
Liðin sem komast i 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni eru örugg með sæti í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni og svo (ef tap í Evrópudeildinni) umspilinu í Sambandsdeildinni. Liðin sem tapa í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni þurfa að vinna þrjú einvígi í forkeppni Sambandsdeildarinnar til að komast í sjálfa deildarkeppninna.
„Við erum í strandbæ sem heitir Durres, á flottu hóteli í yfir 30 gráðum og sól. Það er alvöru aga-test að vera með vatnsrennibrautagarð öðru megin við okkur og ströndina hinu megin, en það er bara fókus á verkefnið sem er leikurinn á morgun. Menn hugsa vel um sig, það fer vel um menn og við notum tíma í að funda og undirbúa okkur," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net í dag.
Annað kvöld, klukkan 19:00 að íslenskum tíma, taka albönsku meistararnir í Egnatia á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Um fyrri leik liðanna er að ræða, sigurliðið mun mæta pólsku meisturunum í Lech Poznan í næstu umferð og tapliðið mætir tapliðinu úr einvígi Ludogorets og Dinamo Minsk í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Annað kvöld, klukkan 19:00 að íslenskum tíma, taka albönsku meistararnir í Egnatia á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Um fyrri leik liðanna er að ræða, sigurliðið mun mæta pólsku meisturunum í Lech Poznan í næstu umferð og tapliðið mætir tapliðinu úr einvígi Ludogorets og Dinamo Minsk í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Hættu að vera túristar og fóru að ná árangri
Þú ert ekki búinn að hleypa neinum í vatnsrennibrautagarðinn?
„Við komum á laugardagskvöldið, menn fengu klukkutíma til að rölta aðeins í sjóinn og svona í gær, taka þetta aðeins inn og fara í göngutúr. En frá því hefur verið 100% fókus á verkefnið og allt sem dregur úr mönnum orku og hefur mögulega á einhvern hátt neikvæðan hátt á frammistöðu er sett til hliðar. Það er fórnarkostnaður þess að ná árangri."
„Breiðablik er það félag sem breytti landslaginu úr því að Íslendingar voru túristar í Evrópukeppni í það að fara og ná árangri; brutum múra sem margir mátu fram að því óbrjótanlega. Við höfum sett pressu á okkar sjálfa að hegða okkur mjög fagmannlega í þessum ferðum og ná árangri í þessum leikjum. Það er það eina sem kemst að hjá okkur."
Ferðalagið gott og sólin verður sest annað kvöld
Breiðablik flaug fyrst til Kaupmannahafnar og svo til Tírana í Albaníu. „Þetta var eins gott og það getur verið miðað við svona langt ferðalag. Þetta var auðvitað langt, en nokkuð þægilegt, vorum komnir fyrir miðnætti á laugardagskvöld þannig menn hafa náð góðum nætursvefni alla dagana."
Þegar Fótbolti.net ræddi við Dóra fyrr í dag voru 32-33°C hiti en hitinn á morgun, klukkan 21:00 að staðartíma, á að vera um 25°C. „Við æfðum í miklum hita hádeginu í gær sem var ágætt fyrir okkur, aðeins að venjast þessu. Hitinn annað kvöld verður bærilegur og eitthvað sem við höfum upplifað áður, oft verið verra. Við höfum spilað á óupplýstum völlum um miðjan dag, þá var talsvert heitara. Það eru einhverjar veðurspár að hóta smá rigningu, en það er eiginlega of gott til að vera satt," sagði Dóri á léttu nótunum.
Davíð skráður á bekkinn
Andri Rafn Yeoman verður ekki með í leiknum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn Aftureldingu. Davíð Ingvarsson er að glíma við meiðsli en verður á skýrslu á morgun og þá er Damir Muminovic ekki kominn með leikheimild.
„Davíð er farinn að skokka og er með okkur hérna úti, það er styrktarþjálfari með okkur hérna, læknir og tveir sjúkraþjálfarar með okkur og hann því í góðum höndum. Af því hann er með okkur hérna úti verður hann skráður í hópinn svo hann geti setið með okkur á bekknum, en staðan er því miður ekki þannig að hann verði klár á næstu dögum. Aðrir eru bara klárir, auðvitað á misjöfnum stað, en klárir."
Kiddi Jóns tilbúinn í fleiri mínútur
Kristófer Ingi Kristinsson, Aron Bjarnason og Kristinn Jónsson hafa verið í hlutverki varamanna í síðustu leikjum. Hvernig er staðan á þeim?
„Það fer svolítið eftir því hvað þeir treysta sér til að spila hverju sinni. Kiddi Jóns er búinn að koma tvisvar inn á og verið virkilega góður. Hann er ekki klár í 90 mínútur en getur spilað meira en hann hefur gert í síðustu leikjum. Aron spilaði 90 gegn Víkingi í sama ástandi og hann er núna. Það eru því allir klárir, þannig lagað."
Mikið í húfi
Markmið Breiðabliks er að komast áfram úr þessu einvígi gegn Egnatia, en hversu mikilvægt er þetta? Þetta eru stærstu leikir sumarsins, eða hvað?
„Ég sé þetta þannig að akkúrat núna og næstu daga þá eru þessir tveir leikir það sem öll einbeiting er á. Fram að þessu hefur öll einbeiting verið á deildinni sem er ekki síður mikilvæg. Það er mjög hættulegt að fara inn í tímabil þar sem nokkrir leikir [fjöldinn fer eftir árangrinum] eru mikilvægari en hinir 27 eða 30 plús með bikar. Við getum ekki sett þetta þannig upp, en þetta eru mikilvægir leikir og við vitum hvaða þýðingu það hefur að vinna þessa fyrstu umferð í meistaraleiðinni í Meistaradeildinni, með því tryggir liðið sér umspilsleiki í Sambandsdeildinni og það eru allir meðvitaðir um það. Mjög mikilvægt, en fyrir fimm dögum var mikilvægasti leikur sumarsins leikurinn gegn Aftureldingu, þannig þarf að líta á þetta."
„Þetta er skemmtilegt og reynsla og mikið í húfi, það er klárt mál."
Spurt út í tímabilið 2023
Tímabilið 2023 varð Breiðablik fyrsta liðið til að komast upp úr forkeppni og í aðalkeppni í Evrópu. Þá var liðið ríkjandi Íslansmeistari, Blikar misstu af Víkingum nokkuð snemma í Íslandsmótinu og enduðu að lokum í 3. sæti. Hafa Blikar horft í mótið 2023 í aðdraganda þessa móts?
„2023 tímabilið er að mörgu leyti litað af því að Víkingur stingur af og tapar nánast ekki stigi. Eftir 14 leiki vorum við með 25 stig og erum með 27 stig núna. Núna erum við þremur stigum á eftir toppliðinu en vorum tíu stigum á eftir þeim þá, það hafði áhrif. Þegar við vorum búnir að slá út Shamrock, komnir í þessa stöðu að vera í góðum séns að tryggja okkur í riðlakeppni, rosalega langt á eftir toppliðinu sem neitaði að misstíga sig, það var þá sem við ósjálfrátt gáfum eftir. Ég held að þetta hefði farið öðruvísi ef það hefði verið styttra upp í toppinn, þannig það er erfitt að vera horfa í það."
„Auðvitað tekur maður reynslu út úr álaginu sem fylgdi Evrópuleikjunum öll árin. Víkingur fór hina leiðina í fyrra, töpuðu í fyrstu umferð og fóru þá í gegnum meistaraleiðina í Sambandsdeildinni. Það eru tvær leiðir og að þessu markmiðið og við reynum að taka inn alla reynslu sem við getum sótt okkur og reynum að nýta hana. Sama hvað leið er farin, þá spilaru bara á mót landsmeisturum hinna landanna, þannig það er engin auðveld leið í þessu."
Kokhraustir og jafnvel hrokafullir blaðamenn
Egnatia hefur unnið albönsku deildina tvö ár í röð. Víkingur sló liðið út í forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra með öflugum útisigri. Hversu sterkt er liðið?
„Þetta er sterkt lið, það er áhugavert og ég átta mig ekki alveg nákvæmlega af hverju það er, en það virðast vera í þessum löndum sem við höfum verið að spila í; Makedóníu, Kósovó og Albaníu, að lið taka 2-3 ár þar sem þau eru langbest í sínum löndum, eru að vinna mótin og ná í ágætis úrslit í Evrópu. En svo gerist eitthvað, stemningin og fjármagnið mögulega færist annað, og liðin ná ekki stöðugleika. Í styrkleikaröðun í Evrópu er horft í árangur síðustu fimm ára og þá þarf stöðugleika, ef liðin taka bara þátt í 2-3 ár þá næst hann ekki. Það er fyrst núna sem t.d. Drita frá Kósovó er að gera sig gildandi."
„Struga, Drita og núna Egnatia, lið sem við höfum mætt, þetta er mjög keimlíkt að mörgu leyti. Egnatia vann deildina í maí, jöfn deild, tíu lið og fjórföld umferð. Að 36 leikjum loknum spilar fyrsta sætið við fjórða sætið í undanúrslitum og annað við þriðja. Egnatia var búið að tryggja sér efsta sætið nokkuð fljótlega, gaf aðeins eftir en vann svo úrslitaleikinn sannfærandi 4-0 og er klárlega langbesta lið Albaníu í dag."
„Þeir styrktu liðið mjög mikið eftir Evrópukeppnina í fyrra, áður en deildin hófst. Núna höfðu þeir ekki styrkt sig mikið fyrr en bara á síðustu dögum. Við gerum ráð fyrir að liðið á morgun verði svipað og það sem kláraði tímabilið."
„Albanir, blaðamenn, eru mjög kokhraustir, einhverjir myndu segja hrokafullir; einhverjir tala um 90% líkur og annar um 150% líkur á að Egnatia vinni okkur. Þeir vitna mikið í virði liðanna út frá Transfermarkt sem segir í besta falli hálfa söguna. Albanskir fjölmiðlar telja þetta sterkasta lið sem Albanir hafa teflt fram lengi í Evrópukeppni og það er pressa á þeim. Þeir eru að spila í fyrsta skipti á sínum heimavelli í Evrópu, hafa þurft að spila annars staðar. Það voru sett upp flóðljós í vetur og gerðar breytingar á vellinum. Það er mikil stemning í kringum þennan leik og miklar væntingar til þeirra."
„Að sama skapi held ég að við séum með betra lið en þeir, lið sem er reynslumeira í Evrópu og við ætlum okkur ekkert annað en að slá þá út. Það er ekkert annað sem kemur til greina."
Skoða völlinn í kvöld
Hvernig líst þjálfaranum á völlinn?
„Við æfðum í gær á æfingasvæði sem við leigðum, æfum á vellinum í kvöld, kem á hann í fyrsta sinn þá. Af fenginni reynslu þá eru þessir vellir ekki góðir, ósléttir og fyrir okkur sem erum á rennisléttu gervigrasi allt árið um kring eru þetta að einhverju leyti krefjandi aðstæður. Þeir eru miklu vanari en þessu en við og fínir að spila á þessu. Við sjáum þetta betur í kvöld, en við gerum ráð fyrir að þetta sé á svipuðum stað og þeir vellir sem við höfum spilað á í Svartfjallalandi, Makedóníu og Kósovó hingað til; sæmilega loðnir og hægir grasvellir," sagði Dóri en rætt var við hann skömmu eftir hádegi í dag, áður en hann fór á æfinguna í kvöld.
Stór og umdeild félagaskipti
Dóri talaði um að liðið væri búið að styrkja sig nýlega. Hvernig er að afla sér upplýsinga um þá leikmenn og hvernig þeir munu mögulega koma inn í liðið?
„Það urðu einhverjar breytingar á liðinu eftir síðasta tímabil, leikmenn sem fóru, en það voru leikmenn sem voru í minna hlutverki þegar leið á tímabilið. Þeir tóku inn leikmann mjög snemma eftir að síðasta tímabili lauk, Kastriot Selmani, sem kom frá Drita. Hann skoraði sigurmarkið gegn okkur í Kósovó í fyrra, örvfættur kantmaður. Þeir voru í Búlgaríu og spiluðu þar gegn liðum frá Georgíu, Kósovó, Rúmeníu og Búlgaríu. Við sáum þá leiki og það var í raun bara Selmani sem var nýr í þeim leikjum. Eftir að þeir komu heim hafa þeir tekið nokkra leikmenn, leikmenn sem ég sá kannski ekki endilega fara beint í byrjunarliðið."
„En svo urðu félagaskipti núna, leikmaður frá Vllaznia (liðið sem Valur mætti í fyrra) sem spilaði úrslitaleikinn við þá í maí, hættulegasti leikmaður þeirra, Ildi Gruda, sem mér sýnist á miðlunum - ég reyni að þýða þetta með google translate - en ég get ekki betur séð en að Vllaznia vilji meina að hann hafi verið samningsbundinn þeim, en hann vill meina að hann hafi verið með 2+1 samning og hafi geta rift honum. Það er allavega búið að skrá hann í hópinn, virðist samt vera á einhverju gráu svæði. Það er erfitt fyrir okkur að átta okkur á hvort hann spili, en hann er mjög góður leikmaður, leikinn kantmaður og mjög fljótur. Það eru stærstu félagaskiptin, þeir eru búnir að kynna hann inn og gerum ráð fyrir honum í hópnum."
„Ég sé svo að í morgun hafi þeir jafnvel verið að styrkja hópinn, en það þurfti að skrá þá fyrir 3. júlí, svo ég geri ekki ráð fyrir þeim í leikinn á morgun. Ég geri ráð fyrir liði sem er mjög líkt því liði sem kláraði tímabilið í maí. Við horfum meira í hvernig liðið mun spila frekar en einstaka leikmenn, förum ekki of djúpt þar."
Helsti munurinn er óvissan
Hvernig er frábrugðið að fara í einvígi gegn Egnatia miðað við leik gegn, sem dæmi, toppliði Víkings?
„Það er fyrst og fremst óvissan, óvissan um vallaraðstæður, óvissan um andstæðinginn. Við getum horft á alla leikina þeirra í fyrra, æfingaleikina, en svo þarftu bara að fá að vera í kringum þá og snerta þá til að átta sig á þeim. Maður þekkir liðin heima miklu betur. Það er líka öðruvísi að horfa í lið sem var að spila æfingaleiki í Búlgaríu samanborið við lið sem er á miðju tímabili þar sem hægt er að fljúga út og sjá leiki með berum augum."
„Þú getur ekki verið bara með eitt plan sem þú ert nánast viss um að 90% muni ganga upp. Það reynir á reynslu leikmanna að taka ákvarðanir í leiknum og vera fljótir og klókir að lesa leikinn. Það er alveg kúnst að greina Egnatia, þeir eru mikið með boltann, langefstir í deildinni í þeirri tölfræði og langflest lið kjósa að falla langt til baka á móti þeim og leyfa þeim að hafa boltann. Þegar þeir fá tímar eru miklar hreyfingar innan liðsins, tíð stöðuskipti. Við þurfum að vera klókir hvenær við förum á þá, hvenær við bíðum og allt þetta.
..Þú vilt ekki að fótboltamenn séu eins og vélmenni sem þú getur forritað fyrir leikina, þú vilt að þeir geti tekið góðar ákvarðanir innan leiksins og við trúum því að við séum með lið sem er vel búið undir það. "
Er það svo líka eldgamla tuggan að vinna fleiri návígi og þá eruð þið góðir?
„Já, og þannig hefur þetta alltaf verið hjá okkur, heima á Íslandi líka. Tuggur eru tuggur af því að þær eru sannar eða rosalega mikið til í þeim. Ef við ætlum að mæta út og vera 'soft', vera hræddir eða liggja til baka, þá verðum við í vandræðum. Við þurfum að vera mjög fastir fyrir, orkumiklir, þá erum við bestir. Ég hef engar áhyggjur af því að menn séu ekki 100% klárir í það."
Fyrirliðinn snýr aftur
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, snýr aftur eftir tveggja leikja bann. Sérðu mun á honum og hinum, er hann ferskari?
„Þetta er þunn lína, það er oft þannig að takturinn er bestur. Hann er mjög ferskur, æfðum í gær og hann leit hrikalega vel út. Það er með hann, svona reyndan leikmann, þá held ég að þetta skipti ekki máli. Hann myndi skila góðri frammistöðu sama hvort hann spilaði síðasta leik eða ekki. Ég hef mjög litlar áhyggjur af honum og bara frábært að fá hann inn aftur. Það er mjög mikilvægt fyrir þennan leik."
Engir hjólabátar eða hestaferðir
Snemma í viðtalinu talaði Dóri um að Breiðablik hefði breytt landslaginu þegar kemur að Evrópukeppnum. Finnið þið í kringum ykkur og þegar talað er við ykkur að það er virðing gagnvart þessum Evrópuárangri?
„Mikil virðing. Við fundum fyrir því strax á Kastrup þegar við flugum í gegnum Danmörku að menn þekkja lógóið og fóru strax að spyrja um Evrópuárangur og mundu eftir því þegar Breiðablik fór fyrst íslenskra liða í riðlakeppni. Breiðablik er orðið sæmilega þekkt víða. Því, á mjög góðan hátt, fylgir ábyrgð. Við skilgreindum það mjög vel þegar við komum út af hverju við værum hérna. Það eru engir hjólabátar og hestaferðir lengur, það er bara búið. Nú er bara fókus og úrslit," segir Dóri.
Athugasemdir