Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   mið 21. nóvember 2007 06:30
Magnús Már Einarsson
Kristján Óli: Vonandi verður þetta ævintýrasumar
Mynd: Heimasíða Hvatar
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Kristján Óli Sigurðsson var í gærkvöldi ráðinn þjálfari hjá Hvöt á Blönduósi sem leikur í annarri deild. Kristján sem ólst upp á Blönduósi og lék með yngri flokkum hjá Hvöt áður en hann fór í Breiðablik árið 1997 þar sem hann hefur leikið síðan. Nú mun hann fara aftur til Hvatar og þjálfa liðið.

,,Þetta verður spennandi og vonandi verður þetta ævintýrasumar hjá mér og strákunum í liðinu," sagði Kristján Óli við Fótbolta.net í gærkvöldi en hann segir að sínar gömlu heimaslóðir hafi haft áhrif á ákvörðun sína.

,,Það spilaði örugglega eitthvað inn í. Ég hefði örugglega ekki farið að þjálfa Magna á Grenivík."

Kristján sem er 27 ára segir það einnig hafa komið til greina að leika áfram í Landsbankadeildinni. ,,Það var það eina sem kom til greina annað, að vera í Landsbankadeildinni. Það kom vel til greina og ég viðraði það við tvö lið en síðan ákvað ég að stökkva á þetta," sagði Kristján Óli sem kveður Blika með söknuði.

,,Að sjálfsögðu. Ég er búinn að vera þarna síðan ég flutti frá Blönduósi. Þetta eru búin að vera ellefu fín ár og vonandi hefur maður skilað einhverju til félagsins."

Kristján Óli hefur enga reynslu af þjálfun en hann er þó hvergi smeykur við verkefnið. ,,Ég er búinn að tala við marga menn, bæði þjálfara og leikmenn sem ég hef spilað og starfað með í gegnum tíðina og þeir studdu mig allir í þessu. Ég á eftir að geta leitað til þeirra ef maður þarf á einhverri aðstoð að halda sem verður pottþétt."

,,Þetta lið er í fyrsta skipti í annarri deild í tuttugu ár. Ég man að ég var sjö ára á Blönduósi þegar þeir spiluðu í annarri deildinni síðast og þá gátu þeir ekki neitt. Markmiðið er að festa liðið í sessi, það á ekki að fara niður, það er á hreinu," sagði Kristján Óli sem var boltasækjari á leikjum Hvatar þegar að liðið lék síðast í annarri deild.

,,Þeir skoruðu sex eða sjö mörk allt sumarið minnir mig þannig að það var nóg að gera hjá boltasækjurunum."

Að sögn Kristjáns Óla má búast við að Hvöt styrki lið sitt fyrir átökin næsta sumar. ,,Það voru margir útlendingar þarna í fyrra og það er ekki útséð með þá, einhverjir verða væntanlega ekki áfram en markvörðurinn (Nezir Ohran) verður pottþétt áfram, hann er samningsbundinn. Síðan verður skoðað innanlands og utanlandsmarkað. Stjórnin ætlar að gera þetta af alvöru og þess vegna lét ég plata mig út í þetta," sagði Kristján sem mun spila með Hvöt auk þess að þjálfa liðið.

,,Ég geri fastlega ráð fyrir því, ef ég kemst í liðið," sagði Kristján Óli léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner