Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   lau 08. ágúst 2020 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hin hliðin - Arnþór Ingi Kristinsson (KR)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Sigurður 'Diddi' Hrannar Björnsson.
Sigurður 'Diddi' Hrannar Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Smári Sigurðsson og Kristján Flóki Finnbogason.
Halldór Smári Sigurðsson og Kristján Flóki Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Flosason.
Hallur Flosason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tobias Thomsen.
Tobias Thomsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnþór Ingi er uppalinn Skagamaður sem kom við sögu með ÍA tímabilin 2009 og 2010 áður en hann gekk í raðir Hamars árið 2011. Árið 2013 hélt hann í Víkina og var þar út tímabilið 2018.

Eftir tímabilið 2018 söðlaði Arnþór um og hélt í Vesturbæinn og varð Íslandsmeistari með KR síðasta sumar. Hann hefur leikið 99 leiki í efstu deild og þá flesta sem miðjumaður, í leikjunum 99 hefur Arnþór skorað tólf mörk. Í dag sýnir hann á sér hina hliðina.

Fullt nafn: Arnþór Ingi Kristinsson

Gælunafn: Addi, Ad, og svo er ákveðin hópur sem kallar mig Tóti sem meikar engan sens

Aldur: 30

Hjúskaparstaða: Í sambúð

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Það var sumarið 2009 með ÍA á móti Haukum

Uppáhalds drykkur: Sykurskert Kókómjólk og Stella Artois

Uppáhalds matsölustaður: Flatey er yfirburðar

Hvernig bíl áttu: Er með tvo bíla sem ég skiptist á að nota, einn góðann á langtímaleigu og svo annan vinnubíl.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Survivor eru geggjaðir og svo komu Money Heist sterkir inn

Uppáhalds tónlistarmaður: Oasis eru besta band frá upphafi, en nýverið hef ég verið alveg fastur í Kántrý senunni.

Fyndnasti Íslendingurinn: Pálmi Rafn sagði svo fyndin brandara seinasta sumar að ég hugsa reglulega um brandarann og fer að hlægja. Þannig ég verð að gefa honum smá part af þessu. En annars er Jeppakallinn einstaklega fyndinn.

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Mikill aðdáandi af Bragðarefnum Bjössa í Huppu, það er Daimkurl, karamelluídýfa og Hockey Pulver

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: "Jamm" stutt og laggott frá svila mínum Stjána Vald.

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með: Fyrir nokkrum árum hefði ég sagt KR, þannig það þýðir ekkert að segja svona. En ef ég þyrfti að velja eitthvað þá myndi ég sennilega velja Aftureldingu.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Nani var mjög góður þótt það hafi verið æfingaleikur. Svo var Magnus Eikrem helvíti sprækur í útileiknum á móti Molde í fyrra.

Besti þjálfarinn sem hefur þjálfað þig: Ég gef Rúnari og Bjarna þetta. Hef náð mestum árangri með þeim. En verð líka að gefa Óla Þórðar shoutout.

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Það mun vera Davíð Þór Viðarsson

Sætasti sigurinn: Valur, FH og Blikar í fyrra. Allt leikir sem tengjast Íslandsmeistaratitlinum og stigametinu.

Mestu vonbrigðin: Það var skelfilegt að tapa lokaleiknum á Íslandsmótinu í 2. flokki á móti Blikum. Hugsa ennþá um þann leik. Sigurvegarinn í leiknum var að fara standa uppi sem Íslandsmeistari og því miður tapaðist sá leikur

Uppáhalds lið í enska: Aston Villa

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Ég myndi sennilega velja einhvern Skagamann. Það veitir alltaf á gott þegar þeir eru í KR. Þannig ég myndi annaðhvort velja Tryggva Hrafn Haraldsson eða Valdimar Þór Ingimundarson.

Efnilegasti knattspyrnumaður/kona landsins: Frændurnir Jóhannes Kristinn og Ísak Bergmann

Fallegasti knattspyrnumaðurinn á Íslandi: Íslenskur: Sigurður Hrannar Björnsson, Erlendur: Tobias Thomsen

Fallegasta knattspyrnukonan á Íslandi: Hlíf Hauksdóttir, en hún á líka mjög huggulegan mann.

Besti knattspyrnumaðurinn frá upphafi: Zidane

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Það er eiginlega bara einn sem er hægt að velja og það er hann Gauji Carra

Uppáhalds staður á Íslandi: Það er alltaf gott að koma á Ólafsfjörð

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Ég verð að velja sama atvik og Ívar Örn Jónsson. En þá vorum við í Víking að keppa á móti Keflavík og erum að vinna 7-1. Það liggur leikmaður eftir á vellinum og Viktor Bjarki ætlar að pikka boltanum útaf hjá hliðarlínunni, en á sama tíma ætlar Halldór Smári að flengja boltanum upp vinstri kantinn. Það endar þannig að Viktor pikkar boltanum útaf og Halli gjörsamlega straujar Viktor. Þeir liggja svo báðir kylliflatir og Keflavík fær innkast. Þetta atvik rataði síðan á stóra samfélagsmiðla og fékk hundruð þúsund views. Það á að vera til GIF af þessu líka.

Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Kíkji á dóttur mína og checka hvort það sé ekki allt í góðu

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Fylgist mikið með NFL

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú: Ég vil helst vera í Nike Premier eða Copa Mundial, en er svo með Nike Phanthom skrúfur líka.

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Ég var sennilega sístur í Náttúrufræði.

Vandræðalegasta augnablik: Ég tók einu sinni þátt í leiksýningu í Verzló og í sýningunni átti ég að keyra svona rafmagns-barnabíl meðfram rampi hjá áhorfendunum. Ég sat ofan bílnum og reyndi að stýra honum meðfram rampinum en misreiknaði mig eitthvað sem varð til þess að ég keyrði bílinn fram af rampinum og steyptist útí áhorfendasal. Sem betur fer slasaðist enginn, en það hlógu allir mjög mikið af þessu. Það var frekar óþægilegt moment.

Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Ég myndi taka Halldór Smára (Vikes), Kristján Flóka (KR) og Hall frænda (ÍA). Í fyrsta lagi að þá væri mjög góður banter í gangi allan tímann. Svo myndum við sennilega snúa tilbaka með fullgerða tónlistarplötu í kassagítars-hiphop-elektró-stíl. Sú plata myndi svo annaðhvort flokkast sem eitt mesta meistaraverk í sögu tónlistar eða sem einhver mesta steypa sem hefur verið gefin út. Ég hallast reyndar að því seinna.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég var íslandsmeistari í Badminton þegar ég var 12 ára.

Hvaða samherji hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum og af hverju: Ég verð að gefa Skara þetta, en það er aðallega vegna þess að ég hélt í svona fyrstu 2-3 mánuðina mína í KR að hann þoldi mig ekki. Hélt kannski að ég hefði tæklað hann of harkalega einhvern tímann í leik eða eitthvað. En síðan þá höfum við heldur betur þróað okkar samband í rétta og erum núna búnir að vera með okkar eigin handshake í meira en ár. Toppmaður hann Óskar, en hann á reyndar ennþá eftir að samþykja mig á Instagram og ég er búinn að bíða svolítið lengi eftir því. Það kemur einhvern tímann.

Hverju laugstu síðast: Ég sagði Bjögga að hann væri ekkert búinn að bæta á sig í meiðslunum

Hvað er leiðinlegast að gera á æfingum: Það er alveg ógeðslega leiðinlegt að tapa í sláarkeppninni.

Ef þú fengir eina spurning til að spyrja hvern sem er: Hver yrði spurningin og hvern myndiru spyrja: Ég myndi sennilega spyrja Skara afhverju hann sé ekki búinn að samþykja mig á Instagram. En ég vil ekkert vera ýta á hann, við komumst einhvern tímann á þann stað í vinskapnum okkar.
Athugasemdir
banner
banner