Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 04. september 2013 15:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Mestu framfarir í Pepsi-deildinni
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Runólfur Þórhallsson.
Runólfur Þórhallsson.
Mynd: Úr einkasafni
Atli Sigurjónsson.
Atli Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Ásgeir Guðmundsson.
Brynjar Ásgeir Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Jóhann Laxdal.
Jóhann Laxdal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Góðan daginn kæru lesendur. Ég held að fyrirsögnin tali sínu máli svo allar frekari útskýringar eru óþarfar. Þessi listi er eingöngu skoðun höfundar en alls ekki starfsmanna vefsíðunnar Fótbolti.net.

Vissulega komu margir aðrir leikmenn til greina, þar má nefna Fylkis bræðurnar Ásgeir Börk og Agnar Braga. Einnig má nefna varnarjaxlinn Guðmann Þórisson úr FH sem virðist hægt og rólega ætla að verða einn besti hafsent deildarinar, svona gæti ég haldið áfram en ég endaði á því að velja þá fimm leikmenn sem ég tel að hafi bætt sig hvað mest frá því að Pepsi deildinni lauk sumarið 2012 og hún hófst aftur vorið 2013. Listinn er í stafrófsröð.

Atli Sigurjónsson (KR):
Drengurinn frá Akureyri á svo sannarlega heima á þessum lista. Atli spilaði stórt hlutverk í Þórs liðinu þegar þeir komu upp í deild þeirra bestu sumarið 2010 en þá spilaði hann 17 leiki og kom mörgum á óvart með góðri frammistöðu og þá sérstaklega hversu gott auga hann hefur fyrir spili ásamt því að hafa öflugan vinstri fót.

Rúnar Kristinsson og Pétur Pétursson, þjálfarar KR, heilluðust af honum og fengu hann til liðs við KR sem var þáverandi Íslands- og bikarmeistari. Sumarið 2012 fór þó ekki alveg eins og Atli hafði ætlað sér og tók hann aðeins þátt í 14 leikjum af 22 og skoraði ekki mark. Um leið og tímabilinu lauk fóru sögusagnir í gang um að Atli væri á leiðinni aftur heim á Akureyri enda Þórsarar komnir aftur í Pepsi deildina, en Atli var áfram í Vesturbænum. Hvort að Atla hafi einhvern tímann langað aftur til Akureyrar veit ég ekki en ég sem KR-ingur þakka honum allavega fyrir í dag að hafa verið áfram í KR því hann hefur svo sannarlega blómstrað í sumar.

Það verður að segjast að fjarvera Kjartans Henry hefur líklega hjálpað honum en Atli hefur spilað mikið úti á hægri vængnum hjá KR í fjarveru Kjartans. Þeir eru vissulega gjörólíkir kantmenn en það virðist ekki hrjá KR liðið þar sem liðið situr á toppnum sem stendur.

Í sumar er Atli búinn að koma við sögu í jafn mörgum leikjum og hann gerði í fyrra, þegar það eru heilir sex leikir eftir af tímabilinu. Hann hefur reyndar aðeins skorað eitt mark en mig grunar að hann hafi átt þátt í töluvert fleiri mörkum en í fyrra. Atli er einungis 22 ára gamall svo hann á vissulega framtíðina fyrir sér, hvort sem það sé í Vesturbænum eða erlendis.

Brynjar Ásgeir Guðmundsson (FH):
Eftir að hafa spilað aðeins fimm leiki með FH sumarið 2012 þá bjóst maður nú ekki við því að FH-ingurinn ungi myndi láta mikið að sér kveða í sumar. FH-ingar virtust fullmannaðir í þeim stöðum sem Brynjar getur spilað og litlir möguleikar virtust vera á því að hann fengi margar mínútur á vellinum. Meiðsli, leikbönn og almennt góð frammistaða Brynjars hafa breytt því.

Brynjar hefur komið við sögu í 14 leikjum hjá FH liðinu í sumar en virðist ekki eiga neina fasta stöðu á vellinum. Ég er nokkuð viss um að hann hafi spilað í hægri bakverði, hafsent og á miðri miðjunni, sannkallaður John O‘Shea hérna á ferðinni. Í þessum 14 leikjum sem Brynjar hefur spilað hefur hann skorað þrjú mörk sem hlýtur að teljast nokkuð gott hjá manni sem er annað hvort hluti af varnarlínu eða í þessari svokölluðu „skítavinnu“ á miðjunni.

Frammistaða Brynjars hefur ekki farið framhjá Eyjólfi Sverrisyni eða Tómasi Inga en þeir völdu Brynjar í U-21 árs landsliðshóp Íslands gegn Hvít Rússum nú ekki fyrir alls löngu og kom Brynjar inn á í 4-1 stórsigri Íslands. Ég reikna fastlega með því að hann haldi sæti sínu þar út undankeppnina.

Hólmbert Aron Friðjónsson (Fram):
Hólmbert gekk til liðs við Fram í júlí glugganum 2011, hann kom frá HK sem voru þá í bullandi fallbaráttu í 1.deild en Fram voru á sama tíma í bullandi fallhættu í Pepsi deild. Það endaði svo að Fram hélt sér í Pepsi deild en HK féll niður í 2.deild. Það sumarið spilaði Hólmbert 9 leiki fyrir Fram, án þess að skora mark. Í fyrra lék hann svo 13 leiki með Fram liðinu en skoraði aðeins eitt mark. Pepsi mörkin rifjuðu um daginn upp atvik sem átti sér stað hjá Hólmberti í fyrra þegar hann var sendur útaf vellinum til að skipta um sokka, það virtist einkennandi fyrir sumarið hjá drengnum, hann reyndi mikið en lítið gekk upp.

Eins og með Atla þá spáðu því margir að Hólmbert myndi flýja aftur heim í hlýjuna í Kópavoginum hjá HK en sem betur fer gerðist það ekki því að í sumar hefur Hólmbert blómstrað. Hann hefur ekki aðeins blómstrað í deildinni þar sem hann er markahæstur ásamt öðrum leikmanni sem er einnig á þessum lista heldur skoraði Hólmbert þrjú mörk í fimm leikjum í bikarkeppni KSÍ sem endaði með dramatískum sigri Fram í vítaspyrnukeppni gegn Stjörnunni. Auðvitað fór Hólmbert á punktinn í vítaspyrnukeppninni og setti hann örugglega í netið. Ásamt því að vera orðinn ágætis vítaskytta þá hefur Hólmbert verið að þróa þessar svokölluðu „Ronaldo aukaspyrnur“ og eru þær orðnar enn eitt vopnið í ágætlega vel útbúnu vopnabúri drengsins.

Ef ekki væri fyrir fáránlegt form Emil Atlasonar með U-21 árs landsliði okkar Íslendinga þá væri Hólmbert að öllum líkindum að byrja sem fremsti maður í því liði.

Jóhann Laxdal (Stjarnan):
Jóhann Laxdal hefur verið fastamaður í Stjörnunni síðan 2008 þegar liðið var ennþá í 1.deild en þá var Jóhann aðeins 18 ára. Stjörnuliðið fór upp um deild það sumar og Jóhann hélt stöðu sinni í liðinu, margir þjálfarar hefðu reynt að fá eldri mann þar sem að ungir varnarmenn eiga það til að vera frekar óáreiðanlegir. Líklega hefur það hjálpað Jóhanni að hafa bróðir sinn, Daníel, til halds og traust öll þessi ár en þeir bræður eru að vissu leyti hjartað í þessu Stjörnuliði enda er Daníel fyrirliði liðsins í dag.

Talandi um óáreiðanlega varnarmenn, þá var það líklega það sem einkenndi Stjörnuliðið á sínum fyrstu árum í Pepsi deildinni en með tilkomu Loga Ólafs virðist vera komin meira festa á öftustu línu liðsins. Þess til sönnunar má benda á að liðið er sem stendur með bestu vörn Pepsi deildarinnar, aðeins 17 mörk fengin á sig í 18 leikjum en á undanförnum árum hefur Stjarnan verið að leka 30-40 mörkum í 22 leikjum.

Þó að Jóhann teljist nú vera sóknarbakvörður þá virðist agaður varnarleikur Stjörnunnar hafa heillað Lars Lagerback sem valdi Jóhann í A-landsliðs hóp Íslands fyrir æfingaleik gegn Færeyingum nú á dögunum þar sem hann spilaði síðari hálfleik í 1-0 sigri okkar Íslendinga. Frammistaða Jóhanns þar var nægilega góð til að hann var aftur kallaður í A-landsliðs hópinn sem mætir Sviss og Albaníu.

Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort Jóhann muni spila eitthvað gegn Sviss eða Albaníu en framtíðin er svo sannarlega björt og hlýtur að það teljast jákvætt þar sem að Ísland er frekar fáliðað í bakvarðarstöðunum tveimur.

Viðar Örn Kjartansson (Fylkir):
Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall þá hefur Viðar Örn spilað með þremur liðum í Pepsi deildinni. Sumarið 2009 spilaði Viðar með ÍBV, spilaði hann 17 leiki og skoraði tvö mörk. Árin 2010 og 2012 spilaði hann með uppeldisfélagi sínu, Selfossi, í Pepsi deildinni, spilaði hann 33 leiki samtals og skoraði 10 mörk.

Viðar var einn af björtum punktum Selfoss liðsins síðasta sumar sem endaði þó á því að falla úr deildinni, hann virtist þó aldrei vera á leiðinni í 1.deildina með uppeldisfélaginu en var orðaður við þó nokkur lið úr Pepsi deildinni yfir veturinn en hann endaði svo á að ganga til liðs við Fylki.

Eftir gífurlega erfiða byrjun Fylkismanna þar sem allt virtist stefna í að Viðar félli í annað skiptið á tveimur árum þá efast ég um að hann sjái eftir þessari ákvörðun í dag enda er hann markahæstur í deildinni ásamt Hólmberti Aroni með 10 mörk í aðeins 18 leikjum. Það er heilum 15 leikjum minna en það tók hann að skora 10 mörk með Selfossi.

Viðar er rosalega beinskeyttur leikmaður sem sér ekkert annað en markið og er svo sannarlega einn af heitustu framherjum landsins, ef hann heldur þessum dampi út tímabilið og á næsta tímabili þá er aldrei að vita hvað gerist hjá honum í framtíðinni. Hvort sem það verður stærra lið á Íslandi eða atvinnumennska, við verðum bara að bíða og sjá.

Runólfur Þórhallsson - twitter.com/Runolfur21
Athugasemdir
banner