Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mið 02. mars 2022 18:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Abramovich: Ég hef ákveðið að selja félagið
Roman Abramovich.
Roman Abramovich.
Mynd: Getty Images
Chelsea fær nýjan eiganda á næstunni.
Chelsea fær nýjan eiganda á næstunni.
Mynd: EPA
Rússinn Roman Abramovich segist hafa tekið ákvörðun um að selja enska fótboltafélagið Chelsea.

Þetta segir hann í yfirlýsingu sem hann birtir á heimasíðu félagsins í kvöld.

Það hafa verið sögusagnir um þetta í breskum fjölmiðlum síðustu daga og núna hefur Abramovich staðfest þessi tíðindi.

„Eins og ég hef áður sagt, þá hef ég alltaf tekið ákvarðanir með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Við núverandi aðstæður hef ég því tekið þá ákvörðun að selja félagið þar sem ég tel að það sé best fyrir félagið, stuðningsmfólk, starfsfólk sem og styrktaraðila og samstarfsaðila félagsins," segir Abramovich.

Chelsea skuldar Abramovich 1,5 milljarð punda, en hann segist ekki ætla að biðja um þann pening til baka frá félaginu. „Þetta hefur aldrei snúist um viðskipti eða peninga fyrir mig, heldur um ástríðu á leiknum og félaginu."

Hann segir að um gríðarlega erfiða ákvörðun sé að ræða en hún sé fyrir bestu á þessum tímapunkti. „Ég vona að ég geti heimsótt Stamford Bridge í síðasta sinn til að kveðja ykkur öll í persónu. Það hafa verið mestu forréttindi ævi minnar að vera hluti af Chelsea FC og ég er stoltur af öllum árangri okkar. Fótboltafélagið Chelsea og stuðningsfólk þess mun alltaf vera í hjarta mínu," segir Abramovich.

Abramovich er meðal ríkustu manna Rússlands og hefur hann áður fyrr verið í nánum tengslum við Vladimír Pútín forseta landsins. Rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í síðustu viku og bjó til stríðsástand. Abramovich er sagður hræddur við það að fá refsingu frá breskum stjórnvöldum fyrir tengsl sín við stjórnvöld í Rússlandi.

Abramovich eignaðist Chelsea árið 2003 og hefur síðan þá lagt gríðarlega mikinn pening í félagið. Chelsea hefur náð stórgóðum árangri með hann sem eiganda.

Chelsea er eitt stærsta félag í heimi og sala á félaginu kemur til með að taka dágóðan tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner