Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   mið 06. mars 2013 12:45
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lestu leikinn maður!
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Cuneyt Cakir að störfum.
Cuneyt Cakir að störfum.
Mynd: Getty Images
Þessu bjóst enginn við...
Þessu bjóst enginn við...
Mynd: Getty Images
Nani trúir ekki sínum eigin augum.
Nani trúir ekki sínum eigin augum.
Mynd: Getty Images
Cuneyt Cakir stóð teinréttur og barðist við að halda „kúlinu" þegar hann var búinn að flauta leik Manchester United og Real Madrid af í gærkvöldi. Leikmenn United hópuðust í kringum hann og Rio Ferdinand gekk það langt að klappa höndum af miklum krafti millimetrum við andlit hans.

Cakir hafði það ekki í sér að spjalda Ferdinand eftir leikinn. Hann vissi upp á sig sökina, hann vissi að hann hefði gert rangt og gjörbreytt leiknum með mistökum sínum.

Fyrir leikinn var stóra fréttin sú að Wayne Rooney var geymdur á bekknum við mikla furðu allra. Sir Alex Ferguson vissi þó alveg hvað hann var að gera og allt hans plan var að ganga upp. Spánarmeistararnir fengu fá færi og heimamenn tóku forystuna á Old Trafford.

Þá kom ákvörðunin sem öllu breytti. Skyndilega, öllum að óvörum, var rauða spjaldið dregið upp og Nani sendur í sturtu. Meira að segja fjórði dómarinn (eða sjötti dómarinn ef sprotadómararnir fá talningu á undan) vissi ekki hvað var í gangi.

Ég var með textalýsingu frá leiknum og þegar Nani og Arbeloa lágu í jörðinni sá ég tækifæri til að stökkva frá og fá mér vatnsglas. Enginn sá þetta koma.

Besti kostur dómara er að lesa leikinn og lesa rétt í aðstæður. Það gerði Cakir alls ekki þarna. Hann fékk mun lengri frest en splittsekúnduna til að taka þessa ákvörðun í ljósi þess að báðir menn lágu á jörðinni.

Leikmenn Real Madrid eru þekktir fyrir að hópast í kringum dómarann þegar þeir vilja rautt á andstæðinginn. En Cakir stóð þarna óáreittur og tók þessa ákvörðun sem einfaldlega var röng að mínu mati.

Ég hef enn ekki séð nokkurn mann sem hefur spilað leikinn á alvöru stigi halda því fram að þetta hafi verið réttur dómur. Fyrir utan Roy Keane sem sá þarna tækifæri til að fá athygli og hnýta í Sir Alex Ferguson.

Einhverjir reyna að leita í lagabókina til að verja ákvörðun dómarans og koma með setninguna "má alveg réttlæta þessa ákvörðun", setningu sem menn eru farnir að beygja sig ansi langt til að geta notað.

Reglugerðardómarar eru verstu dómararnir. Þeir bestu lesa leikinn rétt og geta metið hvert atvik fyrir sig. Koma í veg fyrir svona bíó eins og var í gær.

Ef við horfum á stóru myndina og skoðum dómgæsluna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar til þessa þá hefur hún verið slök. Ekki í samræmi við gæði fótboltans. Enn stærra spurningamerki er farið að setja við sprotadómarana sem virðast fá besta sjónarhorn vallarins til að taka rangar ákvarðanir.

Getur verið að tilkoma sprotadómarana fæli aðaldómarann, sem hlýtur að vera hæfasti dómari vallarins, til að taka ákvörðun um eitthvað sem gerist í teignum? Í stað þess dæma eftir sannfæringu sinni bíður hann eftir viðbrögðum sprotadómarans sem að sama skapi þorir ekki að taka af skarið? Þetta er bara tilfinning sem ég hef fengið eftir að hafa horft á helling af Evrópuleikjum og leikjum í ítölsku A-deildinni í vetur.

Er kannski lausnin að fjölga sprotadómurunum?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner