þri 20. ágúst 2019 14:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 17. umferð: Spenntir að ferðast til Grenivíkur
Arnar Þór Helgason.
Arnar Þór Helgason.
Mynd: Hulda Margrét
Mynd: Hulda Margrét
Hinn hávaxni miðvörður Gróttu, Arnar Þór Helgason var besti leikmaður liðsins í markalausu jafntefli gegn Fjölni í Grafarvoginum í leik liðanna í 17. umferð Inkasso-deildarinnar.

„Arnar Þór sá um uppspilið í Gróttuliðinu, kom boltanum alltaf frá sér og var með svona 95% heppnaðar sendingar. Öruggur í vörninni og bestur á vellinum," skrifaði Hilmar Jökull í Skýrslunni um leikinn. Arnar Þór er leikmaður 17. umferðar Inkasso-deildarinnar.

„Þetta var stór leikur. Bæði lið fóru inn í leikinn með það að markmiði að taka alla þrjá punktana þar sem allir eru komnir með leið á þessum jafnteflum. Þetta var jafn leikur frá fyrstu mínútu. Á meðan mér fannst við nokkurn veginn stjórna ferðinni þá fengu Fjölnismenn betri færi. Við megum þakka fyrir það að Hákon sé ekki með neina súkkulaðiúlnliði. Hann bjargaði þessu dýrmæta stigi í Grafarvoginum, enda fór hann sáttur heim og fíraði í fjærunum," sagði varnarmaðurinn stóri og stæðilegi sem segir að það sé erfitt að vera ekki annað en sáttur með stigasöfnun liðsins í deildinni í sumar en liðið er í 3. sæti deildarinnar með 31 stig.

„Þegar horft er í árangur liðsins sem nýliðar í deildinni getum við ekki verið annað en sáttir með stigasöfnunina og að vera partur af Gróttuliðinu er bara frábært. Sjálfur hefur maður átt góða og slæma leiki en heilt yfir hefur þetta verið fínt þótt maður krefjist alltaf meira af sjálfum sér."

„Stigasöfnunin hefur bara verið sæmileg þrátt fyrir fáa sigurleiki að undanförnu. Við vorum auðvitað á miklu “rönni” eftir fyrri umferðina og skiljanlega vænti fólk mikils af okkur í kjölfarið. Þessi jafntefli hafa komið gegn sterkum liðum. Stundum er sagt að jafntefli telji mikið þegar sigurleikir fylgja með en lítið þegar tapleikir koma, og ætli það eigi ekki við í þessum leikjum," sagði Arnar Þór en Grótta hefur unnið tvo af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni.

Fimm umferðir eru eftir af mótinu þar af á Grótta fjóra leiki gegn neðstu fjórum liðunum. Mikil umræða er um það að Grótta eigi auðveldasta prógrammið eftir af þeim liðum sem eru að berjast um sæti í Pepsi Max-deildinni.

„Öll þessi lið sem við munum mæta í síðustu umferðunum eru gífurlega vel mönnuð og sum þeirra eru að berjast fyrir lífi sínu í Inkasso-deildinni. Við spilum við öflugt lið Fram á föstudaginn þar sem þeir mæta eflaust dýrvitlausir til leiks eftir að við skoruðum flautumark í Safamýrinni í brjáluðum leik í fyrri umferðinni. Síðan erum við spenntir að ferðast til Grenivíkur og spila á frábæru vallarstæði Magna, en sú ferð verður nú engin lautarferð."

En hvað hefur komið Arnari mest á óvart í Inkasso-deildinni í sumar?

„Ég tel að vert sé að nefna umgjörðina hjá liðunum og gestristnina hvar sem við komum. Við gerðum okkur fulla grein fyrir því hversu sterk deildin var fyrir mót og hversu vel mönnuð liðin eru."

Að lokum var Arnar Þór beðinn um að spá fyrir um hvaða tvö lið fara uppúr Inkasso-deildinni í lok sumars. „Ég er nú engin véfrétt þannig það er erfitt að segja. Nokkur lið gætu blandað sér í toppbaráttuna sem mun gera spennuna ennþá meiri. Þannig tvö af efstu sjö liðunum fara líklegast upp úr Inkasso deildinni í ár," sagði Arnar Þór Helgason leikmaður Gróttu að lokum.



Sjáðu einnig
Bestur í 16. umferð - Roger Banet (Afturelding)
Bestur í 15. umferð - Rafael Victor (Þróttur R.)
Bestur í 14. umferð - Sævar Atli Magnússon (Leiknir R.)
Bestur í 13. umferð - Dino Gavric (Þór)
Bestur í 12. umferð - Guðmundur Karl Guðmundsson (Fjölnir)
Bestur í 11. umferð - Kenneth Hogg (Njarðvík)
Bestur í 10. umferð - Jasper Van Der Hayden (Þróttur)
Bestur í 9. umferð - Már Ægisson (Fram)
Bestur í 8. umferð - Marcao (Fram)
Bestur í 7. umferð - Gunnar Örvar Stefánsson (Magni)
Bestur í 6. umferð - Alvaro Montejo (Þór)
Bestur í 5. umferð - Nacho Heras (Leiknir R.)
Bestur í 4. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
Bestur í 3. umferð - Axel Sigurðarson (Grótta)
Bestur í 2. umferð - Rúnar Þór Sigurgeirsson (Keflavík)
Bestur í 1. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner