John Eustace mun í dag fara á fund með stjórnarmönnum Blackburn þar sem hann mun ræða við þá um framtíð sína.
Talið er að Eustace muni óska eftir því á fundinum um að fá að ræða við Derby County sem er í stjóraleit. Derby hefur óskað eftir því að fá að ræða við Eustace.
Talið er að Eustace muni óska eftir því á fundinum um að fá að ræða við Derby County sem er í stjóraleit. Derby hefur óskað eftir því að fá að ræða við Eustace.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Blackburn er í baráttu um að komast upp í ensku úrvalsdeildina á meðan Derby er á hinum enda töflunnar, að berjast fyrir lífi sínu í Championship-deildinni.
En af hverju myndi Eustace vilja yfirgefa Blackburn fyrir Derby á þessum tímapunkti?
Elliott Jackson skrifar áhugaverða grein fyrir Lanchashire Telegraph þar sem hann rekur aðeins söguna á bak við það. Hann segir Blackburn ítrekað skjóta sig í fótinn.
Eustace er hæfileikaríkur stjóri sem er frábær í því að ná því besta út úr leikmönnum sínum. Hann sýndi það hjá Birmingham áður en Wayne Rooney tók við því liði. Og svo hefur hann aftur sýnt það hjá Blackburn.
En hann er talinn hafa verið ósáttur við það hvað var í gangi á bak við tjöldin hjá Blackburn. Hin skrautlega Venky's fjölskylda á Blackburn enn þann dag í dag og þeir eru ekkert orðnir mikið betri í það að eiga fótboltafélag en þeir voru fyrir nokkrum árum síðan.
Eustace hefur ekki fengið mikið svigrúm á leikmannamarkaðnum til að styrkja hóp sinn og ekki fengið mörg góð svör um framtíðarstefnu Blackburn.
„Að missa tvo stjóra út um dyrnar á tólf mánuðum er hrikalegt. Ekki beina reiði þinni að John Eustace. Ef hann lítur á Derby sem betra verkefni, þá segir það allt. Þetta snýst um stjórnina hjá Blackburn," skrifar Jackson.
Það hefur þá líklega áhrif líka að Eustace er með tengingu við Derby en hann spilaði tvisvar fyrir félagið á leikmannaferli sínum. Núna vill hann fá að ræða við Derby og er líklega að taka við liðinu. Það er óhætt að segja að það sé frábær ráðning fyrir Derby ef svo verður, en hræðilegt fyrir Blackburn á þessum tímapunkti.
Athugasemdir