Trafford vill fara frá City - Gallagher og Brown til Man Utd? - Arsenal fær tvíbura - Guendouzi aftur til Englands - Mateta á förum?
   þri 02. desember 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sjöunda landið á ferlinum - Mjög viðburðaríkur afmælisdagur
Samningur handsalaður.
Samningur handsalaður.
Mynd: NSÍ Runavík
'Þetta er góð áskorun, liðið er í Evrópukeppni og það er margt mjög spennandi og skemmtilegt við þetta'
'Þetta er góð áskorun, liðið er í Evrópukeppni og það er margt mjög spennandi og skemmtilegt við þetta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Siggi Raggi var með Keflavík í tæp fjögur tímabil, gerði vel með liðið en var látinn fara á fjórða tímabilinu þegar illa gekk.
Siggi Raggi var með Keflavík í tæp fjögur tímabil, gerði vel með liðið en var látinn fara á fjórða tímabilinu þegar illa gekk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markahrókurinn Klæmint skoraði 26 mörk í 26 leikjum í færeysku deildinni á síðasta tímabili.
Markahrókurinn Klæmint skoraði 26 mörk í 26 leikjum í færeysku deildinni á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Daniel Obbekjær lék með Breiðabliki 2023-25.
Daniel Obbekjær lék með Breiðabliki 2023-25.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brandur skoraði 16 mörk í 48 leikjum í deild og bikar fyrir FH.
Brandur skoraði 16 mörk í 48 leikjum í deild og bikar fyrir FH.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Gærdagurinn var viðburðaríkur hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, Sigga Ragga, sem var kynntur sem nýr þjálfari NSÍ Runavíkur í gærkvöldi. Siggi Raggi er mættur aftur í þjálfarastarf eftir rúmlega tveggja ára fjarveru, en síðast stýrði hann liði Keflavíkur.

Hann gerir eins árs samning við NSÍ sem endaði í 3. sæti færeysku deildarinnar í fyrra. Siggi Raggi ræddi við Fótbolta.net í dag.

Fékk mjög góðar móttökur
„Það var nóg sem gerðist í gær, hitti leikmenn, þjálfarateymið og skoðaði aðstöðuna," segir Siggi Raggi.

„Þetta var æðislega gaman, ofboðslega vel tekið á móti mér, Færeyingar mjög gestrisnir, voru búnir að undirbúa þetta vel. Þeir héldu blaðamannafund og þar voru margir stuðningsmenn. Það var gaman að hitta alla, allir mjög spenntir. Það er búinn að vera mikill uppgangur í félaginu og það er stöðugt að besta. Það er mikil spenna og eftirvænting fyrir næsta keppnistímabili því liðið er gott og stóð sig vel í fyrra, endaði í 3. sæti, skoraði mjög mikið af mörkum og spilaði skemmtilegan fótbolta. Stefnan er að halda áfram að bæta sig og vera með lið í toppbaráttu í Færeyjum. Það sameinast allir um það hjá félaginu og vilja sjá það gerast."

Spennandi starf
Hvernig var ferlið?

„Þeir nálguðust mig fyrst fyrir rúmri viku síðan, við ræddum málin fram og til baka, ég skoðaði liðið vel og ég skoðaði öll mörk skoruð og fengin á sig á síðasta tímabili. Ég fékk góða mynd af leikmannahópnum og þekki auðvitað nokkra leikmenn í liðinu, leikmenn sem hafa sem hafa m.a. spilað á Íslandi. Ég vissi að liðið væri gott, spilaði góðan fótbolta og er á mikilli uppleið."

„Mér fannst það passa vel við þær hugmyndir sem mig langar að mitt lið spili. Þetta er góð áskorun, liðið er í Evrópukeppni og það er margt mjög spennandi og skemmtilegt við þetta."


Þeir Klæmint Olsen (Breiðablik), Brandur Olsen (FH) og Daniel Obbekjær (Breiðablik) eru leikmenn NSÍ.

Stórt og gott teymi
Siggi Raggi er kominn með íbúð og bíl, verður í Færeyjum fram að föstudag. Hann mun verja jólum og áramótum á Íslandi en flytur í kjölfarið til Færeyja. Styrktarþjálfari liðsins mun stýra æfingum í desember. Allt fer svo á fullt í byrjun janúar.

„Við erum að skoða með aðstoðarþjálfara, en sá verður að öllum líkindum frá Færeyjum og við erum með ákveðinn mann í huga, en það er ekki búið að ganga frá því. Við erum með sama fitnessþjálfara (Jóhan Heimustovu) og var á síðasta tímabili, markmannsþjálfara, sjúkraþjálfara og það er leikgreinandi líka í teyminu - stórt og gott teymi. Öll umgjörð er mjög flott í kringum liðið, sem er spennandi."

Sjöunda landið á ferlinum
Hvernig líður þér með að vera orðinn þjálfari NSÍ?

„Það er mjög skemmtilegt að vera orðinn þjálfari NSÍ, þetta er sjöunda landið sem ég mun búa í og allt hefur þetta verið fótboltatengt. Þetta er mjög spennandi og ég hlakka til starfsins."

„Við sömdum um eitt ár, en við ætlum að setjast niður um mitt tímabil og sjá hvernig hefur gengið og hvernig báðum aðilum líkar. Ég hlakka mikið til, þetta er skemmtileg áskorun."


Siggi Raggi spilaði í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og lék sem atvinnumaður á Englandi og í Belgíu. Hann þjálfaði í Kína og í Noregi og er núna mættur til Færeyja.

Viðburðaríkur afmælisdagur
Hann varð 52 ára í gær og fagnaði honum með nýju starfi. Dagurinn verður eftirminnilegur.

„Þetta var mjög mikið áreiti, yfir 300 manns sem sendu mér afmæliskveðju, flug til Færeyja, blaðamannafundur, hitti stjórn og byrjaði að læra fullt af nýjum nöfnum. Þetta var mjög skemmtilegt frá A-Ö en maður var alveg búinn á því í lok dags."

Vilja ver eitt af toppliðunum í Færeyjum
Hver eru markmiðin?

„Við viljum vera áfram í toppbaráttu. Liðið var ekki eins sterkt og KÍ Klaksvík í fyrra, en sýndi á köflum mjög góðan fótbolta. Liðið skorað 92 mörk á síðasta tímabili, en fékk á sig meira en helmingi fleiri mörk en KÍ. Það er verk að vinna, en við viljum samt halda í þau gildi að spila góðan og skemmtilegan sóknarleik, en við þurfum líka að fækka mörkunum sem liðið fékk á sig."

„Liðið vann HJK í Evrópuleik, 4-0 á heimavelli, en tapaði 5-0 á útivelli. Það var mikil ánægja með fyrri leikinn en auðvitað mikið svekkelsi með seinni leikinn. Það voru rauð spjöld í báðum leikjum og óvenjulega miklar sveiflur milli leikja."

„Við þurfum að koma á góðum stöðugleika á liðinu, það er ekki langt síðan liðið spilaði í næstefstu (2023). Það er mikil uppbygging, mikil bæting, fólk í bænum er á bakvið liðið og gaman að taka þátt i því. Það þarf að ná stöðugleika og sýna að árangur síðasta tímabils var engin tilviljun. Við viljum stabílísera liðið sem eitt af toppliðunum í Færeyjum."


Fínt að taka smá pásu eftir Keflavík
Hvernig hafa síðustu tvö ár verið frá þjálfun?

„Ég er búinn að vera sinna mjög mikið þjálfaramenntuninni fyrir KSÍ, bæði á B, A og Pro stiginu hjá þeim. Núna var verið að útskrifa fullt af Pro License þjálfurum og ég held að ég hafi verið með sex þeirra í kennslu hjá mér, tók þá út og fylgdist með þeim, bæði á æfingum og í leikjum. Ég hef sinnt þjálfaramenntun öðru hvoru og svo hef ég verið að halda fyrirlestra fyrir bæði íþróttafólk og félög og ég var að leggja hugarfarspróf fyrir unga leikmenn á Íslandi til að vinna í andlegu hliðinni - lagði próf fyrir leikmenn í 2. og 3. flokki hjá KA, Þór og Keflavík fyrir stuttu. Svo er ég með íþróttafólk í ráðgjöf líka, þannig þetta hefur verið sitt lítið af hverju síðustu árin."

„Ég fann þegar ég hætti hjá Keflavík að ég þurfti smá tíma til að hlaða batteríin, þetta var búin að vera hörkukeyrsla í fjögur ár að keyra alltaf á milli. Við náðum þremur árum þar í mjög góðri uppbyggingu, en svo má segja að þetta hafi hrunið á fjórða árinu, misstum marga af bestu leikmönnunum frá okkur. Það var fínt að taka sér smá pásu, það er nauðsynlegt öðru hvoru að hlaða aðeins batteríin og koma svo sterkur inn,"
segir Siggi Raggi.
Athugasemdir
banner