Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   mið 04. júlí 2018 12:15
Magnús Már Einarsson
Besti dómari umferða 1-11: Þarf að fara varlega í breytingar
Þóroddur Hjaltalín
Þóroddur Hjaltalín að störfum í sumar.
Þóroddur Hjaltalín að störfum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Heilt yfir er ég mjög ánægður með mína frammistöðu í sumar," segir Þóroddur Hjaltalín, besti dómari í umferðum 1-11 í Pepsi-deildinni, að mati Fótbolta.net.

„Það er auðvitað alltaf eitthvað sem maður hefði viljað gera betur og stefnan er alltaf að vera betri í næsta leik. Mér finnst sumarið bara hafa verið virkilega skemmtilegt og deildin búin að vera flott í sumar. Það er alltaf auðveldara þegar það er gaman," sagði Þóroddur léttur en hann er ánægður með dómgæsluna í Pepsi-deildinni í sumar.

„Mitt mat er að dómgæslan í sumar hafi heilt yfir verið mjög góð. Nýir ferskir menn sem hafa staðið sig vel í sínum leikjum. Við höfum kannski verið færri í sumar sem erum að dæma í efstu deild en oft áður en það þýðir líka fleiri leikir á hvern dómara sem ég held að sé bara mjög gott. Persónulega finnst mér allavega maður vera bestur þegar maður dæmir nánast í hverri umferð."

Þóroddur hefur eins og flestir fylgst vel með HM en þar hefur nýja VAR kerfið sett mikinn svip sinn á mótið.

„Það sem ég hef séð af HM hefur mér fundist dómgæslan flott. Varðandi VAR dæmið þá tek ég það fram að ég er af gamla skólanum og það þarf töluvert til þess að sannfæra mig um þetta. Verð samt að viðurkenna að heilt yfir hefur þetta gengið betur en ég þorði að vona."

„Þetta er samt fótbolti sem er ein vinsælasta íþrótt í heimi og mér finnst að menn þurfi að fara varlega í svona veigamiklar breytingar. Það er til dæmis hluti af því hversu vinsæll þessi leikur er að hann hefur alltaf verið spilaður eins allsstaðar. Annars bara mjög jákvæður og áfram íslenskur fótbolti,"
sagði Þóroddur að lokum.

Sjá einnig:
Úrvalslið umferða 1-11
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner