Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 08. júní 2021 14:11
Elvar Geir Magnússon
Reyndist heita öðru nafni og vera árinu eldri
Silas Katompa Mvumpa (til hægri á myndinni).
Silas Katompa Mvumpa (til hægri á myndinni).
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Komið er upp mjög áhugavert mál í Þýskalandi, mál sem er rannsakað sem mansalsmál.

Sóknarleikmaðurinn Silas Wamangituka hjá Stuttgart hefur spilað undir fölsku nafni en hann heitir í raun Silas Katompa Mvumpa og er fæddur 1998 en ekki 1999 eins og áður var talið.

Silas, sem fæddist í Kongó, er gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna Stuttgart og hjálpaði liðinu að komast upp í þýsku Bundesliguna þar sem liðið hafnaði í níunda sæti á liðnu tímabili.

Stuttgart gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem félagið segir að unnið sé að því að leysa úr málinu í samstarfi við þýska knattspyrnusambandið og yfirvöld. Leikmaðurinn fái allan stuðning frá félaginu.

Sven Mislintat, íþróttastjóri Stuttgart, segir Silas sé fórnarlamb í málinu. Hans fyrrum umboðsmaður lét hann hafa fölsk skilríki þegar hann var til reynslu í Belgíu þegar hann var yngri. Vegabréfsáritun hans var þá að renna út og Anderlecht vildi að hann myndi fara heim til Kongó til að endurnýja hana.

Umboðsmaðurinn sannfærði þá leikmanninn um að hann myndi ekki fá að snúa aftur til Belgíu ef hann færi heim. Í yfirlýsingu Stuttgart segir að nafn umboðsmannsins verði ekki opinberað, til að verja öryggi leikmannsins.

Silas stóð á eigin fótum og setti traust sitt til umboðsmannsins og bjó hjá honum í París en var haldið að mestu frá samfélaginu. Hann hafði ekki aðgang að reikningum sínum né skjölum. Talið er að umboðsmaðurinn hafi skapað nýtt auðkenni fyrir Silas til að rjúfa tengsl hans við fyrrum félag hans í Kongó.

Silas segist hafa lifað í stanslausum ótta undanfarin ár en umboðsmaðurinn hótaði því að hann myndi sjá til þess að Silas myndi ekki spila fótbolta aftur ef hann myndi ekki fara eftir því sem umboðsmaðurinn sagði.

Í yfirlýsingu Stuttgart segir Silas að það hafi verið erfitt skref að opinbera sögu sína. Ráðgjafar hafi hinsvegar sannfært hann um að hann þarf ekki að vera hræddur lengur, hann segist afskaplega þakklátur fyrir traustið og stuðninginn frá Stuttgart.
Athugasemdir
banner
banner
banner