Á myndinni eru Ingi Torfi Sverrisson, annar af stofnendum LifeTrack, og Siggi Höskulds, þjálfari Þórs.
LifeTrack og meistaraflokkur Þórs hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að efla frammistöðu og heilsu leikmanna á næsta tímabili í Lengjudeildinni. Ingi Torfi Sverrisson, annar stofnandi LifeTrack, mun koma inn í þjálfarateymi Þórs og kenna þeim að nota LifeTrack appið sem leggur áherslu á næringu, hugarfar og hvatningu, sem eru lykilþættir í íþróttum.
Samstarfið endurspeglar sameiginlega sýn beggja aðila um mikilvægi heildrænnar nálgunar á vellinum og utan hans. Leikmenn meistaraflokks Þórs nýta verkfæri og lausnir LifeTrack til að efla sig sem einstaklingar og lið á komandi tímabili.
„Við viljum styðja leikmenn Þórs í að ná sínum besta árangri með góðri næringu, skýrri markmiðasetningu og jákvæðu hugarfari. Okkar helsta markmið er að kenna leikmönnum Þórs að næra sig í takt við mikið æfingaálag sem og fyrir og eftir æfingar og leiki. Það er mjög mikilvægt að borða nóg enda er fylgni á milli þreytu, álagsmeiðsla og jafnvel ofþjálfunar og þess að borða ekki nóg. Afreksíþróttafólk á það til að setja mikinn fókus á æfingar en lítinn í næringu, svefn og jákvætt hugarfar,“ segir Ingi Torfi.
Tæknin styður við liðsárangur
LifeTrack setti nýverið í loftið heilsuapp sem meðal annars aðstoðar fólk við mataræði, hreyfingu og hugarfar.
LifeTrack hefur verið í samstarfi við Thelmu Rún Rúnarsdóttur næringarfræðing sem hefur m.a. sérhæft sig í næringu íþróttafólks.
„Að fá LifeTrack inn í okkar starf mun styrkja mikilvæga þætti frammistöðu leikmanna, bæði líkamlega og andlega. Næring og rétt hugarfar skipta sköpum og með þessu samstarfi bindum við miklar vonir við bætingar á komandi tímabili,“ segir Sigurður Höskuldsson, þjálfari meistaraflokks Þórs.
Athugasemdir