Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mun ekki spila vináttulandsleiki í opinberum landsleikjaglugga FIFA í lok þessa mánaðar vegna sparnaðaraðgerða hjá KSÍ, líkt og var raunin með janúarverkefni A-landsliðs karla í byrjun árs.
Vísir greinir frá.
„Þetta er náttúrulega ömurlegt en við erum ekkert undanskilin því sem er að gerast í þjóðfélaginu,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson í samtali við Vísi.
Hann segir ljóst að bæði leikmenn og þjálfarateymi séu óánægð með að missa af leikjum, en að fjárhagslegar aðstæður geri slíkt nauðsynlegt.
Þá benti hann á að Ísland spili almennt færri leiki í yngri landsliðum en nágrannaþjóðir vegna kostnaðar við ferðalög og æfingabúðir.
„Það þarf að eiga fyrir hlutunum. Svona verkefni kostar alltaf á bilinu 25-30 milljónir, þegar farið er í tvo leiki. Flug og hótel. Það er ástæðan fyrir því að í upphafi þessa árs var ekki gert ráð fyrir verkefni í þessum glugga, ekki frekar en hjá A-landsliði karla í janúar síðastliðnum.“
Að sögn Eysteins þyrfti að auka framlög í sjóði sem sérsambönd geta sótt til til að mæta þessum kostnaði.
Ísland var nýverið dregið í riðil með Spáni, Englandi og Úkraínu í undankeppni HM kvenna sem fer fram í Brasilíu árið 2027. Þessir þrír keppinautar Íslands munu nýta landsleikjagluggann og spila vináttuleiki nú í lok mánaðar.



