Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 06. febrúar 2013 08:00
Gunnar Örn Runólfsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stjórnunaraðferðir Fabio Capello
Gunnar Örn Runólfsson
Gunnar Örn Runólfsson
Fabio Capello.
Fabio Capello.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Vegna vináttulandsleiks Íslands og Rússlands á Marbella á Spáni í kvöld þá er tilvalið að gefa lesendum innsýn inn í stjórnunaraðferðir hins ítalska Fabio Capello sem stýrir landsliði Rússlands og glæstan árangur hans sem knattspyrnustjóra .

Capello er 66 ára gamall og hefur stýrt knattspyrnuliðum í hæsta gæðaflokki í meira en tvo áratugi, þar á meðal AC Milan, Real Madrid, Roma og Juventus og enska landsliðinu. Þess má geta að hann vann meistaratitla með öllum félagsliðunum. Hann spilaði sjálfur í tæp 15 ár með Roma, Juventus og AC Milan og spilaði 32 landsleiki fyrir hönd Ítalíu.

Capello tók við knattspyrnustjórn rússneska landsliðsins síðasta sumar í kjölfar afsagnar Dick Advocaat eftir EM. Auk Capello komu 13 aðrir knattspyrnustjórar til greina í starfið. Þar á meðal voru Rafael Benítez ,núverandi stjóri Chelsea, Pep Guardiola, þáverandi stjóri Barcelona og verðandi stjóri Bayern Munchen, og Harry Redknapp, þáverandi stjóri Tottenham og núverandi stjóri QPR.

Capello hafði sjálfur sagt upp störfum hjá enska landsliðinu fyrir tæpu ári síðan eftir að enska knattspyrnusambandið svipti fyrirliðabandinu af John Terry, leikmanns Chelsea, án samþykkis Capello en Terry var að bíða dóms vegna ásakana um kynþáttaníð. Taldi Capello það vera samningsbrot en forráðamenn enska knattspyrnusambandsins héldu því fram að þeir hefðu átt fullan rétt á því.

Stjórnunaraðferðum Capello fylgir agi en það er talið hafa vantað í leik liðsins þegar það spilaði undir getu á Evrópumótinu í Pólandi og Úkraínu síðastliðið sumar.

Það sem kemur skemmtilega á óvart þegar litið á landsliðshóp Rússa undir stjórn Capello er að lang flestir eru leikmenn rússneskra liða, hafa spilað lengi saman og þekkja vel til hvers annars. Þess má geta að á síðustu tólf mánuðum hafa aðeins fjórir rússneskir landsliðsmenn leikið með liðum utan Rússlands.

Don Fabio, „stál liðþjálfinn“ (í. assergente di ferro) og harðstjórinn eru viðurnöfn sem Capello hefur fengið. Hann hefur lýst yfir aðdáun á stjórnarháttum Silvio Berlusconi forseta AC Milan og leiðtogahæfni spænska einræðisherrans Franco sem var ábyrgur fyrir dauða meira en 200.000 manna á valdatíma fasista á Spáni frá fjórða áratug síðustu aldar fram að andláti 1975.

Þeir leikmenn sem hafa spilað undir stjórn Capello hafa kynnst því að aðeins hann ræður ríkjum og stjörnur þeirra liða sem hann hefur þjálfað hafa fengið að finna fyrir harðstjórn hans. Þegar Capello stýrði Real Madrid á sínum tíma, þá setti hann þáverandi fyrirliða enska landsliðsins, David Beckham, út í kuldann í nokkra mánuði. Auk Beckham hafa knattspyrnustjörnurnar Edgar Davids, Ronaldo, Alessandro Del Piero, Francesco Totti og Paolo Di Canio átt í deilum við Capello.

Ítalski harðstjórinn kallar ekki allt ömmu sína og fer eigin leiðir við val á leikmönnum. Miðjumaðurinn Igor Denisov, sem spilar með Zenit frá St. Pétursborg, hafði misst sæti sitt í byrjunarliði Pétursborgarliðsins vegna launadeilna og var meðal annars látinn æfa með varaliðinu. Capello er alveg sama um samband leikmanna við félagsliðin og þrátt fyrir ástandið milli Denisov og Zenit þá valdi Capello Denisov í liðið og lét hann hafa fyrirliðabandið.

