Sportbloggið - Jóhann Ólafur Sigurðsson skrifar:
Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu
Félagsskiptaglugginn lokaði eftir gríðarlega spennandi lokadag þar sem skipti Mesut Özil til Arsenal stóðu upp úr. Það sem fór þó kannski framhjá mörgum er að Marko nokkur Arnautovic gekk til liðs við Stoke City.
Félagsskiptaglugginn lokaði eftir gríðarlega spennandi lokadag þar sem skipti Mesut Özil til Arsenal stóðu upp úr. Það sem fór þó kannski framhjá mörgum er að Marko nokkur Arnautovic gekk til liðs við Stoke City.
Það hefur verið venjan þegar Stoke er annars vegar að maður hefur lítinn sem engan áhuga á þeim leikmönnum sem þeir fá til liðs við sig. Það er ekki hægt að segja í þetta skiptið. Arnautovic þessi er ótrúlega litríkur karakter og mun án efa setja mark sitt á ensku úrvalsdeildina, hvernig sem hann gerir það. Sportbloggið ákvað að kynna sér feril hans hingað til.
Marko
Marko Arnautovic fæddist 19. apríl 1989 í Floridsdorf í Vín, Austurríki. Hann hóf feril sinn í heimlandinu og lék þar með fjölda unglingaliða, eins og t.d. Floridsdorf, FK Austria Wien og SK Rapid Wien. Ástæður þess að hann var duglegur að skipta um lið strax á unga aldri voru hegðunarvandamál, eitthvað sem veit aldrei á gott. Sagan segir að hann hafi ekki verið duglegur að æfa og barnalegur í framkomu.
Þrátt fyrir þetta fékk Twente í Hollandi fljótlega áhuga á honum og það var síðan árið 2006 sem hann gekk til liðs við félagið, þá aðeins 17 ára gamall. Arnautovic sýndi strax hæfileika sína við komuna til Twente. Tímabilið 2007/08 skoraði hann t.a.m. 22 mörk í 24 leikjum fyrir U-17 ára lið félagins á leið þess til hollenska meistaratitilsins og árin 2006-2008 skoraði hann 27 mörk í 32 leikjum fyrir varaliðið. Fljótlega eftir að honum tókst að brjóta sér leið inn í aðalliðið fór Inter að fylgjast með honum.
Það var síðan 6. ágúst 2009 sem hann gekk til liðs við ítalska félagið á láni út tímabilið og myndi hann ganga endanlega til liðs við Inter ef hann myndi spila vissan fjölda leikja, en annars færi hann til baka til Twente. Ekki gekk nægilega vel hjá Arnautovic á Ítalíu og lék hann ekki nema 3 leiki fyrir félagið. José Mourinho lét t.a.m. hafa eftir sér að Arnautovic væri frábær manneskja en hefði hugarfar á við barn.
Frá Inter lá leiðin til Werder Bremen þar sem hann var fljótlega byrjaður að vera með vandræði. Það tók Torsten Frings, þáverandi fyrirliða liðsins, ekki langan tíma að byrja að gagnrýna sinn nýja liðsfélaga. Eftir að Arnautovic hegðaði sér enn og aftur eins og barn í æfingabúðum liðsins hafði Frings þetta að segja um hann: ,,Hann gerir það sem hann vill, sem er sérstaklega óvelkomið hugarfar hér hjá Bremen. Hann rífst of mikið, segir oft nei og þarf að finna eitthvað jafnvægi í hegðun sinni.” Það er talið nokkuð ljóst að Frings var þarna að tala um það þegar Arnautovic reifst við Thomas Schaaf, þjálfara liðsins, á æfingu, sparkaði boltanum í burtu og neitaði að gera þær armbeygjur sem honum var skylt að gera sem refsingu. Góð byrjun.
Arnautovic var til eilífðra vandræða á meðan á dvöl hans hjá Bremen stóð yfir, eins og sést á listanum hér að neðan, og eru stuðningsmenn, leikmenn og þjálfarar liðsins án efa glaðir að vera lausir við kauða.
Listi yfir “glæpi” Arnautovic
- Hann fékk lánaðan Bentley bíl Samuel Eto´o. Það vildi ekki betur til en að honum var stolið á meðan hann var í vörslu Arnautovic.
- Kom José Mourinho til að brosa þegar hann mætti seint á æfingu einn daginn en var svo mættur þremur tímum fyrr daginn eftir.
- Mourinho kallaði hann síðar frábæra persónu, en að hann hefði hugarfar á við barn.
