Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 08. febrúar 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Elísabet: Gefið að allar þjóðir eiga að vera með U23 ára landslið
Elísabet Gunnarsdóttir og Björn Sigurbjörnsson aðstoðarþjálfari Kristianstad.
Elísabet Gunnarsdóttir og Björn Sigurbjörnsson aðstoðarþjálfari Kristianstad.
Mynd: Twitter
Mynd: Kristianstad
„Síðustu tvö ár hef ég verið að eyða tíma í alls konar aðra hluti sem tengjast ekki fótbolta. Núna er ég kominn í tvö mismunandi störf sem tengjast fótbolta," sagði Elísabet Gunnarsdóttir við Fótbolta.net í dag en hún hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari U23 ára landsliðs kvenna í Svíþjóð.

Elísabet hefur undanfarin tíu ár stýrt Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni og hún heldur því áfram samhliða því að vera aðstoðarþjálfari í U23. Elísabet segir það hægt þar sem að starf hennar hjá Kristianstad sé að breytast.

„Ég er búinn að vera að vesenast í alls konar fjármálum og veseni í félaginu sem maður á kannski ekki að gera sem þjálfari. Ég hef stofnað yngri flokka og unnið ýmis verkefni til að byggja upp félagið. Nú er búið að ráða fólk í þessi störf þannig að ég get einbeitt mér að því að vera knattspyrnuþjálfari."

Elísabet hefur áður unnið tvö þjálfarastörf á sama tíma. „Þegar ég var þjálfari Vals var ég þjálfari U21 árs landsliðsins og aðstoðarþjálfari A-landsliðsins á sama tíma. Það gekk rosalega vel."

U21 árs landsliðið hjálpaði Íslandi
Ísland er ekki með starfrækt U23 ára landslið og Elísabet furðar sig á því.

„Að mínu mati er þetta eitt mikilvægasta landsliðið. Þetta er liðið undir A-landsliðinu og þú undirbýrð leikmann á mikilvægum aldri fyrir komandi verkefni í A-landsliðinu," sagði Elísabet.

„Ég ætla að fullyrða það að íslenska kvennalandsliðið væri ekki á þeim stað sem það er í dag ef við hefðum ekki verið með U21 árs landslið á sínum tíma. Við fórum á opna Norðurlandamótið og vorum að mæta Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku og Svíþjóð þegar ég var með liðið. Þetta voru leikir sem undirbjuggu leikmenn sem fengu ekki tækifæri með A-landsliðinu."

„Mér finnst vera gefið að allar þjóðir eiga að vera með U23 ára landslið. Ísland spilaði U23 ára leiki gegn Póllandi fyrir þremur árum en það er ekki nóg. Það þarf að hjóla í stóru liðin og spila við þau. Við verðum í 30 daga á ári með þetta U23 ára lið Svía. Það er gefið mál að 30 dagar með landsliðsmönnum sem eru nálægt A-landsliði býr til breidd og við þurfum á því að halda á Íslandi líka,"
sagði Elísabet.
Athugasemdir
banner
banner