Man City bjartsýnt á að skáka Liverpool í baráttu um Guehi - Man City hefur áhuga á Michael Kayode - Rudiger aftur til Chelsea?
   fös 09. janúar 2026 15:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ömurlegt að sjá á eftir Arnóri - „Með réttu hugarfari á hann eftir að verða frábær fyrir KR"
Ari og Arnór í sigurleik gegn Kósovó árið 2017.
Ari og Arnór í sigurleik gegn Kósovó árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir leik á HM í Rússlandi.
Eftir leik á HM í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór ingvi og Ari Freyr fagna marki með Birki Má Sævarssyni gegn Liechtenstein fyrir EM 2016.
Arnór ingvi og Ari Freyr fagna marki með Birki Má Sævarssyni gegn Liechtenstein fyrir EM 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Ingvi Traustason samdi í síðasta mánuði við KR eftir að hafa leikið erlendis sem atvinnumaður í rúman áratug. Hann kemur til KR frá Norrköping en hann lék einnig með Sandnes Ulf, Rapid Vín, AEK Aþenu, Malmö og New England Revolution á atvinnumannaferlinum.

Hjá Norrköping og í íslenska landsliðinu lék hann með Ara Frey Skúlasyni. Ari var svo í þjálfarateymi Norrköping og Arnór í liðinu. Liðið átti skelfilegan lokakafla á liðnu tímabili í sænsku úrvalsdeildinni sem endaði með falli í lok tímabils.

Ari ræddi við Fótbolta.net um Arnór.

Hvernig er að sjá á eftir honum?

„Það er ömurlegt að sjá á eftir honum, hann er frábær vinur og við náðum mjög vel saman. En ég get alveg skilið hann. Þegar maður kemur kannski heim 37-38 ára, á leið niður hæðina, er það annað en að koma heim 32 ára. Hann er með þvílíka vél og með réttu hugarfari á hann eftir að verða frábær fyrir KR."

„Þetta er líka ekki bara fótboltinn, það þarf að horfa í heildarmyndina, lífið fyrir utan fótboltann. Ég held þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá honum, fara heim, njóta þess að spila fótbolta og njóta þess að vera með fjölskyldunni á Íslandi."

„Ég myndi segja að hann sé mjög sterkur kandídat í að vera einn allra besti leikmaður deildarinnar. Hann er kominn til Óskars sem er að byggja sitt upp. Arnór var að hlaupa mest af öllum í liðinu okkar, besti pressuleikmaðurinn, gat skorað mörk og er með frábæran fót. Ef hann helst heill og hausinn er rétt skrúfaður á, þá á hann eftir að vera frábær í sumar með KR."


Arnór skoraði 27 mörk í 109 leikjum með Norrköping á þremur og hálfu tímabili og lagði upp talsvert af mörkum. Tilfinningin fyrir Arnóri er að hann sé öflugur í því að miðla til yngri leikmanna, er það rétt metið?

„Já, hann er rosa kröfuharður. Sem er mjög gott, því mér finnst margir ungir leikmenn hafa fengið of mikið gefins, þeir hafa fengið að spila af því þeir eru ungir, menn þurfa að vera með gæðin líka. Arnór tók við fyrirliðabandinu hjá okkur þegar fyrirliðinn var ekki til staðar og leiddi liðið áfram. Eins og staðan var hjá klúbbnum þá var þetta mjög erfitt fyrir Arnór Ingva, hann ber miklar tilfinningar til klúbbsins og erfitt að sjá hvernig var búið að meðhöndla klúbbinn sem hann elskaði. Hann reyndi sitt besta og gaf allt í alla leiki, þó að hann hafi verið hálfmeiddur eða gæti varla hlaupið, þá gerði hann samt alltaf sitt. Ef Óskar heldur honum heilum þá á hann eftir að vera þvílíkur liðsstyrkur fyrir KR," segir Ari Freyr.
Athugasemdir
banner