
Elías Rafn Ólafsson og Hákon Rafn Valdimarsson berjast um markvarðarstöðu íslenska landsliðsins. Þar eru tveir frábærir kostir og erfitt að spá fyrir um hvor verji markið annað kvöld. Í síðasta landsliðsglugga, vináttuleikjum gegn Norður-Írlandi og Skotlandi, skiptu Elías og Hákon leikjunum á milli sín.
Íslenska landsliðið mætir Aserbaídsjan á Laugardalsvelli annað kvöld, í sínum fyrsta leik í undankeppni HM. Á þriðjudaginn er svo leikur gegn Frakklandi ytra.
Íslenska landsliðið mætir Aserbaídsjan á Laugardalsvelli annað kvöld, í sínum fyrsta leik í undankeppni HM. Á þriðjudaginn er svo leikur gegn Frakklandi ytra.
Elías Rafn Ólafsson (25 ára) - FC Midtjylland - 7 landsleikir
Elías er aðalmarkvörður danska liðsins Midtjylland sem er komið í Evrópudeildina. Hann hefur það fram yfir Hákon að spila fleiri leiki með sínu félagsliði.
Hákon Rafn Valdimarsson (23 ára) - Brentford - 20 landsleikir
Hákon er varamarkvörður Brentford en fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í sigri gegn Bournemouth í deildabikarnum í lok ágúst. Hann hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins og spilaði báða leiki Íslands í umspilinu gegn Kósovó undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar.
Hvað segir Arnar?
„Það er samkeppni hjá þeim eins og hjá mörgum öðrum. Ég hef aldrei skilið það markmanna 'syndrome' að mega ekki spila sitthvorn leikinn án þess að allt fari í háaloft. Samkeppni er af hinu góða og þeir ýta á hvorn annan upp á hæsta stig," sagði Arnar landsliðsþjálfari um samkeppnina milli þeirra.
Gætu þeir skipt leikjunum á milli sín í þessum glugga eins og þeim síðasta, sama þó um mótsleiki sé að ræða? Eins og Arnar kemur inná þá telja margir að það hafi ekki góð áhrif að vera að hringla með markvarðarstöðuna og telja að það eigi að vera með fastan aðalmarkvörð.
Hvað segir Elías?
„Ég og Hákon erum toppfélagar, svo kemur í ljós hver spilar. Það er ákvörðun sem er undir þjálfaranum komin. Þetta er auðvitað öðruvísi, þetta er bara ein staða á vellinum. Við styðjum hvorn annan og erum góðir félagar utan vallar. Þetta er þægilegra samband en á flestum öðrum stöðum," sagði Elías í viðtali við Fótbolta.net í vikunni.
En hvað segja stuðningsmenn?
Samkvæmt nýjustu tölum í skoðanakönnun sem er í gangi á forsíðu Fótbolta.net eru lesendur á því að Hákon eigi að verja mark íslenska liðsins.

27.08.2025 17:30
Eitthvað sem Arnar hefur aldrei skilið
02.09.2025 18:48
Elías um samkeppnina við Hákon: Þægilegra samband en á flestum öðrum stöðum
Athugasemdir