Nafnarnir, Arnór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason, skoruðu báðir er Norrköping vann Hammarby, 4-1, í úrvalsdeildinni í Svíþjóð í kvöld en liðið var marki undir eftir sjálfsmark Ara Freys Skúlasonar áður en nafnarnir tóku málin í sínar hendur.
Félagarnir voru báðir í byrjunarliði Norrköping ásamt Ara Frey Skúlasyni en Andri Lucas Guðjohnsen byrjaði á tréverkinu í dag.
Arnór Sig vildi fá vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum er hann var tekinn niður í teignum, en ekkert var dæmt. Hann var ekki als kosta sáttur við frammistöðu dómarans og ræddi það í hálfleik. Undir lok hálfleiksins varði Ari Freyr fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net eftir hornspyrnu, en hann rétt kom við boltann á nærstönginni sem varð til þess að boltinn fór í netið.
„Þetta var klárt víti. Ég veit ekki hvernig hann sér þetta ekki. Ég snerti boltann og síðan neglir hann mig niður," sagði Arnór við Discovery+ í hálfleik um vítaspyrnuna sem hann átti að fá.
Norrköping fékk vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og var það Skagamaðurinn sem fór á punktinn og jafnaði metin.
Nafni hans, Arnór Ingvi, gerði síðan sigurmarkið tuttugu mínútum síðar. Vörnin komst fyrir fyrsta skot hans en Arnór fékk boltann aftur og afgreiddi hann í netið.
Ari Freyr fór af velli þegar tólf mínútur voru eftir. Norrköping bætti við þriðja markinu seint í leiknum áður en Arnór skoraði úr annarri vítaspyrnu sinni. Andri Lucas kom inná sem varamaður seint í uppbótartíma. Lokatölur 4-1. Norrköping er í 11. sæti með 24 stig.
Davíð Kristján Ólafsson lék þá allan leikinn í 1-0 sigri Kalmar á Varberg. Kalmar er í 6. sæti með 36 stig.
Pálmi Rafn Sigurbjörnsson var á bekknum hjá Skeid sem lagði Sogndal, 1-0, í norsku B-deildinni. Hörður Ingi Gunnarsson, Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Þór Ingimundarson voru allir í byrjunarliði Sogndal.
Hörður fór af velli á 61. mínútu en Valdimar í uppbótartíma. Sogndal er í 9. sæti með 32 stig en Skeid í 14. sæti með 18 stig.
Mikael Neville Anderson spilaði allan leikinn fyrir AGF sem tapaði fyrir Nordsjælland, 3-2, í dönsku úrvalsdeildinni. AGF er í 5. sæti með 13 stig.
Athugasemdir