fös 02. apríl 2021 16:08
Ívan Guðjón Baldursson
England: Daníel Leó byrjaði í mikilvægum sigri - Tap hjá Jökli
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Daníel Leó Grétarsson er kominn aftur úr meiðslum og var í byrjunarliði Blackpool í góðum sigri á útivelli gegn Swindon Town í dag.

Daníel Leó er mikilvægur hlekkur í liði Blackpool í ensku C-deildinni og er nýkominn aftur eftir að hafa eignast frumburðinn.

Daníel lék fyrstu 77 mínúturnar í hjarta varnarinnar er Blackpool hélt hreinu og nældi sér í afar mikilvæg stig í umspilsbaráttunni.

Daníel og félagar eru í gallharðri baráttu við félög á borð við Portsmouth, Charlton og Ipswich Town um síðustu umspilssæti deildarinnar.

Swindon 0 - 2 Blackpool
0-1 E. Simms ('44)
0-2 J. Yates ('61)

Jökull Andrésson var þá á milli stanganna í svekkjandi tapi Exeter á útivelli gegn Port Vale í D-deildinni.

Heimamenn í Port Vale skoruðu eina mark leiksins á annarri mínútu og urðu lokatölur 1-0.

Port Vale var betra liðið í leiknum og gerði Jökull vel að halda Exeter í viðureigninni með góðum markvörslum.

Exeter er búið að tapa fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum en er enn á lífi í baráttunni um umspilssæti.

Port Vale 1 - 0 Exeter
1-0 T. Robinson ('2)
Athugasemdir
banner