Arsenal er svo gott sem búið að tryggja sig áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að liðið burstaði PSV, 7-1, í Eindhoven í Hollandi í kvöld. Hákon Arnar Haraldsson hélt þá Lille inn í einvíginu gegn Borussia Dortmund með að skora eina mark liðsins í 1-1 jafntefli í Þýskalandi.
Meistaradeildin er titillinn sem Arsenal horfir nú til eftir að liðið missti Liverpool of langt frá sér í baráttu um Englandsmeistaratitilinn.
Arsenal mætti til leiks af krafti og þegar tæpar átján mínútur voru komnar á klukkuna skoraði Jurrien Timber með skalla eftir fyrirgjöf Declan Rice frá vinstri.
Gestirnir héldu áfram að ráðast á PSV vinstra megin á vellinum og bar það aftur árangur þegar Ethan Nwaneri skoraði með föstu skoti úr miðjum teignum. Mikel Merino bætti við þriðja markinu eftir hálftíma leik eftir slakan varnarleik PSV. Boltinn datt fyrir hann í teignum og skoraði hann með yfirveguðu skoti í vinstra hornið.
PSV skoraði eitt mark í leiknum og var það eftir að Thomas Partey braut á Luuk De Jong í teignum. Noa Lang skoraði úr spyrnunni en Arsenal svaraði þessu með fjórum mörkum í síðari.
Martin Ödegaard skoraði úr miðjum teignum strax í byrjun síðari hálfleiks og gerði Leandro Trossard fimmta markið tæpri mínútu síðar.
Ödegaard gerði annað mark sitt þegar tuttugu mínútur voru eftir og rak ítalski bakvörðurinn Riccardo Calafiori síðasta naglann í kistu PSV þegar lítið var eftir.
Lokatölur 7-1 og Arsenal með annan fótinn og rúmlega það í 8-liða úrslitin.
Borussia Dortmund og Lille gerðu 1-1 jafntefli á SIgnal Iduna Park í Dortmund.
Þýski landsliðsmaðurinn Karim Adeyemi skoraði á 22. mínútu leiksins.
Á 68. mínútu jafnaði Lille og auðvitað var það eftir samvinnu Hákonar Arnars Haraldssonar og Jonathan David. Kanadíski landsliðsmaðurinn stakk boltanum inn fyrir á Hákon sem teygði sig í boltann og kom honum framhjá Gregor Kobel í markinu.
Þriðja sinn sem Hákon skorar í Meistaradeildinni og í annað sinn gegn Dortmund, en hann gerði það líka í leik FCK og Dortmund fyrir þremur árum.
Þetta var þá sjöunda mark Hákonar á tímabilinu en hann hefur verið með bestu leikmönnum Lille og verið orðaður við stórliðin á Englandi.
Lille tókst að halda stöðunni og fer því til Frakkland í ágætum málum.
Real Madrid vann þá grannaslaginn gegn Atlético Madríd, 2-1, á Santiago Bernabeu.
Brasilíski sóknarmaðurinn Rodrygo kom heimamönnum á bragðið á 4. mínútu en Argentínumaðurinn Julian Alvarez náði að jafna fyrir Atlético eftir rúman hálftíma.
Marokkómaðurinn Brahim Diaz skoraði markið sem skildi liðin að þegar aðeins tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleiknum.
Allt opið fyrir síðari leikinn sem fer fram á Wanda Metropolitano leikvanginum, heimavelli Atlético, í næstu viku.
Borussia D. 1 - 1 Lille
1-0 Karim Adeyemi ('22 )
1-1 Hakon Arnar Haraldsson ('68 )
Real Madrid 2 - 1 Atletico Madrid
1-0 Rodrygo ('4 )
1-1 Julian Alvarez ('32 )
2-1 Brahim Diaz ('55 )
PSV 1 - 7 Arsenal
0-1 Jurrien Timber ('18 )
0-2 Ethan Nwaneri ('21 )
0-3 Mikel Merino ('31 )
1-3 Noa Lang ('43 , víti)
1-4 Martin Odegaard ('47 )
1-5 Leandro Trossard ('48 )
1-6 Martin Odegaard ('73 )
1-7 Riccardo Calafiori ('85 )
Athugasemdir