður í titlafræðunum með hinu frábæra liði Spánverja. Það er ljóst að honum er ætlað lykilhlutverk fyrir aftan framherjann og hægt er að búast við því að hann verði drifkrafturinn á bakvið markaskorara Arsenal. Í fyrra var Arsenal-liðið alltof háð Robin van Persie. Með tilkomu þessara leikmanna og brotthvarfi fyrirliðans er möguleiki á að liðið verði heilsteyptara.

Ef við teljum einnig saman þá leikmenn sem fyrir eru hjá liðinu er fremsti hluti vallarins hjá Arsenal vel tryggur. Alex Oxlade-Chamberlain mun án efa frá stærra hlutverk. Thomas Rosicky var einn af bestu mönnum Arsenal í fyrra og það er ágætt að hafa menn eins og Theo Walcott í liðinu þó hann þurfi að fara að réttlæta það að hann eigi heima í byrjunarliðinu.

Nú hefur Arsene Wenger fengið um 22 milljónir punda til að styrkja liðið enn frekar. Það er möguleiki fyrir Arsene Wenger að koma vel útúr þessu fíaskó sem það var að láta samning Robin van Persie nánast renna út. Til þess þarf að hann að spila rétt úr stöðunni sem hann er í núna. Það er farið að síga á seinni hluta stjóratíðar Arsene Wenger. Ef hann vill ekki að honum verði minnst af hinum almenna fótboltaáhugamanni sem stjóra sem var góður að kaupa og selja leikmenn þarf hann að gera harða atlögu að titlum á næstu 1-2 keppnistímabilum.

Nú er tækifærið. Hann er kominn með fjölbreyttan og skemmtilegan hóp leikmanna og á pening til skiptanna. Í gegnum tíðina hafa liðin hans staðið sig best þegar liðið reyðir sig á liðsheildina fremur en einstaklingsframtakið. Það er í raun einkenni Wengers sem knattspyrnustjóri, lið hans vinna sem ein heild. Ef liðið ætlar að ná árangri þarf það að rísa upp úr skugga Robin van Persie og blómstra sem heild. Annars er hætta á því að orðspor Wengers sem knattspyrnustjóra verði alvarlega beyglað vegna þessara síðustu titlalausu ára hjá Arsenal.

Smelltu hér til að lesa greinina og taka þátt í umræðum á nr7.is
Athugasemdir
banner
banner