Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
   þri 05. september 2017 18:15
Valur Páll Eiríksson
Draumur Sýrlendinga lifir
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það þarf líklega að kynna fyrir fáum ástandið í Sýrlandi en landið hefur verið ráðandi í fréttatímum frá því að borgarastyrjöld hófst þar árið 2011. Jákvæðar fréttir þaðan eru fátíðar enda fátt þar til að gleðjast yfir þessa dagana.

Í dag átti sér hins vegar stað mjög jákvæður atburður fyrir sýrlenska þjóð. Leik Írans og Sýrlands lauk með 2-2 jafntefli sem tryggðu Sýrlendinga í umspil um sæti á HM í Rússlandi á næsta ári. Sýrlendingar voru í riðli með Íran, Katar, Kína, Suður-Kóreu og Úsbekistan í 4. umferð undankeppnarinnar í Asíu en þetta var í fyrsta skipti sem þeir komust svo langt í undankeppninni.

Í 4. umferðinni eru tveir sex liða riðlar þar sem tvö efstu lið hvors riðils fara beint á HM, þriðja sæti hvors riðils mætast í umspili og neðstu þrjú úr hvorum riðli detta úr leik. Í riðli Sýrlands höfðu Íranir þegar tryggt sig á mótið en Katar voru úr leik og Kína gott sem líka. Sýrlendingar, Suður-Kórea og Úsbekistan áttu öll séns á að komast beint á HM eða fara í umspil. Kóreumenn voru í 2. sæti með 14 stig en Sýrlendingar og Úsbekar komu þar á eftir með 12 stig en Sýrlendingar sátu í umspilssætinu vegna betra markahlutfalls. Suður-Kórea og Úsbekistan mættust á sama tíma og leikur Íran og Sýrlands fór fram en honum lauk með 0-0 jafntefli.

Sýrlendinga beið gríðarlega erfitt verkefni að mæta Írönum á útivelli en Íranir höfðu ekki fengið á sig mark alla undankeppnina.
Sýrlendingar komust hins vegar óvænt yfir með marki Tamer Haj Mohamad á 13. mínútu en heimamenn jöfnuðu með marki Sardar Azmoun rétt fyrir hálfleik. Azmoun kom Írönum svo yfir á 64. mínútu með marki eftir langt innkast. Í kjölfar þess tóku tugir þúsunda Írana í stúkunni víkingaklapp - íslensk uppskrift. Íranir stýrðu leiknum eftir það og með tíðindalitlum 0-0 leik Úsbeka og S-Kóreu leit út fyrir að Úsbekar tækju umspilssætið og draumur Sýrlendinga því úti.

Þeir komust hins vegar í skyndisókn á 93. mínútu sem endaði með marki Omars Al Somah. Þeir héldu út og leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Fagnaðarlætin í leikslok voru gríðarleg og líklega voru fleiri Sýrlendingar í stúkunni en eru almennt á heimaleikjum þeirra í undankeppninni sem hafa farið fram í Malasíu vegna ástandsins heima fyrir. Sjá mátti svo Ibrahim Alma, markvörð Sýrlendinga, hágrátandi í viðtali eftir leik.

Það stefnir í að Sýrlendingar mæti Sádí-Arabíu í umspili nema Sádar vinni Japani í leik sem nú stendur yfir en Japanir hafa þegar tryggt sig á mótið. Vinni Sádar þann leik mæta Sýrlendingar hins vegar Áströlum. Hafi Sýrlendingar sigur úr bítum í umspilinu bíður þeirra annað umspil gegn liði sem lendir í 4. sæti lokastigs undankeppnarinnar í N-Ameríku. Líklegast er að það verði Bandaríkin, Panama eða Hondúras.

Mörgum þætti eflaust skemmtilegt að sjá Sýrlendinga etja kappi við Bandaríkjamenn um sæti í Rússlandi en hvort það gerist verður tíminn að leiða í ljós.

Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum og gríðarleg fagnaðarlæti Sýrlendinga eftir mark Al Somah

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner