Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 10. janúar 2023 13:30
Elvar Geir Magnússon
Man Utd með Osimhen, Sesko og Kane á blaði fyrir sumarið
Hinn 29 ára gamli Kane.
Hinn 29 ára gamli Kane.
Mynd: Getty Images
Benjamin Sesko.
Benjamin Sesko.
Mynd: EPA
Manchester United vinnur hörðum höndum að því að fá hollenska sóknarmanninn Wout Weghorst en samkvæmt ESPN er hann aðeins hugsaður til að brúa bilið þar til kemur að sumarglugganum.

Þar ætli United að fá inn sóknarmann og á blaði séu meðal annars Victor Osimhen og Benjamin Sesko. Auk þess sé enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane á listanum, ef hann gerir ekki nýjan samning við Tottenham. Núgildandi samningur Kane er út næsta tímabil.

Osimhen er 24 ára nígerískur sóknarmaður sem hefur skorað 11 mörk í 16 leikjum fyrir Napoli á tímabilinu. Paris Saint-Germain hefur einnig áhuga á honum.

Sesko er 19 ára gamall slóvenskur sóknarmaður RB Leipzig sem orðaður var við United síðasta sumar.

Manchester United hefur stundað það undanfarin ár að fá inn sóknarmenn sem eru komnir yfir sitt besta. Radamel Falcao, Zlatan Ibrahimovic, Odion Ighalo, Edinson Cavani og Cristiano Ronaldo hafa verið sóttir.

Nú sé stefnan hinsvegar að fá inn sóknarmann á besta aldri og það sé eitt helsta markmið United fyrir gluggann á komandi sumri.

ESPN segir að Weghorst, sem er hjá Besiktas á láni frá Burnley, gæti orðið leikmaður United í vikunni. Besiktas vill ekki missa þennan 30 ára leikmann sem hefur skorað níu mörk í átján leikjum en Weghorst hefur látið það skýrt í ljós að hann vilji grípa þetta tækifæri og fara á Old Trafford.

Manchester United þarf að vera í Meistaradeildinni á næsta tímabili til að auka möguleika á að fá inn þá leikmenn sem félagið vill. Weghorst á að hjálpa United að tryggja sér Meistaradeildarsæti á þessu tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner