Inter mun keppa við Liverpool um Kimmich - Verbruggen á ratsjá Chelsea - Real Madrid fylgist með Wharton
   þri 04. mars 2025 23:42
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
David sá ekki Hákon en heyrði hann öskra
Hákon er næstmarkahæsti Íslendingurinn í Meistaradeildinni.
Hákon er næstmarkahæsti Íslendingurinn í Meistaradeildinni.
Mynd: EPA
Hákon fagnar marki sínu.
Hákon fagnar marki sínu.
Mynd: EPA
Jonathan David í baráttunni í kvöld.
Jonathan David í baráttunni í kvöld.
Mynd: EPA
Hákon Arnar Haraldsson skoraði og var valinn maður leiksins þegar Lille gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Dortmund í Meistaradeildinni í kvöld.

Þetta var þriðja Meistaradeildarmark Hákonar sem skoraði fyrir FC Kaupmannahöfn gegn Dortmund fyrir þremur árum. Þá skoraði hann fyrr á þessu tímabili í 3-2 sigri Lille gegn Sturm Graz.

Hann er nú næstmarkahæsti Íslendingurinn í Meistaradeildinni, á eftir Eiði Smára Guðjohnsen sem skoraði samtals sjö mörk fyrir Barcelona og Chelsea.

Þá er Hákon annar Íslendingurinn til að skora í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, Eiður Smári gerði það síðast 6. mars 2007 fyrir Barcelona gegn Liverpool samkvæmt Meistaramörkunum á Stöð 2 Sport.

Ég öskraði mjög hátt
Í þættinum var spilað viðtal við Hákon á ensku eftir leikinn í kvöld en þar sagði hann meðal annars:

„Það er ótrúleg tilfinning að skora hér fyrir framan 80 þúsund manns og sérstaklega af því að þetta var mjög mikilvægt mark sem tryggði jafnteflið. Ég er mjög ánægður með markið," sagði Hákon.

Hann og kanadíski sóknarmaðurinn Jonathan David ná mjög vel saman inni á vellinum og David lagði upp markið með frábærri sendingu. Hákon hafði kallað eftir því að fá sendinguna.

„Ég öskraði mjög hátt og bað um boltann. Hann sá mig ekki en heyrði í mér, hann sagði mér frá því. Mér fannst ég vera að missa boltann frá mér í færinu en ég stökk á hann og það heppnaðist fullkomlega. Boltinn fór beint í hornið og það var góð tilfinning."

Hákon var spurður út í bætinguna á spilamennsku Lille í seinni hálfleik.

„Við gerðum okkur betur grein fyrir því hvernig þeir byggðu spilið upp svo við breyttum því pressunni aðeins. Mér fannst það breyta miklu. Við vorum síðan miklu meira með boltann eftir það. Við vorum með meira frjálsræði og ekki eins hræddir við að fá boltann. Við vorum hugrakkari og því vorum við betri í seinni hálfleiknum."

Þetta var fyrri leikur liðanna, við hverju mega leikmenn Dortmund búast á heimavelli Lille?

„Það verður erfitt fyrir þá að koma á okkar heimavöll og þeir mega búast við orkumiklum og kraftmiklum stuðningsmönnum okkar. Ég er spenntur fyrir því að spila seinni leikinn."
Athugasemdir
banner
banner