Samningur Ágústs Eðvalds Hlynssonar við Vestra rennur út nú um áramótin. Ágúst gekk til liðs við Vestra um mitt sumar og var einn af lykilmönnum liðsins í baráttu þess seinni hluta tímabils.
Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra segir, í samtali við Fótbolta.net, áhugann á leikmanninum mikinn og að óvíst sé um næstu skref hans að svo stöddu.
„Það er erfitt að setja fingur á það á þessum tímapunkti. Ég átti gott spjall við Gústa fyrir nokkrum dögum. Ef við erum alveg raunsæir að það horfa einhver lið hýru auga til Ágústs. En hann veit það að hann er velkominn að vera áfram í Vestra, það er ekki spurning.“
Ágúst er uppalinn hjá Þór á Akureyri og hefur verið orðaður við endurkomu til félagsins, sem tryggði sér sæti í Bestu deildinni fyrir næsta tímabil.



