Orri Steinn Óskarsson kom nokkuð óvænt inn í byrjunarlið Íslands gegn Bosníu í kvöld. Þessi efnilegi sóknarmaður kom sterkur inn í liðið og skilaði sínu vel.
Age Hareide, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum á fréttamannafundi eftir leikinn og var þar spurður út í ákvörðun sína að byrja með hinn 19 ára gamla Orra Stein í liðinu. Hvað varð til þess að hann tók ákvörðunina?
„Frammistaða hans með FCK," svaraði hann þá. Orri er leikmaður FC Kaupmannahafnar, stærsta félags Norðurlanda. Þar hefur hann verið að fá gott hlutverk í byrjun tímabilsins.
„Ég hef farið á leiki hjá honum og ég hef séð hann spila í sjónvarpinu. Ég horfi á flestalla leiki. Ég sat með Kasper Hjulmand, landsliðsþjálfara Danmerkur, á Parken og hann sagði við mig að hann hefði vart séð leikmann sem er eins góður í að klára færi og Orri."
„Hann er ekki hræddur við neitt og hann er tilbúinn að leggja mikið á sig. Þú verður að gera það. Ég byrjaði næstum því líka með Kristian Hlynsson en hann er næstur í röðinni. Hákon spilar, Orri spilar og Kristian fer fljótlega að spila. Kristian er að spila með Ajax, einu besta liði Evrópu. Ég elska ungu leikmennina hérna. Þetta eru góðir fótboltamenn og þeir eru vel þjálfaðir. Þeir eru með íslenskt hugarfar, þeir leggja mikið á sig og þeir eru sterkir í hausnum."
„Við erum líka með Ísak (Bergmann Jóhannesson) í sama aldursflokki. Svo erum við líka með frábæra markverði. Það er einn í Noregi (Patrik Sigurður Gunnarsson) sem er ekki með hópnum núna og svo erum við með einn í U21 landsliðinu sem er að spila með Hoffenheim, Lúkas Petterson. Hann æfði með okkur og hann er frábær markvörður, algjörlega frábær. Það er gott fyrir Ísland."
Framtíðin er greinilega björt, allavega framarlega á vellinum.
„Við verðum að leyfa þessum ungu leikmönnum að vera hluti af hópnum. Ég er ekki hræddur við að spila ungu leikmönnunum," sagði Hareide.
Athugasemdir