Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 09. ágúst 2022 21:59
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Blikum mistókst að sigra í Garðabæ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stjarnan tók á móti Breiðabliki í Bestu deild kvenna í kvöld og úr varð hörkuslagur.


Staðan var markalaus eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik en Gyða Kristín Gunnarsdóttir kom Stjörnunni yfir á 57. mínútu, aðeins nokkrum mínútum eftir að hún hafði brennt af úr góðu færi. Í þetta sinn brást henni ekki bogalistin og skoraði auðvelt mark eftir flottan undirbúning frá Jasmínu Erlu Ingadóttur.

Stjarnan hafði verið betri aðilinn og verðskuldaði forystuna en það var Vigdís Lilja Kristjánsdóttir sem jafnaði eftir frábæran undirbúning frá Anna Petryk. Anna fór framhjá nokkrum Garðbæingum úti á kantinum áður en hún gaf boltann fyrir og þar var Vigdís Lilja mætt til að klára og jafna leikinn.

Stjörnukonur fengu nokkur hættuleg færi á næstu mínútum áður en Blikar tóku forystuna gegn gangi leiksins sem var orðinn gríðarlega opinn og skemmtilegur. Karítas Tómasdóttir skallaði þá aukaspyrnu í stöngina og fór boltinn þaðan í bakið á Chante Sandiford markverði Stjörnunnar og í netið. Afar óheppilegt fyrir Chante og Garðbæinga.

Garðbæingar voru þó hvergi nærri hættar því þeim tókst að jafna leikinn á ný á lokamínútunum. Jasmín Erla gerði frábærlega að nýta langa sendingu innfyrir vörnina til að leggja upp fyrir Anítu Ýr Þorvaldsdóttur sem skoraði mikilvægt jöfnunarmark.

Stjarnan reyndi að sækja sigurmark í uppbótartíma en það gekk ekki og lokatölur urðu 2-2. Breiðablik er áfram í öðru sæti deildarinnar, nú fjórum stigum eftir toppliði Vals, og situr Stjarnan í þriðja sæti, fjórum stigum þar á eftir. Það eru því átta stig á milli Vals og Stjörnunnar.

Lestu um leikinn

Stjarnan 2 - 2 Breiðablik
1-0 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('57)
1-1 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir ('66)
1-2 Chante Sherese Sandiford ('82, sjálfsmark)
2-2 Aníta Ýr Þorvaldsdóttir ('89)

Þróttur R. tók þá Selfoss í kennslustund þar sem Danielle Julia Marcano skoraði úr tveimur fyrstu færum Þróttara í leiknum. Murphy Agnew átti báðar stoðsendingarnar en Selfyssingar sóttu mikið á milli þessara marka án þess þó að nýta færin.

Staðan var 2-0 í leikhlé og skipti Selfoss um gír eftir leikhlé en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir voru vaðandi í færum en ekki tókst þeim að skora frekar en í síðustu fjórum deildarleikjum.

Hrikalegt gengi Selfyssinga heldur áfram en í dag endurspegluðu úrslitin enganveginn leikinn sjálfan. Þróttur skoraði úr sínum færum á meðan Selfyssingar fóru ótrúlega illa með sín færi.

Síðasta mark Þróttar kom á 79. mínútu eftir að Tiffany Sornpao missti boltann úr greipum sér og var Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fljótust að átta sig og nýta tækifærið.

Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar með 22 stig eftir þennan sigur og situr Selfoss eftir í sjötta sæti með 15 stig. Selfosskonur hafa aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum.

Lestu um leikinn

Þróttur R. 3 - 0 Selfoss
1-0 Danielle Julia Marcano ('4)
2-0 Danielle Julia Marcano ('38)
3-0 Álfhildur Rósa Kjartansdóttir ('79)


Athugasemdir
banner
banner