Hlynur Freyr næstur?
Óskar Hrafn Þorvaldsson er búinn að sækja sinn fyrsta leikmann eftir að hann tók við sem þjálfari Haugesund. Miðjumaðurinn Morten Konradsen er búinn að skrifa undir samning við félagið.
Konradsen er 27 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið með Bodö/Glimt og Rosenborg á sínum ferli; lengst af með fyrrnefnda félaginu. Hann hefur þá leikið fyrir öll yngri landslið Noregs.
„Mér fannst ég og Haugesund passa vel saman eftir að ég talaði við yfirmann fótboltamála og við þjálfarann. Þeir virðast hungraðir að ná árangri og ég er það líka," segir Konradsen.
Konradsen hefur hjálpað Bodö að vinna þrjá meistaratitla í Noregi en Eirik Opedal, yfirmaður fótboltamála hjá Haugesund, segir að hann sé nákvæmlega þannig leikmaður sem Óskar Hrafn sé að leita að í sitt lið.
„Hann kemur með mikla reynslu frá Bodö/Glimt og er með marga eiginleika sem Óskar leitar í frá leikmönnum sínum. Hann er mjög góð viðbót við hópinn okkar," segir Opedal.
Haugesund bjargaði sér frá falli í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Þeir unnu Stabæk 3-0 í lokaleik sínum á tímabilinu. Haugesund hafnaði í 12. sæti deildarinnar með 33 stig og spilar í deild þeirra bestu á næsta ári.
Konradsen er fyrsti leikmaðurinn inn en líklega ekki sá síðasti. Hlynur Freyr Karlsson er á óskalista félagsins en Valur samþykkti nýverið tilboð frá Haugesund í þann efnilega leikmann.
Athugasemdir