Að horfa í augu leikmanna
Stjórnunaraðferðir Fabio Capello hafa þótt ansi merkilegar. Leyndarmálið á bakvið góða stjórnun er að horfa í augu leikmanna segir Capello, þá er líklegra að viðmælandi móttaki betur skilaboðin og þá áttar þjálfari sig líka betur á líðan leikmanna.

Capello telur að stundum þurfi ekki að tala mikið, nánast ekki neitt. Árið 1994 stýrði Capello AC Milan í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu gegn Barcelona. Búið var að æsa upp Milan menn og fjölmiðlar héldu því fram að liðið ætti ekki séns í ógnarsterkt lið Börsunga á þessum tíma. Þessi gagnrýni var ekki að fara vel í ítalska liðið en Capello greip til sinna ráða, horfði í augun á leikmönnunum og sagði; „ef þið eruð með hreðjar, ef þið eruð alvöru karlmenn, þá getið þið ekki tapað!“.

Þessi setning kveikti í Milan mönnum og gaf þeim fulla trú á verkefninu. Leikurinn endaði með sannfærandi 4-0 sigri AC Milan.

Eitt sinn var Capello spurður afhverju hann vildi ekki fara í pólitík, hann svaraði; „þeir (innsk. stjórnmálamenn) tala mjög mikið en framkvæma mjög lítið, ég er andstæðan“.

Sýn Fabio Capello á fótboltann er ekki flókin og hún virkar á öllum sviðum. Hann leggur áherslu á að leikmenn virði hvern annan sem og starfsfólkið. Það sem kemur á óvart er að hann vill ekki að leikmenn kalli hvern annan gælu nöfnum og vanvirði ekki samherja sína sem mæta of seint. Þegar til málsverðar er komið þá eiga allir að byrja að borða á sama tíma og klára á sama tíma, þannig skapast traust á milli leikmanna.

Á vellinum vill Capello að leikmenn vinni vel fyrir hvern annan bæði í vörn og sókn. Samt sem áður býst hann ekki við því að leikmenn séu vélmenni, hann er sveigjanlegur og vill að leikmenn noti ímyndunarafl sitt í sókninni þegar við á.

Að hafa trú á leikmönnum og hrósa þeim þegar þeir eru gagnrýndir af fjölmiðlum
Að hafa trú á liðsmönnum er lykilatriði. Það þarf að hrósa liðsmönnum jafnvel þegar liðið hefur spilað illa. Capello stýrði enska landsliðinu á móti landsliði Frakka í leik sem tapaðist og enska liðið átti varla færi í leiknum. Fjölmiðlar úthúðuðu þeim ensku en þrátt fyrir það hrósaði Capello liðinu fyrir að hafa spilað boltanum vel á milli sín í tæpan hálftíma. Með jákvætt hugarfar að vopni þá hefur hann stappað stálinu í leikmenn í þeim tilgangi að þeim líði vel með þann árangur sem þeir eru að reyna að ná, skref fyrir skref. Atvinnumenn í knattspyrnu eru mannlegir og þeir muna eftir því þegar stjórinn hefur staðið með þeim þegar þeir hafa þurft að sæta gagnrýni frá öðrum.

Frægt atvik átti sér stað þegar Theo Walcott, leikmaður Arsenal, skoraði þrennu í leik á móti Króatíu. Með þessari frábæru frammistöðu hélt Walcott að hann hefði slegið í gegn og væri þar með öruggur með sæti í landsliðinu. Fabio Capello var hins vegar ekki á sama máli, hann vill að leikmenn leggi sig alltaf fram og reyni alltaf að bæta sig – þeir eru aldrei búnir að slá í gegn eða eru öruggir með eitt eða neitt. Vegna þessa hugarfars hjá Walcott var hann ekki valinn í landsliðshópinn í næsta leik.

Ítalski harðstjórinn heldur öllum á tánum. Honum finnst hann ekki þurfa að eiga í sérstöku sambandi við fyrirliða liðsins enda voru alltaf getgátur um hver myndi vera fyrirliði hverju sinni þegar hann stýrði Englendingum. Stundum gefur hann ekki upp byrjunarliðið til leikmanna fyrr en á síðustu stundu.

Á HM 2010 í Suður Afríku voru þrír markmenn valdir í landsliðshópinn en enginn af þeim vissi hver átti að vera í byrjunarliðinu. Þessar umdeildu aðferðir hjá Capello eiga að koma í veg fyrir kæruleysi í huga leikmanna.

Það er erfitt að ná hámarks árangri í vinnunni með því að vera með hugann við vinnuna allan sólarhringinn. Þeir sem eru vinnufíklar (e. workaholics) munu brenna út á einhverjum tímapunkti, fyrr eða seinna. Þegar það koma slæm tímabil í vinnunni, þá mun sá einstaklingar þjást meira vegna pressunar sem eru á herðum hans ef hann getur ekki kúplað sig út úr vinnuumhverfinu. Að mati Capello hefur það veitt honum mikinn styrk að vera í góðu og langvarandi hjónabandi. Capello og Laura kona hans hafa verið gift í 42 ár og eiga tvo syni. Eldri sonurinn, Pierfillippo (39 ára) er lögfræðingur og umboðsmaður föður síns. Sá yngri, Edoardo (36 ára) er hagfræðingur og stýrir fjölskyldufyrirtækinu Sport 3000. Fjölskylduböndin eru sterk og Fabio Capello hefur segir að fjölskyldan verði að vera í forgangi ætli hann sér að halda áfram að ná árangri sérstaklega þegar á móti blæs.

Capello er talinn mjög hæfileikaríku og fæddur sigurvegari sem fer sínar eigin leiðir í samskiptum. Sérstakt þykir að hann er ekki mikið fyrir að vingast við leikmenn. Eitt sinn sagði hann „hvers vegna ætti ég að eyða tíma í að hlusta á fólk eins og knattspyrnumenn, sem eru greinilega talsvert greindarskertari heldur en ég?“.

Í starfsumhverfi eins og Capello starfar í þá er nauðsynlegt að getað kúplað sig frá vinnunni af og til og stunda áhugamál utan fótboltans. Capello hefur mikið dálæti af hvers kyns listum og til að mynda eru bestu vinir hans þekktir myndlistarmenn og listagagnrýnendur. Hann er meira en bara áhugamaður, hann á listaverkasafn er talið 10 milljón punda virði (um 2 milljarðar íslenskra króna) . Capello er einnig mikill ferðalangur og elskar framandi staði. Hann hefur farið í bakpokaferðalag um Tíbet, skoðunarferð um gömlu kólumbísku rústirnar í Mexíkó og ferðast um Kambódíu. Hann hyggst ferðast meira um heiminn þegar hann hættir í boltanum.

Það eru spennandi tímar hjá Rússum en landið fær þann stórkostlega heiður að halda HM 2018.

Í lokin þá fékk ég fréttaritara minn í Moskvu, stjórnmálafræðinginn og ensku kennarann Erik Larusson, til að heyra í heimamönnum fyrir leikinn gegn Íslandi.

Maksim, markaðssérfræðingur: „Hef aldrei heyrt af íslenska knattspyrnulandsliðinu“
Alla, markaðssérfræðingur: „Rússneska landsliðið er ekki sérstaklega gott, verra en landsliðin í Evrópu“
Konstantin: „Íslenska landsliðið er örugglega ekki mjög sterkt, hef aldrei heyrt af þeim.“
David, verkfræðingur: „Ef leikurinn yrði spilaður á Íslandi þá gætu niðurstöður orðið jafntefli en ef leikið verður í Rússlandi eða annars staðar í Evrópu þá vinna Rússar. Íslenska landsliðið er ekki jafn sterkt og það var fyrir 5 árum síðan, þegar hálft liðið var að spila með liðum í Evrópu.
Rússneska liðið er ekki mjög gott en þjálfarinn Capello er einn af þeim bestu í heiminum. Undir hans stjórn geta Rússar unnið - enda hafa Rússar ekki tapað leik undir hans stjórn. Hann veit hvernig á að gera Rússneska liðið að samkeppnishæfu liði. Capello er líka mjög strangur og það er mikilvægt fyrir liðið og þess vegna er hann mjög virtur og harður í horn að taka, hann er harðstjóri. Hann er mikið fyrir að velja unga leikmenn í liðið til að skapa samkeppni.“

Athugasemdir
banner
banner
banner