„Þetta eru tveir skemmtilegir leikir og báðir á heimavelli. Við verðum að nýta það vel þegar við erum að spila tvo leiki heima," sagði Orri Steinn Óskarsson, sóknarmaður Íslands, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Á næstu dögum spila strákarnir í A-landsliðinu tvo mikilvæga leiki í Þjóðadeildinni; gegn Wales og Tyrklandi á heimavelli.
Á næstu dögum spila strákarnir í A-landsliðinu tvo mikilvæga leiki í Þjóðadeildinni; gegn Wales og Tyrklandi á heimavelli.
„Það er mikilvægt að fá stuðningsmennina með okkur. Við hvetjum auðvitað alla til að koma á völlinn að styðja okkur. Það skiptir okkur miklu máli og hjálpar okkur í hverjum einasta leik," segir Orri en hann telur möguleikana góða fyrir komandi verkefni.
Það var draumakvöld
Orri gekk í raðir spænska félagsins Real Sociedad á metfé undir lok félagaskiptagluggans. Hann hefur verið að koma sér inn í hlutina þar og er búinn að koma sér á blað.
„Þetta hefur verið smá upp og niður. Við lentum í smá markaþurrð rétt eftir síðasta landsliðsglugga. Síðan höfum við verið að taka nokkra sigra og frammistaðan orðin betri. Það er mikið af jákvæðum hlutum að gerast," segir Orri en hann gerði tvennu gegn Valencia á dögunum.
„Það var draumakvöld, alveg frábært. Að setja mark sitt á leikinn og skora tvö mörk var mikilvægt. Það var geggjað kvöld með stuðningsmönnunum og liðsfélögunum."
Það var mikið talað um Orra í stórum fjölmiðlum eftir þann leik og það er mikil athygli á honum en hann er afar spennandi sóknarmaður. Hvernig nær maður sér niður eftir svona kvöld?
„Maður er svolítið mikið uppi eftir leikinn en svo fer maður bara heim og þá er kærastan komin. Hún tekur mann niður á jörðina aftur. Ég er með gott fólk í kringum mig sem heldur mér jarðbundnum á hverjum einasta degi. Kærastan mín passar upp á mig," segir Orri en hvernig hefur gengið að aðlagast nýju landi og nýrri deild?
„Mér finnst það hafa gengið ágætlega. Ég hef prófað fullt af hlutum og er að vinna mig í átt að finna rútínu, að komast aftur í venjulega lífið mitt. Þegar það er allt orðið gott, þá verða hlutirnir inn á vellinum einfaldari."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir