Tólf félög í 5. deild hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem félögin lýsa yfir harðri andstöðu við nýútgefna gjaldskrá KSÍ fyrir komandi tímabil.
Yfirlýsingin í heild sinni
Við, undirrituð félög í 5. deild karla, lýsum yfir harðri andstöðu við nýútgefna gjaldskrá KSÍ fyrir tímabilið 2026. Þótt við skiljum mikilvægi rekstraröryggis, þá eru þær „leiðréttingar“ sem lagðar eru á neðstu deild íslensks fótbolta algjörlega úr takti við raunveruleikann og bein atlaga að grasrótarstarfi í landinu.
Byggt á nýju dreifibréfi KSÍ (nr. 1/2026) og stöðu okkar félaga, viljum við benda á eftirfarandi:
- Rúmlega 203% hækkun: Fyrir félög í 5. deild þýða þessar „leiðréttingar“ rúmlega 203% hækkun á þátttökugjöldum frá fyrri árum. Þetta er ekki eðlileg verðlagsuppfærsla heldur tilraun til að þrýsta sjálfboðaliðadrifnum félögum út úr hreyfingunni.
- 5. deildar „álagið“: Í algjörri andstöðu við alla íþróttalega röksemdafærslu þurfa félög í 5. deild nú að greiða 700.000 kr. í þátttökugjald. Þetta er umtalsvert hærra gjald en lið í 2., 3. og 4. deild greiða, en þeirra gjald er 540.000 kr..
- Meira greitt fyrir minni þjónustu: Það er óverjanlegt að 5. deild greiði hæst gjöld þrátt fyrir að leikjafjöldi sé minni en í 2., 3. og 4. deild. Auk þess útvegar KSÍ línuverði í efri deildunum, á meðan félög í 5. deild þurfa sjálf að standa straum af kostnaði við línuverði ofan á hækkað þátttökugjald.
- Kerfisbundin mismunun: Á meðan félög í efri deildum (Besta deild til 4. deildar) eiga kost á 15% afslætti af gjöldum sínum, er tekið sérstaklega fram að 5. deild og utandeild fái 0% afslátt.
- Ógn við lýðheilsu: Meirihluti iðkenda í 5. deild eru einstaklingar sem stunda íþróttina til að stuðla að lýðheilsu sinni og sækjast í góðan félagsskap. Með því að „kúga“ þessi félög til að brúa halla á rekstri KSÍ er sambandið að ógna lýðheilsu þúsunda iðkenda sem treysta á þessi lið fyrir hreyfingu og samfélag.
- Gefinn fjögurra daga frestur: KSÍ staðfesti þessi gjöld í lok janúar en fyrri gjalddagi er strax 1. febrúar. Að krefjast þess að áhugamannafélög reiði fram hálfa milljón króna með nokkurra daga fyrirvara sýnir algjört virðingarleysi fyrir rekstrarumhverfi grasrótarinnar.
- Lítið fyrir peninginn: Fyrir 700.000 kr., með ferðakostnaði dómara, útvegar KSÍ aðeins einn dómara á leik og aðgang að skýrslukerfi. Sú lágmarksþjónusta réttlætir engan veginn þessa gríðarlegu fjárhagslegu byrði.
- Ósamanburðarhæft við nágrannalöndin: Það vekur athygli hversu mikið þessi gjöld skera sig úr miðað við nágrannalönd okkar. Á meðan þátttökugjald í lægstu deildum í Noregi og Danmörku (fyrir 11 manna bolta) er oft á bilinu 80.000 til 150.000 kr. (umreiknað), krefst KSÍ nú 700.000 kr. af íslenskum grasrótarfélögum. Þessi munur sýnir að íslensk félög eru látin niðurgreiða halla sambandsins á meðan kollegar okkar á Norðurlöndunum njóta stuðnings við sína útbreiðslustarfsemi.
KSÍ rökstyður þessar hækkanir með því að tekjur sambandsins muni lækka árið 2026. Ábyrgðin á þeim halla liggur hjá forystu KSÍ, en ekki hjá sjálfboðaliðum úti í hinum ýmsu hverfum og bæjarfélögum sem fórna tíma sínum í þágu samfélagsins.
Við skorum á stjórn KSÍ að rökstyðja hvers vegna 5. deild greiðir hærri gjöld en deildirnar fyrir ofan og krefjumst þess að gjalddaga þann 1. febrúar verði frestað þar til sanngjörn lausn er fundin.
Virðingarfyllst
Afríka, BF108, Hamrarnir, Hörður Í., KM, Kría, RB, Reynir H, Smári, Spyrnir, Stokkseyri, Þorlákur.
Önnur lið hafa ekki enn svarað, en þeim gefst kostur á að gerast aðilar að undirrituninni með því að hafa samband við einhvern af núverandi undirrituðum.
Athugasemdir




