Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
banner
   mán 08. júlí 2024 13:30
Elvar Geir Magnússon
Morata kominn með nóg og íhugar að hætta - „Engin virðing“
Alvaro Morata er fyrirliði spænska landsliðsins.
Alvaro Morata er fyrirliði spænska landsliðsins.
Mynd: EPA
Morata í leik með Atletico Madrid.
Morata í leik með Atletico Madrid.
Mynd: EPA
Það er dramatík í herbúðum spænska landsliðsins á EM en Alvaro Morata hótar að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir mótið. Ástæðan er sú gagnrýni sem hann hefur fengið, sem honum finnst ósanngjörn og út í hött.

Morata er fyrirliði Spánar en segir að það yrði auðveldast fyrir sig og fjölskyldu sína að flytja frá Spáni. Hann segir að í landinu „sé ekki borin virðing fyrir neinum".

Spánn mætir Frakklandi í undanúrslitum annað kvöld en viðtal Morata við El Mundo hefur skapað ólgu í heimalandi hans.

„Þetta gæti verið mitt síðasta mót með spænska landsliðinu. Það er eitthvað sem ég vil ekki tala of mikið um núna en það er líklegt," segir Morata sem hefur átt í eldfimu sambandi við spænska stuðningsmenn.

Hann er umdeildur meðal stuðningsmanna sem hafa sumir hverjir látið hann heyra það í gegnum árin.

„Það er erfitt fyrir mig að vera ánægður á Spáni. Ég er án nokkurs vafa ánægðari utan Spánar. Aðallega því fólk ber þar virðingu fyrir mér."

Morata verður með í leiknum á morgun en í sigrinum gegn Þýskalandi komu rangar upplýsingar um að hann hefði fengið gult spjald.

„Fólk sagði að ég væri að gráta eftir leik því ég fékk gult spjald. Það er algjört kjaftæði. Ég var að gráta af gleði því þjóð mín, þar sem ég er fyrirliði, var að komast í undanúrslit. Ég myndi aldrei gagnrýna þá sem gráta vegna þess. En ég fæ gagnrýni á meðan ég geri allt sem ég get til að hjálpa til við að vinna þetta mót," segir Morata.

Margir stuðningsmenn Spánar eru ósáttir með frammistöðu Morata og hann segir að gagnrýnin hafi haft áhrif á fjölskyldu sína.

„Ég reyni að njóta þessa móts sem gæti verið það síðasta með landsliðinu. Börnin mín skilja ekki af hverju fólk er svona reitt út í pabba þeirra."

Morata spilar fyrir Atletico Madrid en miðað við þetta viðtal er hann að hugsa sér til hreyfings. Þessi 31 árs sóknarmaður er fyrrum leikmaður Real Madrid, Juventus og Chelsea.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner