Napoli reynir aftur við Garnacho - Arsenal ekki að ná að semja við Sporting um Gyökeres - Kudus í læknisskoðun hjá Spurs
   fim 10. júlí 2025 15:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Dóri Árna: Skrifa það frekar á hugrekki, skítur skeður
'Ég skrifa það á hugrekki frekar en eitthvað annað'
'Ég skrifa það á hugrekki frekar en eitthvað annað'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heilt yfir var þetta góð frammistaða en hefðum viljað aðeins betri úrslit
Heilt yfir var þetta góð frammistaða en hefðum viljað aðeins betri úrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dýrmætar 45 mínútur fyrir Kristin Jónsson.
Dýrmætar 45 mínútur fyrir Kristin Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor fékk krampa þegar hann var að elta sinn mann uppi.
Viktor fékk krampa þegar hann var að elta sinn mann uppi.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Spilað á Kópavogsvelli næsta þriðjudagskvöld. 'Þeir æfa á gervigrasi þannig það er ekkert sem þeir þekkja ekki'
Spilað á Kópavogsvelli næsta þriðjudagskvöld. 'Þeir æfa á gervigrasi þannig það er ekkert sem þeir þekkja ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer var nálægt því að skora rétt áður en Egnatia skoraði hinu megin.
Kristófer var nálægt því að skora rétt áður en Egnatia skoraði hinu megin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Gauti kom vel inn í lið Blika í seinni hálfleik.
Arnór Gauti kom vel inn í lið Blika í seinni hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við verðum að vera við öllu búnir'
'Við verðum að vera við öllu búnir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tapaði á þriðjudag 1-0 á útivelli gegn albönsku meisturunum í Egnatia í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Markið kom í uppbótartíma og var það varamaðurinn Ildi Gruda sem skoraði.

Það var jafnræði með liðunum, heimamenn í Egnatia voru meira með boltann og átti fleiri tilraunir en Breiðablik átti t.a.m. fleiri hornspyrnur. Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í dag.

Lestu um leikinn: Egnatia 1 -  0 Breiðablik

Góð frammistaða en hefðu viljað betri úrslit
„Góð frammistaða á móti góðu liði, mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum, hvenær og hvernig við opnuðum hann og hvenær við náðum að halda honum frekar lokuðum - sem hjálpaði okkur ágætlega. Þetta var 0-0 leikur en mér fannst við einhvern veginn líklegri til að setja mark ef það kæmi, þannig var tilfinningin. Auðvitað var óþarfi að fá á sig þetta mark í lokin, en fínt að vera búnir að þreifa aðeins á þeim og máta sig við þá. Við mætum mjög klárir á þriðjudaginn, mjög gott að vera búnir að spila við þá einu sinni og vitum núna meira um þá. Það er alltaf mikil óvissa að spila svona leiki, við vissum að þetta væri virkilega gott lið með virkilega góða einstaklinga. Heilt yfir var þetta góð frammistaða en hefðum viljað aðeins betri úrslit," segir Dóri.

Tveir gjörólíkir leikir á 90 mínútum
Sérðu að það eru opnanir og leiðir til að snúa þessu ykkur í hag í seinni leiknum?

„Klárlega. Þeir hafa spilað á tvo vegu, spila yfirleitt í fjögurra manna vörn með ákveðnar hreyfingar innan liðsins, þannig spiluðu þeir á undirbúningstímabilinu og byrjuðu þannig gegn okkur. Yfir síðustu tímabil, í stórum leikjum; bikarleikir og úrslitaleikir, þá fara þeir mikið í þetta fimm manna kerfi sem þeir fóru í snemma í fyrri hálfleik. Það er frábært að vera búnir að sjá þá í báðum kerfunum, það eru gjörólík svæði sem eru opin. Leikurinn fyrstu 20 mínúturnar og svo næstu 70 eru gjörólíkir leikir. Þeir breyta öllu þegar vinstri bakvörðurinn þeirra meiðist, mjög orkumikill leikmaður sem spilar hátt og fer upp og niður kantinn. Þeir fara eftir það í fimm manna vörn, færa hægri kantmann í vinstri vængbakvörð og miðjumann fram í tveggja manna framherjakerfi. Þetta er tvennt ólíkt. Við vorum kannski full lengi að ná að telja þá upp á nýtt eftir breytingu, en það eru klárlega möguleikar á móti þeim."

„Ég held þetta verði öðruvísi leikur á Kópavogsvelli, þeir munu nýta sér forystuna sem þeir eru komnir með, býst við að þeir komi í fimm manna vörn, verði passífir, reyni að loka leiknum; hafa hann hægan og tefja. Við verðum að vera við öllu búnir."


Fékk rautt fyrir að fagna sigurmarkinu
Regi Lushkja í liði Egnatia fékk rauða spjaldið fyrir að fagna sigurmarkinu. Er jákvætt fyrir ykkur að hann verði ekki með í seinni leiknum?

„Ég held það skipti engu máli, það eru gríðarleg einstaklingsgæði í liðinu, margir góðir leikmenn. Hann var þeirra mesti markaskorari á síðasta tímabili, spilar mikið í kringum framherjann, frábær í að koma sér inn í teiginn og í því að skora mörk. Hann var lítið með í þessum leik þangað til hann fór út af, gerði lítið. Gruda sem kom inn á og skorar sigurmarkið tekur væntanlega hans stöðu í seinni leiknum. Hann er allt öðruvísi leikmaður, Lushkja vill vera frjáls, fá boltann í lappir í kringum teiginn. Gruda er kraftmeiri, mjög fljótur og hleypur inn fyrir. Ég sagði það fyrir leikinn að Egnatia væri að sækja einn besta leikmann deildarinnar þegar þeir sóttu hann frá Vllaznia. Það er allavega ekki slakur leikmaður sem kemur inn í staðinn, ólík týpa kannski."

„Ég er ekki ósáttur við markið, bara skítur skeður"
Er þjálfarinn eitthvað sérstaklega ósáttur við eitthvað í sigurmarki Egnatia? Gruda slapp í gegn eftir að Blikar höfðu fengið gott færi hinu megin á vellinum.

„Nei, það er rosalega erfitt fyrir mig að vera það. Leikurinn er lokaður, það kemur kafli í kringum 70+ þar sem þeir fá hornspyrnur og langskot þar sem mér fékk tilfinninguna að við þyrftum mögulega að harka út leikinn, en svo kom alls ekki til þess. Eftir 80. mínútu vorum við svolítið með þá á þeirra vallarhelmingi, fengum mikið af föstum leikatriðum, góðar sóknir og fínar stöður. Kristó(fer Ingi Kristinsson) var mjög nálægt því að skora sekúndum áður en við fáum markið á okkur."

„Menn fá sjálfstraust og líður eins og þarna sé tækifæri til að setja mark sem endar í að við erum að reyna pressa þá maður á mann í innkasti, orðnir mjög lúnir í fótunum... það er auðvelt að færa rök fyrir því að það sé ekki brjálæðislega skynsamlegt að spila maður á mann á þeirra vallarhelmingi á 92. mínútu í þessari stöðu. Það var bara afleiðing af því hvernig þetta var að spilast á þeirri stundu, við vorum að sækja. Ég skrifa það á hugrekki frekar en eitthvað annað."

„Einhvern veginn fellur allt fyrir þá í þessari sókn, Viktor (Örn Margeirsson) er að hlaupa hann uppi en fær krampa þegar hann er að byrja sprettinn einn á einn. Það er ekkert við því að gera. Það er rosa auðvelt að segja að við hefðum ekki átt að setja menn upp í hornum og reyna harka út leikinn, en svo hefðum við líka orðið ofboðslega ánægðir ef Kristó hefði skorað úr færinu sem Óli Valur skapaði. Ég er ekki ósáttur við markið, bara skítur skeður."


Frábærar 45 mínútur fyrir Kidda
Kristinn Jónsson byrjaði sinn fyrsta leik á tímabilinu úti í Albaníu en fór af velli í hálfleik.

„Kiddi er fínn, upprunalega planið var að hann gæti spilað aðeins lengur, og hann hefði sennilega getað gert það. En bara hvernig þetta var, að fara setjast niður í korter og fara svo aftur út fyrir einhverjar örfáar mínútur, okkur fannst óþarfi að taka séns á því, þetta var það mesta sem hann hefur spilað í sumar."

„Eftir að þeir fóru í að spila með þrjá hafsenta settu þeir fimm menn upp í efstu línu og þegar þú spilar maður á mann á móti því þá endar þú með fimm niðri. Það hentaði vel fyrir Arnór Gauta að vera með Ujka, stóru tíuna þeirra, á móti sér og gerði frábærlega á móti honum. Það var frábært að fá 45 frábærar mínútur frá Kidda og frábært fyrir hann líka. Ef við hefðum spilað honum lengur, hann mögulega fengið eitthvað í nárann, þá hefði maður ekki fyrirgefið sér það."


Ólíklegt að Andri nái seinni leiknum
Fljótt á litið þegar fimm dagar eru í leik, verður sami leikmannahópur? Getur Andri Yeoman jafnvel spilað?

„Ég held það sé mjög ólíklegt að Andri geti spilað, því miður."

Þolinmæðisvinna framundan
Dóri talaði um að Egnatia gæti farið í að loka leiknum og tafið leikinn. Hvað er besta ráðið við því?

„Það verður að vera þolinmæði. Ef við ætlum að flýta okkur of mikið og opna okkur of mikið, þá sannarlega hafa þeir einstaklingsgæði til að refsa. Þetta verður klárlega þolinmæðisvinna. Við þurftum alltaf markið til þess að vinna, núna þurfum við markið til að jafna. Það breytist lítið. Það vita það allir að þegar þú kemur heim með tap, þá viltu helst ekki lenda undir. Við þurfum að gera þetta vel og skynsamlega, þurfum að vera mjög orkumiklir, kraftmiklir og setja á þá, þrýsta þeim niður ef þeir ætla að leggjast til baka eins og mig grunar að þeir geri."

„Þeir spiluðu undanúrslitaleik í maí sem efsta liðið í deildinni og spiluðu við liðið í 4. sæti, þeim dugði jafntefli í þeim leik, þeir mættu til að ná því og sá leikur fór 0-0. Mér finnst mjög líklegt að þeir mæti í svipuðum ham á móti okkur og eðlilega bara. En svo veit maður aldrei, það er einhvern veginn ekki í eðli þessara leikmanna að liggja, þetta eru frábærir leikmenn margir hverjir og þeir vilja spila. Þeir æfa á gervigrasi þannig það er ekkert sem þeir þekkja ekki. Ég geri ráð fyrir þeim passífum en við þurfum að vera klárir í hvað sem er,"
segir Dóri.

Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudaginn og hefst sá leikur klukkan 18:30.
Athugasemdir