Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
   lau 02. desember 2023 08:30
Hafliði Breiðfjörð
Cardiff, Wales
Þorsteinn ósáttur við gagnrýni - Þarf að vera rétt ekki blaður út í loftið
Þorsteinn Halldórsson í Wales í gær.
Þorsteinn Halldórsson í Wales í gær.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslenska liðið fagnar í gær.
Íslenska liðið fagnar í gær.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari Íslands fór mikinn í viðtali við Fótbolta.net eftir 1 - 2 sigur á Wales í Þjóðadeildinni í gærkvöldi þegar hann var spurður út í gagnrýnisraddir fyrr í haust.

Ljóst var að Þorsteinn hefur verið ósáttur við einhverja gagnrýni sem hann hefur fengið með liðið og aðspurður hvort hann hafi verið að svara því með því að ná sigrinum í kvöld og þar með markmiðinu um sæti í umspili að halda sætinu í deildnni sagði hann.

„Mér er alveg sama um gagnrýnisraddir ef þær eru faglegar og byggðar á einhverju, en ekki þegar ég heyri einhverja gagnrýni að liðið nái ekki sex sendingum á milli og eitthvað svona kjaftæði," sagði Þorsteinn sem æstist allur upp í svarinu.

Ekki er alveg ljóst hvaða gagnrýni hann átti við þar en Orri Rafn Sigurðarson sem hefur mikið fjallað um kvennafótbolta á samskiptamiðlinum X hafði gagnrýnt eftir fyrri leikinn við Þýskaland að liðiðp næði ekki að tengja fleiri en 3-4 sendingar.

„Ég held að sá aðili sem er að telja þurfi að fara í einhvern skóla því það tók mig 125 sekúndur að finna tvö moment sem voru lengri en sex sendingar í Þýskalandsleiknum," hélt Þorsteinn áfram.

„Tvö moment eftir rúmlega tvær mínútur í leiknum lengri en sex sendingar. Ef maður ætlar að birta einhverjar svona staðreyndir um tölfræði þá þarf að vera rétt, ekki bara eitthvað blaður út í loftið um að hann sé einhver sérfræðingur þegar hann er það alveg örugglega ekki. Ekki miðað við að ég þurfti að horfa á fyrstu tvær mínúturnar af leiknum til að slá þetta niður sem hann var að halda fram þar. Önnur gagnrýni má alveg, þetta er íslenska landsliðið og þetta er landsliðið okkar. Fólk má alveg ræða um landsliðið og á meðan það er á faglegum nótum er mér alveg sama."

Þetta fór þá í taugarnar á þér?
„Þegar þú tekur svona hreina tölfæði og birtir sem staðreyndir, og þær staðreyndir eru rangar þá fer það í taugarnar á mér. Mér er alveg sama um gagnrýni þar sem rætt er um leikinn og taktískt og eitthvað svoleiðis. Það er hluti af umræðu um landsliðið. Fólk á að ræða þetta, hafa skoðanir og mæta á völlinn og allt það. Það eina sem fer í taugarnir á mér er þegar menn slá sig til riddara sem sérfræðingar og birta staðreyndir sem eru tómt þvaður."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner