Tottenham og Newcastle hafa áhuga á Grealish - Newcastle bjartsýnt á að fá Guehi - Elanga í læknisskoðun
   þri 08. júlí 2025 21:05
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Grátlegt tap Blika í Albaníu
Breiðablik tapaði í Albaníu
Breiðablik tapaði í Albaníu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Ari átti flottan leik í marki Blika
Anton Ari átti flottan leik í marki Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Egnatia 1 - 0 Breiðablik
1-0 Ildi Gruda ('92 )
Rautt spjald: Regi Lushkja, Egnatia ('94) Lestu um leikinn

Íslandsmeistarar Breiðablik töpuðu fyrir Egnatia, 1-0, í fyrri leik liðanna í 1. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu ytra í kvöld. Eina mark leiksins kom í uppbótartíma og þurfa Blikar nú tvö mörk til að komast beint áfram í næstu umferð.

Einhverjir Íslendingar ættu að þekkja til Egnatia en liðið mætti Víkingum í forkeppni Sambandsdeildarinnar á síðasta ári þar sem Víkingar höfðu betur í tveggja leikja rimmu, 2-1.

Það var nokkuð rólegt yfir fyrri hálfleiknum en Blikar áttu besta færið er Viktor Karl Einarsson kom með frábæran bolta inn á Aron Bjarnason sem lét vaða en Mario Dajsinani sá við honum í markinu.

Staðan markalaus í hálfleik og Blikar nokkuð sáttir við þá stöðu, en í þeim síðari fóru heimamenn að herja á gestina.

Soumaila Bakayoko gerði sig líklegan í tvö skipti. Fyrst varðist Viktor Örn Margeirsson frábærlega og í seinna skiptið fór skot Bakayoko framhjá markinu.

Miðvörðurinn Anio Potsi, sem kom inn á snemma leiks vegna meiðsla Edison Ndreca, átti tvö hættuleg skot þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Hann fékk boltann fyrir utan teig og átti hörkuskot í þverslá. Egnatia hélt boltanum og fékk Potsi aðra tilraun til að skora, en þá varði Anton Ari Einarsson boltann yfir markið.

Blikar voru á góðri leið með að fara með góða stöðu til Íslands. Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og hafði Kristófer Ingi Kristinsson verið grátlega nálægt því að koma Blikum í forystu.

Stuttu eftir það skoruðu heimamenn eftir hraða skyndisókn. Ildi Gruda fékk boltann inn fyrir og náði Viktor Örn ekki að halda í við hann. Gruda setti boltann síðan í kjölfarið framhjá Antoni Ara við mikinn fögnuð heimamanna.

Í fagnaðarlátunum hljóp Regi Lushkja, leikmaður Egnatia, inn á völlinn. Hann var í byrjunarliði Egnatia, en hafði verið skipt af velli þegar stundarfjórðungur var eftir. Lushkja fékk gult spjald fyrr í leiknum og sýndi dómarinn honum annað gula og þar með rautt.

Hann verður því í leikbanni í seinni leiknum sem spilaður er á Kópavogsvelli eftir viku.

Grátlegt tap hjá Blikum sem virtust ætla að halda þetta út, en þetta einvígi er langt í frá búið.
Athugasemdir
banner
banner
banner