Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   mið 11. september 2013 08:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fjarlægi draumurinn sem getur orðið að veruleika
Alexander Freyr Tamimi
Alexander Freyr Tamimi
Gylfi hefur verið magnaður í þessari undankeppni.
Gylfi hefur verið magnaður í þessari undankeppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið hefur sjaldan verið betra.
Íslenska landsliðið hefur sjaldan verið betra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gærkvöldi vann íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu frábæran 2-1 sigur gegn Albaníu í einum mikilvægasta landsleik sem liðið hefur spilað í háa herrans tíð.

Uppselt var á Laugardalsvöllinn og vel heyrðist í áhorfendum, sem gerðu sér fullkomlega grein fyrir mikilvægi þessarar viðureignar. Ekki veit ég hvenær var síðast uppseld á landsleik, hvað þá gegn mótherjum sem eru langt frá því að teljast stórþjóð í knattspyrnunni, en íslenskir stuðningsmenn voru frábærir í gærkvöldi, sem og auðvitað íslenska landsliðið.

Ekki eru ótalmörg ár síðan maður hafði nánast sætt sig við það að maður myndi aldrei sjá íslenska landsliðið fara í lokakeppni heimsmeistaramótsins. Við værum einfaldlega of litlir fyrir þetta mót og ekki með nærri því nógu gott lið til að fara á HM. Mig minnir að ég hafi verið þessarar skoðunar, og ég býst við að margir hafi deilt henni. Í besta falli var þetta ansi fjarlægur draumur.

Nú er öldin önnur og þessi áður fjarlægi draumur er alls ekki langt frá því að verða að veruleika. Eftir frábært stig gegn Sviss og enn betri sigur gegn Albaníu er Ísland nú í 2. sæti E-riðils með 13 stig þegar tveir leikir eru eftir. Ólýsanleg framför frá síðustu undankeppnum, þar sem maður vonaði bara að liðið myndi ekki enda í neðsta sæti.

Enn er tölfræðilegur möguleiki á fyrsta sætinu, en möguleikinn á öðru sætinu er frábær fyrir leikina gegn Kýpur og Noregi. Það myndi að öllum líkindum duga til umspils. Að komast í umspil væri auðvitað bara hálfur sigur, en þá værum við tveimur úrslitaleikjum frá því að spila í Brasilíu – ótrúlega nærri takmarkinu.

Auðvelt er að gráta töpuð stig í þessari undankeppni gegn Kýpur á útivelli og Slóveníu á heimavelli. Ef þeir leikir hefðu sigrast værum við auðvitað í stórkostlegum málum á toppi riðilsins, svo gott sem komnir í umspil og í fínum möguleika á fyrsta sætinu.

En að þessum tveimur leikjum frátöldum hafa strákarnir verið frábærir. Tapið heima gegn Sviss var mjög góður leikur af hálfu íslenska liðsins og sjö stig í þremur útileikjum eru gríðarlega dýrmæt. Sjaldan hefur Ísland sankað jafn mörgum stigum að sér á útivelli.

Íslenska karlalandsliðið er bara orðið fáránlega gott. Við erum með marga ótrúlega góða leikmenn, þá kannski sérstaklega í sókninni, og við getum einfaldlega veitt hvaða liði sem er verðuga samkeppni. Svo ég skjóti í gömlu góðu höfðatöluna, þá erum við að gera ótrúlega hluti miðað við hversu fámenn við erum. Það er svo fáránlega gaman að vera Íslendingur og fótboltaáhugamaður núna að það nær engri átt. Gærkvöldið var toppurinn á tilverunni!

Ef Ísland vinnur Kýpur í næsta leik, sem er nú bara hálfgerð krafa þrátt fyrir að hafa tapað úti, þá ættu þúsundir okkar að bóka miða til Noregs í þann ótrúlega úrslitaleik sem boðið verður upp á þar. Þetta er í okkar höndum, svo einfalt er þetta. Ef við vinnum báða leiki er annað sætið okkar, og HM 2014 í Brasilíu ótrúlega nærri.

Við sem Íslendingar eigum að vera þakklát fyrir hversu frábært landsliðið okkar er orðið. Ég hef trú á því að það verði bara enn betra á næstu árum. Hvort sem við förum á HM 2014 eða ekki, þá er staðreyndin sú að þegar tveir leikir eru eftir af riðlakeppninni eigum við meira en raunhæfa möguleika á að fara þangað – Hversu gaman er það?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner