Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 10. apríl 2020 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikur í uppáhaldi: Barcelona 4 - 1 Roma
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mynd: Getty Images
Ég vildi fá stórsýningu frá þeim besta en varð ekki að ósk minni.
Ég vildi fá stórsýningu frá þeim besta en varð ekki að ósk minni.
Mynd: Getty Images
Besta sætið.
Besta sætið.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sagrada Familia.
Sagrada Familia.
Mynd: Getty Images
Niðurlægingin var algjör fyrir Barcelona, en ekki var þetta í síðasta sinn sem Messi og félagar áttu eftir að lenda í slíkri niðurlægingu.
Niðurlægingin var algjör fyrir Barcelona, en ekki var þetta í síðasta sinn sem Messi og félagar áttu eftir að lenda í slíkri niðurlægingu.
Mynd: Getty Images
Guardian hefur síðustu daga í fótboltaleysinu fengið fréttaritara sína til að rifja upp góðar minningar úr fótbolta með því að skrifa um leik sem er í uppáhaldi. Ég ætla að ríða á vaðið hér á Fótbolta.net og rifja upp leik sem ég gleymi seint. Hver veit nema einhverjir fleiri geri það hér á síðunni á næstu dögum.

Það er apríl 2018 og páskarnir eru á næsta leyti. Lengi hefur sú hugmynd að fara á leik í Meistaradeildinni verið ofarlega í huga mínum. Fyrsta fótboltaminningin mín er jú úr Meistaradeildinni þegar Ronaldinho skoraði með tánni á Brúnni árið 2005.

Ég lít á fótboltadagatalið og framundan eru fyrri leikir í 8-liða úrslitum keppninnar. Leikur Barcelona og Roma grípur strax athygli mína. Það voru þrír dagar í leik þegar ég tek loksins ákvörðun um að fara. Ég kaupi flug, hótel og miða á leikinn - allt á einu bretti og tveimur dögum síðar er ég í flugi á leið til Katalóníu. Hlutirnir gerast yfirleitt hratt í fótboltanum.

Ég tók leigubíl frá El Prat flugvellinum á hótelið. Þótt það hafi verið pantað í fljótfærni þá reyndist það nú bara nokkuð gott. Um kvöldið fer ég að skoða mig um í nágrenni við hótelið og enda fyrir framan Camp Nou, Nývang, heimavöll knattspyrnufélagsins Barcelona. Ég sest á bekk og horfi á þetta stórbrotna mannvirki í dágóðan tíma. Auðvitað tek ég einhverjar myndir og myndbönd og sendi heim, annað var ekki hægt.

Eftir að hafa setið fyrir utan Nývang í nokkrar mínútur þá gekk ég aftur á hótelið og sá síðustu mínúturnar í leik Juventus og Real Madrid. Cristiano Ronaldo skoraði úr hjólhestaspyrnu til að fullkomna þrennu sína gegn liði sem hann átti eftir að spila með síðar meir. Næsta kvöld vildi ég fá að sjá stórsýningu frá Lionel Messi í líkingu við það sem stórvinur hans, Ronaldo hafði gert gegn gömlu frúnni.

Það var fallegt vorkvöld í Barcelona er ég gekk á völlinn til að sjá leik Barcelona og Roma, fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ég hafði haft gaman að því að sjá völlinn utan frá, en útsýnið var ekki verra þegar inn á leikvanginn var komið. Ég sat hátt uppi og hafði góða yfirsýn á það sem framundan var.

Auðvitað var ég spenntur að sjá Lionel Messi spila, en ég var ekki minna spenntur fyrir því að heyra Meistaradeildarlagið óma í hljóðkerfinu fyrir leik. Því miður var það eyðilagt fyrir mér með bauli áhorfenda. Um var að ræða pólitísk mótmæli Börsunga sem kölluðu eftir sjálfstæði. Það pirraði mig vel, en ég er nú alveg búinn að jafna mig á því í dag.

Leikurinn sjálfur er ekki ástæðan fyrir því að þessi leikur er í uppáhaldi hjá mér. Heldur er það upplifunin af leiknum; að fara á Nývang á leik í Meistaradeildinni er svo sannarlega upplifun sem þú gleymir seint og er væntanlega á 'Bucket' lista flestra fótboltaáhugamanna. Þarna strikaði ég að minnsta kosti af mínum lista.

Hvað leikinn sjálfan varðar þá endaði hann með 4-1 sigri Barcelona sem spilaði hreint út sagt ekki vel í leiknum. Og þó að frammistaða þeirra hafi ekki verið góð þá hefðu þeir mögulega getað unnið stærra. Roma-menn skoruðu tvö sjálfsmörk og áttu ekki sitt besta kvöld, ekki frekar en lið Barcelona. Ég fékk ekki þá sýningu frá Messi sem ég hafði vonast eftir. Í skýrslu BBC frá leiknum segir fréttaritari að nafni Andy West: „Líklega var þetta versta frammistaða Messi á tímabilinu til þessa."

Ég hef tvisvar farið á leik sem Messi hefur spilað í og í bæði skiptin hefur hann verið slakur og valdið mér vonbrigðum. Í fyrra skiptið sem ég sá hann spila var það í leik gegn Atletico Madrid á gamla Vicente Calderon og var það minn fyrsti fótboltaleikur sem ég fór á erlendis. Messi skoraði sigurmarkið í þeim leik í 2-1 sigri, en var ekki góður.

Ég held því samt fram að hann sé besti leikmaður sem uppi hefur verið - að minnsta kosti er hann besti fótboltamaður sem ég hef nokkurn tímann séð.

Að leik loknum gekk ég aftur upp á hótel og hugsaði nú með mér að Barcelona væri að fara í undanúrslitin án þess að þurfa að reyna mikið á sig í síðari leiknum. Þó að Roma hefði náð útivallarmarki þá var staða Börsunga mjög þægileg.

Næsti dagur var síðasti heili dagurinn minn í Barcelona og notaði ég hann til að vera túristi. Eins og allir túristar sem fara til borgarinnar þá skoðaði ég Sagrada Familia bygginguna. Eins og Camp Nou þá var það fínasta mannvirki. Svo fór ég aftur heim til Íslands, ánægður með ferðina og áfram 120% á því að Barcelona væri að fara áfram. Í fótbolta er þó aldrei hægt að bóka neitt fyrir fram.

Það héldu væntanlega allir það sama og ég, að Barcelona væri að fara áfram, en annað kom á daginn. Rómverjar komu öllum á óvart í síðari leiknum, unnu 3-0 og fóru áfram á útivallarmörkum. Það kvöld skrifaði ég úrslitafréttina úr leikjum Meistaradeildarinnar hér á Fótbolta.net og var fyrirsögnin: „Meistaradeildin: Liverpool kláraði sitt - Sturluð endurkoma Roma". Liverpool komst einnig áfram úr einvígi sínu gegn Manchester City. Það var á þessum degi fyrir tveimur árum þegar Kostas Manolas, sem hafði skorað sjálfsmark á Nývangi, skoraði markið sem fleytti Roma áfam í undanúrslitin gegn Liverpool.

Niðurlægingin var algjör fyrir Barcelona, en ekki var þetta í síðasta sinn sem Messi og félagar áttu eftir að lenda í slíkri niðurlægingu.

Athugasemdir
banner
banner
banner