Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   lau 13. október 2012 15:40
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lærdómur í Tirana
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Aron Einar ræðir við Lars Lagerback.
Aron Einar ræðir við Lars Lagerback.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gærdagurinn var heldur betur annasamur en endirinn var eins og í Disney-mynd og íslenska landsliðið sótti þrjú stig á erfiðan útivöll í Albaníu.

Umræðan fyrir leikinn snérist þó aðallega að ansi óheppilegum ummælum Arons Einars Gunnarssonar, landsliðsfyrirliða, þar sem hann lét út úr sér að í Albaníu væru mestmegnis glæpamenn.

Sitt sýnist hverjum en eitt er ljóst: Aron Einar gerði mistök og hann veit það sjálfur.

Margt hefur verið rætt og ritað á samskiptasíðum og ummælakerfum eins og venjan er á þessu landi. Misgáfulegt að vanda.

Það er þó ekki hægt að horfa framhjá því að það er alvarlegt að stimpla nánast heila þjóð sem glæpamenn. Augljóst var í viðtalinu að orðin voru meint í léttu gríni en þetta var grín sem fór langt yfir strik.

Ég heyrði það frá manni sem lék á Englandi að það þyrfti ekki að spyrja að leikslokum ef fyrirliði enska landsliðsins myndi láta orð á borð við þessi út úr sér. Sem betur fer förum við þó ekki ensku leiðina.

Á Íslandi búa fjölmargir af albönskum uppruna og var það því bara tímaspursmál hvenær þessi ummæli myndu rata í fjölmiðla í Albaníu. Aron brást hárrétt við, sá mistökin sem hann gerði og baðst samstundis afsökunar af einlægni.

Aron er fyrirliði og á að vera það áfram. Hann er 23 ára og er enn að læra eins og við öll. En öll umræða þess efnis að umfjöllun fjölmiðla um ummæli hans ætti ekki rétt á sér er á villigötum. Þessi ummæli eru alvarleg. Aron gerði stór mistök og veit það sjálfur. Hann lærir af þessu, aðrir landsliðsmenn og fleiri.

Sumt sem hefur verið skrifað er út í hött. Ég held að botninum hafi verið náð þegar fjölmiðlamaður skrifaði að okkur væri hvort sem er „drullusama um Albaníu." Rétt eins og Aron sá hann að hann gerði mistök og fjarlægði þau orð.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, eyddi föstudeginum í slökkvistarf og fundarhöld með forseta albanska knattspyrnusambandsins. Geir er klókur og stóð sig að mínu mati mjög vel.

Einhverjir hefðu viljað sjá hann standa meira á bakvið Aron í viðtali eftir leikinn. Átti Geir að gefa það út að Aron yrði áfram fyrirliði? Er það Geir sem ræður því? Hann sagði einfaldlega að málin yrðu rædd.

Hefði hann tekið þann pól í hæðina að segja að ummæli Arons hefðu verið léttvæg og bara grín efast ég um jákvæð viðbrögð frá albanska sambandinu og í kjölfarið frá UEFA. Auðvitað er þetta mál sem átti að líta alvarlegum augum og bregðast við.

Eins og fram kemur í Fréttablaðinu í morgun þverbraut Aron siðareglur KSÍ og því getur Geir sem formaður ekki bara horft framhjá.

Aron var frábær í leiknum. Eins og alltaf þegar hann klæðist íslensku treyjunni lagði hann sig 100% fram. Aron lék sem sannur fyrirliði og ég efast ekki um að það sem gengið hefur á styrki hann enn frekar. Vonandi heldur hann áfram að vera skemmtilegur og klisjulaus í viðtölum þrátt fyrir þetta mál

Landsliðið er með blaðamannafund á morgun, sunnudag, klukkan 13. Vonandi verður málið afgreitt þar á faglegan hátt svo hægt sé að einbeita sér að fótboltanum í aðdragandanum fyrir leikinn gegn Sviss.

Áfram Ísland!
Athugasemdir
banner
banner