Sveitasetrið La Masia var byggt árið 1702. Það var svo 252 árum síðar sem fótboltafélagið Barcelona keypti La Masia sem í dag orðið frægt nafn í fótboltaheiminum enda samheiti yfir akademíu félagsins og þaðan hafa margir af bestu leikmönnum heims komið.
Upphaflega var setrið keypt af Barcelona sem vinnuaðstaða fyrir arkitekta, verkfræðinga og smiði sem unnu að því að reysa Nývang (Camp Nou), nýjan leikvang félagsins. Þremur árum síðar, 1957, var Nývangur tekinn í notkun.
La Masia var ekki notað í níu ár eftir það eða þar til skrifstofuaðstaða Barcelona fluttist þangað inn. Félagið stækkaði og starfsmönnum fjölgaði svo ekki var lengur pláss fyrir starfsemina í setrinu.
Josep Núnez sem þá var forseti félagsins lét endurhanna setrið 1979 til að hýsa unga utanaðkomandi leikmenn sem æfðu hjá félaginu. Goðsögnin Johan Cruyff átti þá hugmynd að sett yrði á laggirnar akademía hjá Börsungum.
Miðjumaðurinn Guillermo Amor var fyrstur til að stíga upp úr La Masia og inn í aðallið Barcelona. Tveimur árum síðar fór sjálfur Pep Guardiola sömu leið.
Lionel Messi, Andres Iniesta, Xavi, Gerard Pique, Pedro og Cesc Fabregas eru meðal leikmanna sem eru efst á stjörnuhimninum núna sem koma úr La Masia akademíunni. Einnig er hægt að nefna Ivan De la Pena, Carles Puyol, Pepe Reina og Victor Valdes
Besti fótboltamaður heims, Messi, var þrettán ára þegar hann kom til La Masia frá Argentínu.
„Sigur Spánverja á HM var frekar sigur ákveðinnar hugmyndafræði frekar en sigur liðs," sagði Carles Folguera, framkvæmdastjóri La Masia, eftir að Spánverjar urðu heimsmeistarar 2010. Sjö af fjórtán leikmönnum sem komu við sögu í sigrinum gegn Hollandi í úrslitaleik komu frá La Masia.
La Masia hefur stækkað með árunum og Barcelona fengið nýtt æfingasvæði. Tíu leikmenn geta dvalist í gamla setrinu en talsvert fleiri í nýrri byggingu rétt hjá. Aðrir í akademíunni gista á eigin vegum eða foreldrahúsum. Nýja byggingin er mjög nútímaleg og var formlega opnuð á síðasta ári.
Einstaklingsherbergi í nýju byggingunni eru 39 og tveggja manna herbergi 36. Þar má einnig finna skólastofur, matsal, nuddherbergi, tölvuherbergi, fundaraðstöðu, líkamsræktarstöð, sundlaug og afþreyingarherbergi.
Akademían er ekki bara sú besta í heimi heldur einnig ein sú dýrasta og kostnaður við hana kringum milljarð ár hvert. Þar er heimavistin sjálf dýrasti hlutinn. Lágmarksaldur í unglingastarfinu er sex ár en á ári hverju reyna um þúsund strákar á aldrinum 6-8 ára að fá inngöngu.
Fjöldi njósnara fara víða um heim til að finna stráka í akademíuna en kröfurnar sem eru gerðar eru miklar. Barcelona er einnig í samstarfi við önnur félög í nágrenninu sem taka stráka til æfinga sem eru ekki taldir vera tilbúnir í akademíuna. Í staðinn leggur Barcelona til fjármagn, þjálfun og tæknilega ráðgjöf. Þá á akademían sín útibú í Mexíkó og Egyptalandi.
Hugmyndafræði Barcelona þekkja allir og flestir sem þetta lesa ættu að vita áherslurnar í akademíunni. Tiki-taka leikstíllinn sem leikmenn eins og Xavi og Iniesta hafa nánast fullkomið vald á.
„Aðalatriði njósara okkar er að finna börn sem taka ákvarðanir á annan hátt en aðrir. Þá er ég að tala um hraða í hugsunum og hversu fljótt þau taka ákvörðin. Þegar strákarnir eru 12-13 ára skilja þeir að fótboltinn er leikinn með ákveðnum hætti," sagði Folguera í viðtali við Sky Sports.
Svæðisbundin þjóðernishyggja stuðningsmanna Barcelona gerir það að verkum að La Masia er merkur staður í þeirra huga. Sérstaklega eftir að liðið vann sex bikara 2009 með svona marga uppalda leikmenn.
Andlegi þátturinn er líka tekinn fyrir í akademíunni þar sem auðmýkt er einn af lykilþáttunum. „Tökum Iniesta sem dæmi. Hann er alls ekki hrokafullur. Hann lætur mjög lítið fyrir sér fara," segir Folguera.
Íslensk félög geta margt lært af La Masia og starfi Barcelona þó ljóst að ekki sé hægt að leika þetta eftir. Peningar og margar fleiri ástæður liggja þar að baki.
Kveikjan að þessum skrifum er pistill sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifaði á heimasíðu sína um hugmyndafræði Barcelona:
Hvernig urðu þeir bestir í heimi
Daglegt líf í La Masia:
Heimildir: Sky Sports, World Soccer, Wikipedia, Heimasíða Barcelona
Athugasemdir