- Hann lét sérsmíða fyrir sig skó þegar hann gekk til liðs við Werder Bremen eftir lánsdvöl sína hjá Inter. Á þeim stóð “2010 Champions League winner”. Í þessum skóm mætti hann á sína fyrstu æfingu hjá Bremen. Þess má geta að Arnautovic var ekki einu sinni á varamannabekk Inter í úrslitaleiknum.
- Bremen settu hann í bann í lok síðasta tímabils eftir að hann var tekinn fyrir of hraðan akstur.
- Hann hefur oftar en einu sinni verið rekinn úr landsliðshóp Austurríkis fyrir slæma framkomu.
- Hann var einu sinni kallaður “Arrogantovic” af stuðningsmönnum Bremen sem voru ósáttir við leiðinlega framkomu hans.
- Lenti í opinberu rifrildi við stjórnarmann Werder Bremen, Klaus Allofs, í október 2010.
- Slagsmál við liðsfélaga sinn í Austurríska landsliðinu, Stefan Maierhofer, í búningsklefa liðsins í leik í undankeppni EM í mars 2011.
- Þrátt fyrir að vera ekki duglegur að djamma þá tókst honum að vera settur í bann fyrir að sjást á skemmtistað fyrir leik.
- Niðurlægði lögreglumann sem stoppaði hann í hefðbundið eftirlit í Vín. ,,Þegiðu. Ég þéna svo mikinn pening að ég gæti keypt lífið þitt.” sagði Arnautovic við hann. Hann baðst afsökunar síðar.
- Slóst við liðsfélaga sinn Sokratis í mars á þessu ári.
- Hann sleit liðbönd í hné þegar hann var að leika sér við hundinn sinn þegar hann var leikmaður Bremen.
- Hann sagði eitt sinn í viðtali við tímarit að hann væri að leita sér að konu: ,,Þú þarft að vera með tattú, hafa svart hár og sílikon brjóst.”
Arnautovic er ekki par sáttur við þá umfjöllun sem hann hefur fengið í blöðum á Englandi eftir að ljóst var að hann myndi ganga til liðs við Stoke City. Hann gaf í kjölfarið út yfirlýsingu, hún hljómar svona: ,,Síðustu daga hafa komið fram margar greinar í þýskum fjölmiðlum sem fjalla um hluti sem eiga ekki við líf Marko Arnautovic. Arnautovic vill nýta tækifærið og færa sig frá þessum ásökunum og taka það fram að þær eru langt frá því að vera sannar.”
Skemmtilegt nokk þá ákvað tímaritið, þar sem hann tjáði sig um draumakonu sína, að birta hljóðbút úr viðtali hans við blaðið þar sem allt þetta kom fram. Algjör fagmaður hann Arnautovic. Líka skemmtilegt að sjá hann tala um sjálfan sig í þriðju persónu, það eru ekki margir sem gera það, og bætist hann í hóp með mönnum eins og Diego Armando Maradona og Zlatan Ibrahimovic þegar kemur að því, en honum var á sínum tíma einmitt líkt við Zlatan.
Spurning hvort Arnautovic geri eitthvað svipað við Jermaine Pennant
Að lokum vitnum við í Othmar Larisch, en hann uppgötvaði Arnautovic í Vín á sínum tíma: ,,Hausinn á honum er vandamálið, annars myndi hann ekki hegða sér svona. Hann þjáist af vanmáttarkennd og ætti að fara til sálfræðings. Það myndi hjálpa honum mjög mikið.”
Það verður spennandi að fylgjast með Arnautovic í vetur!
Ferillinn í tölum
1995-1998 – Unglingalið Floridsdorf.
1998-2001 - Unglingalið FK Austria Wien.
2001-2002 – Unglingalið First Vienna FC 1894.
2002-2003 – Unglingalið FK Austria Wien.
2003-2004 – Unglingalið SK Rapid Wien.
2004-2005 – Unglingalið Floridsdorf.
2006-2007 – Unglingalið FC Twente.
2006-2010 – Twente – 44 leikir 12 mörk.
2009-2010 – Inter (lán) – 3 leikir 0 mörk.
2010-2013 – Werder Bremen – 72 leikir 14 mörk.
2013- – Stoke City
Landsliðsferill
2006 – U18 Austurríki – 1 leikir 0 mörk.
2007 – U19 Austurríki – 4 leikir 0 mörk.
2007-2010 – U21 Austurríki – 5 leikir 3 mörk.
2008- – A-lið Austurríki – 27 leikir 7 mörk.
Athugasemdir