Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 05. júní 2023 10:40
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ástæður þess að ég hætti að dæma
Brynjar Birgisson skrifar:
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Brynjar Birgisson.
Brynjar Birgisson.
Mynd: Aðsend mynd
Ívar Orri Kristjánsson dæmdi umræddan leik.
Ívar Orri Kristjánsson dæmdi umræddan leik.
Mynd: Fótbolti.net
Sölvi Geir Ottesen aðstoðarþjálfari Víkings fær að líta rauða spjaldið.
Sölvi Geir Ottesen aðstoðarþjálfari Víkings fær að líta rauða spjaldið.
Mynd: Fótbolti.net
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net
Árið 2006 var ég 18 ára og tiltölulega nýhættur að æfa knattspyrnu vegna meiðsla en fótbolti var mitt helsta áhugamál. Ég ákvað að fara þá leið að fá dómararéttindi og byrja dæma leiki hjá liðinu sem ég æfði með. Ég vildi halda tengslunum við fótbolta og liðið mitt og fannst þetta góð hvatning til að halda mér í góðu líkamlegu ástandi. Ég var frekar spenntur fyrir þessu öllu. Eins og gefur að skilja þá byrjaði ég að dæma hjá yngstu flokkunum en fljótlega var ég byrjaður að dæma hjá 2., 3. og 4. flokki karla og kvenna ásamt því að dæma æfingaleiki hjá meistaraflokkunum.

En þegar ég hugsa um þau tæpu fjögur ár sem ég dæmdi knattspyrnuleiki get ég ekki sagt að minningarnar séu fullar af gleði. Því miður.

Vanþakklætið var næstum áþreifanlegt. Það þótti gífurlega illa séð að neita dæma leiki, sama hvaða tími árs var þó ég væri nemandi í framhaldsskóla sem þurfti að sinna því. Mikið tal um að klúbburinn væri mikilvægur og hvort ég væri ekki sannur stuðningsmaður. Eitt sinn fékk ég SMS frá starfsmanni klúbbsins þar sem ég var spurður hvort ég gæti verið aðstoðardómari í æfingaleik, um það bil tveimur tímum fyrir leikinn, sem fór fram á útivelli. Ég sagði já. Þetta var sunnudagskvöld í desember í -5°C slyddu. Ég fékk aldrei borgað fyrir þennan leik, né aðra æfingaleiki svo ég muni til. Fékk ekki neinar einustu þakkir eða hrós frá leikmönnum, þjálfurum eða klúbbnum. En slíkt varð að vana þau ár sem ég var dómari.

Vanvirðing áhorfenda er eitthvað sem er vel þekkt úr meistaraflokksknattspyrnu. En í yngri flokkum er yfirleitt keppt á æfingavöllum þar sem áhorfendur, sem eru nánast eingöngu foreldrar leikmanna, geta staðið eins nálægt vellinum og þeir kjósa. Sumir áhorfendur kusu að standa innan við metra fyrir aftan mig þegar ég var aðstoðardómari og alveg sama hversu oft ég bað áhorfendur um að bakka, alltaf fékk maður skæting og leiðindi til baka. Ekki varð ástandið betra ef lið barns þeirra var að tapa. Þá var hraunað hressilega yfir dómara. Mér hefur verið hrint í miðjum leik af áhorfanda og á mig hefur verið hrækt af áhorfanda. Fullorðið fólk milli fertugs og fimmtugs að hrækja á 19 ára framhaldskólapilt.

Skrýtnasta og jafnframt sorglegasta atvikið kom upp þegar ég var dæma Old Boys leik. Þar var leikmaður sem kvartaði undan öllu sem viðkom dómgæslu. Allar aukaspyrnur sem andstæðingurinn fékk voru ekki aukaspyrnur að hans mati og í hvert skipti sem hans lið var snert átti að gefa rautt spjald. Hann vældi eins og stunginn grís allan leikinn. Á einhverjum tímapunkti í leiknum hleypur leikmaðurinn framhjá mér og segir „Þú átt ekki að vera dómari, hlussan þín“. Ég stöðva leikinn og gef honum gult spjald. Sem voru mistök, ég hefði að sjálfsögðu átt að reka leikamanninn út af. Þegar leiknum lauk komu leikmenn til mín að taka í höndina á mér og þakka fyrir leikinn. Þegar leikmaðurinn sem kallaði mig hlussu tekur í höndina á mér segir hann „Næst þegar ég sé þig þá mun ég berja þig“ og labbar í burtu.

Nú hugsa eflaust margir að þetta hafi verið einhver gamall rugludallur sem öllum er sama um og öllum gleymdur. Langt því frá. Þessi leikmaður er fyrrum atvinnumaður til fjölda ára og landsliðsmaður sem spilaði tugi landsleikja. Hann var einnig meistaraflokksþjálfari um tíma.

Stuttu eftir þetta hætti ég að dæma.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu öllu?

Það virðist lítið hafa breyst á þeim 15 árum síðan ég hætti að dæma ef marka má viðtölin sem voru tekin við Arnar Gunnlaugsson á föstudaginn.

Orð hans og hegðun hans eftir leik Víkings og Breiðabliks er risastórt vandamál í íslenskri knattspyrnu sem hefur færst í aukana undanfarin ár og hefur náð algjöru hámarki á þessu ári. Það er varla að lið hafi tapað í Bestu deild karla í sumar án þess að leikmaður eða þjálfari tapliðsins skelli sökinni að einhverju, eða jafnvel öllu, leyti á dómara. Um þetta er svo ekki hægt að taka neina vitræna umræðu af því að ákveðnir sprelligosar grípa í þreytta frasa á borðið „Má ekkert segja lengur?“ og tala um ástríðu og hita.

Var það ástríða og hiti sem var þess valdandi að 19 ára mér var hótað barsmíðum af fyrrum landsliðsmanni?

Var það ástríða og hiti sem var þess valdandi leikmaður viðbeinsbraut dómara eftir leik?

Var það ástríða og hiti sem var þess valdandi að þjálfari liðs réðst inn á völl, reif spjöldin af dómara leiksins, eftir að hafa fengið rautt spjald og þurfti að vera dreginn af vellinum?

Var það ástríða og hiti sem var þess valdandi að tveir íslenskir dómarar fengu morðhótanir?

Auðvitað má og á vera ástríða og hiti en það hljóta að vera einhver mörk. Þetta er ekki 17 ára leikmaður í 2. deildinni sem missir haus í viðtali eftir fyrsta meistaraflokksleikinn. Þetta er margverðlaunaður þjálfari og fyrrum landsliðsmaður sem spilaði tæplega 50 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Við hljótum að mega setja þær kröfur að hann mæti ekki í viðtöl svo stjórnlaus af bræði að hann geti ekki hætt að tala um dómara þó fréttamenn reyni að spyrja út í önnur atriði leiksins. Maðurinn fór að rifja upp dóma í leikjum sem fóru fram árið 2019. Slík var heftin.

Höfum í huga að dómarinn sem dæmdi leikinn hefur ítrekað verið kosinn og valinn besti dómari deildarinnar af leikmönnum og fjölmiðlum. Ef þetta er sú framkoma sem besti dómarinn má búast við þá eiga aðrir dómarar sér litla von. Pælið í því að vera 24 ára dómari sem er nýbyrjaður að dæma í neðri deildum og horfir á viðtalið við Arnar og fer svo á Twitter þar sem forseti Leikmannasamtaka Íslands og fyrrum formaður KSÍ taka báðir afstöðu með Arnari. Forseti Leikmannasamtaka Íslands að talar um að dómarar þurfi að geta „höndlað“ gagnrýni eins og leikmenn. Nú hef ég séð tvö viðtöl við Arnar eftir leikinn, þau eru í heildina um það bil tíu mínútur og meirihlutinn af þeim mínútum snúast um dómara. Ég ætla ekki að fullyrða það en ég man ekki eftir því að hafa séð viðtal við þjálfara á Íslandi þar sem hann talar með þessum hætti um einn ákveðinn leikmann, hvort sem er eigin leikmann eða andstæðing, í einhverjar sjö eða átta mínútur.

Vandamálið nær langt niður í yngri flokka. Öll þau ár sem ég æfði knattspyrnu í yngri flokkum var dómari sem dæmdi reglulega leiki hjá okkur. Sá dómari gekk einfaldlega undir nafninu Gummi Blindi. Allir leikmenn, þjálfarar, foreldrar og starfsfólk klúbbsins kölluðu hann þessu nafni. Maður á fimmtugsaldri sem dæmdi fótboltaleiki hjá börnum fyrir klink, þetta var öll virðingin sem hann fékk.

Árið 2021 sendi KSÍ frá sér tilkynningu þar sem félög landsins voru áminnt fyrir slæmar vinnuaðstæður dómara og í raun allt sem kemur að dómgæslu á landinu. Ég mæli sterklega með að fólk lesi þessa tilkynningu og horfi svo á viðtölin við Arnar Gunnlaugsson. Ekki virðist þessi tilkynning hafa skilað tilætluðum árangri að mati KSÍ þar sem aðeins viku fyrir þessi viðtöl við Arnar fór KSÍ á stað með herferð sem ber nafnið „Átak vegna hegðunar í garð dómara 2023“. Nú er borðliggjandi fyrir KSÍ að standa við stóru orðin. Sýna að það er ekki í boði að þátttakendur hegði sér með slíkum hætti í garð dómara.

Allt annað en tveggja leikja bann fyrir hegðun Arnars er blaut tuska í andlit dómara og íslenskrar knattspyrnu. Einn leikur ef hann biðst innilegrar afsökunar.

Brynjar Birgisson
Fyrrum íþróttafréttamaður og dómari
Athugasemdir
banner
banner
banner